Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 18:52:44 (6748)

2000-04-27 18:52:44# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, GAK
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[18:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér hefur farið fram allítarleg umræða um ýmislegt sem snýr að stjórn fiskveiða og tengst hefur þessu frv. og þeirri umræðu sem hér hefur farið fram í dag almennt um fiskveiðistjórnarmálin. Það eru nokkur atriði sem væri kannski rétt að koma enn nánar að varðandi þá tillögu sem kemur frá meiri hlutanum. Í nál. meiri hlutans segir m.a., með leyfi forseta:

,,Loks er lagt til að heimilað verði, með ákveðnum skilyrðum, að flutt verði krókaaflahlutdeild af báti sem ekki hefur veiðileyfi með krókaaflamarki á fiskveiðiárinu 2000/2001 til báts sem slíkt leyfi hefur.`` --- Með ákveðnum skilyrðum.

Ég hef ekki getað séð nákvæmlega skilgreininguna á þessum ákveðnu skilyrðum. Ég hef áður bent á varðandi þetta frv. að opna stækkunarmöguleika bátanna án þess að hafa fyrir því neinn vegvísi hversu mikið megi stækka bátana sem fara í krókaaflahlutdeildarkerfið. Mér finnst heldur ekki skýrt þarna að það sé lokuð leið að færa til aflamörk eins og má lesa út úr tillögunni. A.m.k. segir í nál. meiri hlutans: ,,Loks er lagt til að heimilað verði, með ákveðnum skilyrðum, að flutt verði ...`` o.s.frv. Ég hef ekki séð það nákvæmlega hver þessi ákveðnu skilyrði væru til að menn gætu farið að sameina heimildir því að áður í tillögunni sagði eingöngu, að menn gætu tekið með sér þann rétt sem þeir hefðu og hefðu haft fyrir 1. apríl árið 2000. Ég hefði viljað spyrja formann eða varaformann nefndarinnar eða einhvern annan úr meiri hluta sjútvn. hvaða skýring væri á þeim texta sem kemur fram í nál., hvað það merkti og hvaða skilyrði væri þá á bak við ,,með ákveðnum skilyrðum``.

Ég vil mælast til þess við félaga mína í sjútvn. að þeir skoði þau mál sem við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson höfum lagt fram sem brtt. í meðferð þessa máls. Hitt liggur eftir sem áður fyrir að í frv. sem við tökum þessar brtt. úr skildum við eftir viljandi eina grein. Hver var hún? Hún var um að sett yrðu sólarlagsákvæði í lögin og lögin féllu úr gildi.

Við höfum ekki flutt það sem brtt. við málið og hyggjumst láta á það reyna í sjútvn. að menn fallist á að setja sólarlagsákvæði í lögin. Það kemur þá til þess hvort það fæst eða ekki og það er auðvitað spurning, miðað við yfirlýsingu sjútvrh. í gær að bæta við einu ári í endurskoðunartímann, hvort stjórnarflokkarnir væru þá tilleiðanlegir að setja sólarlagsákvæði við árið 2002. Það lægi þá bara alveg skýrt fyrir að núverandi löggjöf eins og hún er úr garði gerð félli úr gildi og önnur tæki við. Það hefur ekkert komið fram um það í máli manna í dag að slíkt væri inni í myndinni. Þess vegna vil ég við lok umræðunnar vekja athygli á því að við komum ekki með sólarlagsákvæði sem brtt. við málið vegna þess að við munum að sjálfsögðu óska eftir því að tekin verði afstaða til þess í sjútvn. ekki síst í ljósi ummæla hæstv. sjútvrh., hvort sólarlagsákvæðið eigi að ná að ganga fram og hvort ráðherrann vilji þá standa við það að taka það inn í lög þó það verði árið 2002.

Að gefnu tilefni dreg ég það einnig fram að þetta ákvæði var í frv. okkar um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða því að varla verður skýrar sagt að menn ætli að breyta lögum um stjórn fiskveiða en að leggja til að núverandi löggjöf falli úr gildi. Í því sambandi vil ég vitna til ummæla sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir viðhafði um að við hefðum ekki lagt til beinar tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnarlögunum. Við lögðum beinlínis til að þau féllu úr gildi. (Gripið fram í.) Í vegvísi okkar höfum við lýst hvernig við vildum vinna að því að búa til nýja löggjöf sem tæki við. Það getur varla hafa farið fram hjá jafnskýrum manni og hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að slíkur vegvísir hafði verið settur á blað og honum sendur til yfirlestrar í janúar.

