Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 18:41:00 (6742)

2000-04-27 18:41:00# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[18:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Vitanlega talar hver flokkur fyrir tillögum sínum, reynir að afla þeim fylgis og fær við þær undirtektir eða ekki. Um það erum við hv. þm. væntanlega sammála.

Sumt annað í málflutningi þingmannsins erum við svo sannarlega ekki sammála um. Satt best að segja, virðulegi forseti, hlýtur vinstri grænum að líða eitthvað illa vegna þess að með ólíkindum er hvernig málflutningur þeirra hefur verið hér í dag. Mér finnst það ágætt að hv. þm. hefur haft fyrir því að fá útskrift á þættinum í gær og ég legg til og vona að hann fái útskrift af öllum þættinum.

Hér hafa þingmenn viljandi valið að mistúlka ummæli mín og láta eins og þau eigi við allar umræður flokkanna um sjávarútvegsmál. Í útskriftinni kemur fram, og hv. þm. var að lesa það, að ég fékk spurningu um utandagskrárumræðu um dóminn, um dóm sem lýtur að úthlutun veiðiheimilda og ranglætinu sem er að kljúfa þjóðina niður í rót. Þingmenn eru búnir að margfara yfir tillögur sínar hér, þær tillögur sem ég var að vísa til og hvaða hugmyndir sé að finna í grg. með þáltill. sem er um nefndarskipun. Og það var sú tillaga sem ég var að vísa til.

Þeir hv. þm. hafa sagt um orð mín að þau séu ósanngjörn, röng, ósannindi, og mér finnst þetta alveg fráleit viðbrögð. Ég hef ekkert, herra forseti, út á umfjöllun Guðjóns A. Kristjánssonar að setja. Ég benti á að þeir ættu ekki fulltrúa í þessum umræðuþætti og mér finnst viðbrögð hans bara eðlileg.

En stjórnarandstaðan er ekki flokkur. (Forseti hringir.) Við höfum sýnt góða samstöðu, viljað samstarf á flestum sviðum og ég tek því mjög illa hvað (Forseti hringir.) hv. þm. er að gefa í skyn þegar hann talar hérna um ,,solidaritet`` á þann hátt sem hann gerir.