Brunatryggingar

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 19:39:51 (6756)

2000-04-27 19:39:51# 125. lþ. 103.42 fundur 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[19:39]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nefndaráliti við frv. til laga um breyting á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994.

Efh.- og viðskn. fjallaði um þetta mál. Það er flutt í tengslum við svokallaða Landskrá fasteigna sem verið er að koma á fót. Meginefni frv. er að hækka svokallað umsýslugjald sem á að nota til þess að fjármagna uppbyggingu á þessari svokölluðu Landskrá fasteigna.

Nefndin sendi málið til umsagnar til ýmissa aðila og fékk þá á fund við sig og þeirra er getið í nefndaráliti á þskj. 1055.

Nefndin gerði ákveðnar breytingar á frv. sem fólust aðallega í því að breyta eðli gjaldtökunnar þannig að umsýslugjaldið, sem yrði tímabundið gjald, yrði lagt á á árunum 2001--2004, sem þýddi að árið 2000 yrði gjaldið óbreytt, þ.e. 0,025‰, en á árunum 2001--2004, þessum fjórum árum, skyldi gjaldið vera 0,1‰ af brunabótamati. Vátryggingafélög innheimta þetta gjald samhliða innheimtu brunatryggingaiðgjalda og þetta umsýslugjald á að duga til þess að byggja upp hina svokölluðu Landskrá fasteigna sem allir eru sammála um að sé þjóðþrifamál.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hlutans í þessu máli, en hann skipa auk mín hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Sigríður Anna Þórðardóttir, Pétur H. Blöndal, Gunnar Birgisson og Ögmundur Jónasson, sem reyndar er með fyrirvara í málinu.