Ef ég reyni að draga þá umræðu saman sem hér hefur farið fram í dag, þá finnst mér í raun og veru að við í stjórnarandstöðuflokkunum eigum miklu fleira sameiginlegt í að finna farveg út úr þessu máli en umræðan hér í dag hefur kannski gefið til kynna og þær deilur sem menn hafa verið að fjalla um. Ég held að þetta sé spurning um að stjórnarandstaðan ræði saman og reyni að nálgast sjónarmið hvers annars í þessu máli. Ég á mér þann draum að hægt verði að komast út úr því braskkerfi sem við erum í. Það er eitt höfuðmálið fyrir íslenska þjóð til framtíðar. Ég orðaði það svo í dag og ætla að endurtaka það að í mínum huga eigum við bara tvær leiðir. Við eigum það sem ég kalla skynsemisleið sem er að vinna sig í áföngum út úr þessu kerfi og einhvers konar tillögugerð hefur verið sett fram af öllum stjórnarandstöðuflokkunum, hvort sem það hefur birst í þáltill. eða frv. Samfylkingarinnar, að komast út úr þessu kerfi. Ég held að það sé skynsamlegt. En þá þarf því braski að linna, helst sem allra fyrst, sem verið hefur í gangi og skipt hefur þjóðinni í þær miklu fylkingar og illdeilur sem átt hafa sér stað um mörg undanfarin ár. Það verður engin sátt um að braskið haldi áfram með þeim hætti sem verið hefur á undanförnum árum. Og að hvert verkfallið reki annað og vinnudeilur verði uppi aðallega við samtök sjómanna um hvernig veiðirétturinn hefur gengið kaupum og sölum og hvernig leigurétturinn hefur sett menn í ákveðna stöðu um að samningsbundin og lögbundin kjör þeirra hafi verið notuð.

Þetta held ég að sé hið raunverulega stóra verkefni stjórnarandstöðunnar. Eftir því sem stjórnarandstaðan getur nálgast meira innbyrðis í þessu máli, því meiri líkur eru til þess að sameiginleg vigt hennar hafi áhrif á ríkisstjórnarflokkana í málinu, vonandi með stuðningi þjóðarinnar, því að a.m.k. í skoðanakönnunum hefur slíkur stuðningur komið fram á þann veg að breyta þurfi og hverfa frá þessum lögum eins og þau eru útfærð. Ég held að draga megi umræðuna þannig saman að stjórnarandstaðan hafi öll sagt að það væri óviðunandi að hafa til framtíðar litið óbreytt lög um stjórn fiskveiða.

Mér finnst hins vegar að í tillögum Samfylkingarinnar sé boðið upp í þann dans að braska í 10 ár í viðbót og það finnst mér óásættanlegt.

Að svo mæltu vil ég segja að ég geri mér nokkrar vonir eftir að hafa hlustað á orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um að líta þurfi til réttinda byggðanna og að engin sátt verði um að hér verði bjargarlausar byggðir, kvótalausar eða kvótalitlar, þar sem atvinnan og afkomuréttur fólksins eigi algerlega undir högg að sækja. Ég geri mér nokkrar vonir um að bæði í Framsfl. og í Sjálfstfl. séu menn sem gætu fallist á þá hugmynd að afnema kvótabraskið. Það hefur komið fram í tillögum hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar og hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar. Ég geri mér því nokkrar vonir um að ef menn næðu saman um skynsamlega stefnumótun, þá færi að vegast á hvorum megin slíkur málflutningur yrði afgreiddur í þinginu. A.m.k. ef marka má það sem menn hafa verið að segja í umræðu um stjórn fiskveiða á undanförnum dögum, vikum og missirum.

Ég vil svo í lokin gefa stjórnarmeirihlutanum kost á því að ræða tillögur okkar með því að draga þær til baka til 3. umr. Ég vonast til þess að á komandi nefndardögum gefi menn sér tíma til að ræða þessi mál meira og betur en gert hefur verið og það komi þá í ljós hvort stjórnarmeirihlutinn vill nálgast eitthvað þá framsetningu sem m.a. felst í brtt. þeim sem við höfum kynnt. Ég mun þess vegna leggja til, hæstv. forseti, að brtt. verði dregnar aftur til 3. umr. og vonast til þess að þær fái frekari umfjöllun í sjútvn.