Brunatryggingar

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 19:42:17 (6757)

2000-04-27 19:42:17# 125. lþ. 103.42 fundur 285. mál: #A brunatryggingar# (Landskrá fasteigna) frv. 40/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[19:42]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Þetta frv. hæstv. fjmrh. felur í sér að fasteignaeigendur verði látnir bera kostnaðinn við að koma á einu samhæfðu gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir og réttindi sem þeim tengjast. Við í minni hlutanum, sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir skipar ásamt mér, teljum algjörlega fráleitt að bæta enn einum pinklinum á fasteignaeigendur með þeim hætti sem hér er gert og mótmælum því og munum greiða atkvæði gegn þessu frv.

Það kom vissulega fram í starfi nefndarinnar og umsögnum ýmissa aðila að þeir taka undir þetta sjónarmið okkar hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. T.d. kemur fram í umsögn að færa megi rök fyrir því að skráin hafi svo almennt gildi í þjóðfélaginu að eðlilegt sé að fjármagna hana af skatttekjum ríkissjóðs fremur en að hækka umsýslugjaldið, enda flytjum við með nefndarálitinu fylgiskjal sem sýnir allan þann fjölda aðila sem mun hafa not af þessari Landskrá fasteigna, þ.e. opinberir aðilar, stjórnsýslan, sveitarstjórnir, tryggingafélög, fasteignasalar, sýslumenn, tollstjórinn, ríkisskattstjóri, yfirskattanefnd og fleiri. Byggingaraðilar ýmsir munu t.d. hafa gagn af þessari skrá og því er auðvitað rétt að hún hefur almennt notagildi. Þarna er ríkið að fara út í ákveðna fjárfestingu sem síðan er hægt að taka af notendagjöld. Því ætti ríkið að líta á þetta sem ákveðna fjárfestingu og því er rétt og eðlilegt að ríkið standi undir þessu eða taki af þessu notendagjöld. Við erum hér að ræða um töluverðar fjárhæðir eða rúmar 600 millj. sem það kostar að koma á fót þessari skrá. Gert er ráð fyrir að þessi kostnaður skiptist á fjögur ár, um 150 millj. kr. á ári og síðan verði rekstrarkostnaður af Landskránni um 100 millj. kr. á ári.

Í nefndarálitinu er farið ítarlega yfir, herra forseti, hve mikil gjaldtakan er núna af fasteignaeigendum, t.d. í formi þessa umsýslugjalds sem mikið hefur verið notað, þ.e. þessi stofn sem hér á enn að fara að bæta á. Það kemur reyndar fram í frv. að þessi stofn er notaður bæði sem viðlagatryggingagjald og sem ofanflóðagjald, þar er þessi stofn notaður, og eins sem brunavarnagjald og síðan umsýslugjald til Fasteignamats ríkisins. Og enn á að bæta á þann pinkilinn fyrir utan ýmislegt annað sem fasteignaeigendur verða að standa undir sem hér er talið upp, herra forseti, í þessu nefndaráliti. Niðurstaða okkar eftir lauslegt mat og skoðun er að áætla má að ríkissjóður hafi ekki undir 8 milljörðum kr., herra forseti, í tekjur á ári af fasteignaeigendum. Því er aldeilis fráleitt að vera enn eina ferðina að leggja þessa gjaldtöku á fasteignaeigendur.

Ég ætla ekki að fara nánar ofan í okkar rök eða forsendur í þessu máli. Þau koma mjög skýrt fram í ítarlegu nefndaráliti með þessu máli. Fleiri aðilar hafa tekið undir þetta eins og Samtök íslenskra tryggingafélaga sem m.a. benda á að með þessari leið sem hér er valin séu húseigendur einir látnir standa undir kostnaðinum, en eigendur lóða, jarða, hlunninda og ítaka hvers konar sem virt eru til fasteignamats verða hins vegar undanþegnir þessari gjaldtöku.

Sama má segja um ASÍ sem sendi umsögn sem gerir athugasemdir við það --- það var líka mikið gert í starfi nefndarinnar --- að ekki var lagt neitt mat á þann sparnað sem er af þessum breytingum og sem óhjákvæmilega munu verða og hefði ríkissjóður auðvitað getað bætt sér upp þann kostnað ef ríkissjóður hefði staðið undir þessu með því þá að spara á þeim stöðum í ríkiskerfinu þar sem sparnaður sannanlega verður af þessari breytingu. Þess vegna munum við, herra forseti, í minni hlutanum, greiða atkvæði gegn þessu frv.