Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 19:25:26 (6752)

2000-04-27 19:25:26# 125. lþ. 103.9 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[19:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. verður að sjálfsögðu að eiga við sjálfa sig aðdróttanir hér eða hálfkveðna vísu um að eitthvað annað liggi að baki en það sem sagt er eða tekið upp sem til efni umræðna. Ég elti ekki ólar við slíkt.

Staðreyndin er sú að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson tók þetta mál sjálfur upp í umræðum fyrst í dag og honum var greinilega stórlega misboðið og það var okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs einnig. Mér var kunnugt um það áður en þingfundur hófst að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson tók þeim kveðjum mjög illa sem hann fékk í sjónvarpsþættinum í gærkvöldi, í raun og veru tvöföldum kveðjum, annars vegar þeim frá Ríkissjónvarpinu að hafa hann þar ekki með og láta sem sá þingflokkur væri ekki til og hins vegar og þeim mun ósmekklegar því hvernig reynt var að gera lítið úr málafylgju þess flokks í sjávarútvegsmálum af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Lái hv. þm. hver sem vill. Þess vegna mættum við þingmenn beggja þessara flokka til fundar mjög óhressir með það hvernig þar hafði verið að verki staðið.

Þegar ekki var sýnd nein viðleitni af hálfu talsmanna þingmanna Samfylkingarinnar til að gera gott úr þessum hlutum þá geta menn varla verið mjög undrandi á því að nokkuð þykknaði í mönnum og það harðnaði í umræðunni. Annað hefði verið mikið geðleysi að mínu mati og það verða þingmenn Samfylkingarinnar og einnig hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir að átta sig á, hafi hún ekki áttað sig á því enn þá eftir samskipti okkar í pólitík, að það er ekki mikill skortur á geðríki af minni hálfu.