Skráning og mat fasteigna

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 19:50:51 (6760)

2000-04-27 19:50:51# 125. lþ. 103.43 fundur 290. mál: #A skráning og mat fasteigna# (Landskrá fasteigna) frv. 47/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[19:50]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég get vissulega tekið undir það með hv. formanni nefndarinnar að hér er á ferðinni mjög þarft mál og gagnlegt, þ.e. að koma á fót einu samhæfðu gagna- og upplýsingakerfi um fasteignir. Um það var lítill ágreiningur í nefndinni. Helst greindi menn á um síðasta málið sem við ræddum, þ.e. kostnaðinn af því að koma Landskrá á fót og reka hana.

Eitt var töluvert rætt í nefndinni og einnig við 1. umr. þessa máls. Það var um persónuverndina, hvort hún væri nægilega tryggð að því er þetta frv. varðar. Tölvunefnd sendi umsögn til nefndarinnar og ég vil fá að vitna í þá umsögn, herra forseti, en þar kemur fram eftirfarandi:

,,Tölvunefnd telur nauðsynlegt að gerðar verði ráðstafanir til að tryggja meðferð persónuupplýsinga í Landskrá fasteigna. Að mati tölvunefndar þarf að setja skýrar reglur um hvernig upplýsinga megi afla, varðveitta og haga aðgangi að þeim. Því leggur nefndin til að í frumvarpið verði bætt eftirfarandi ákvæðum:`` --- sem ég ætla að lesa, herra forseti, en það eru ákvæði sem ég og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir tökum orðrétt upp í brtt. sem eru svohljóðandi:

,,Fasteignamat ríkisins skal gera viðeigandi öryggisráðstafanir til að tryggja vernd persónuupplýsinga í Landskrá fasteigna. Lýsing á þeim öryggisráðstöfunum og öryggisreglum sem fyrirhugað er að innleiða skal lögð fyrir tölvunefnd. Að lokinni umfjöllun tölvunefndar skal laga öryggisráðstafanir og öryggiskröfur að þeim kröfum sem tölvunefnd setur um vernd persónuupplýsinga.

Fasteignamat ríkisins ber ábyrgð á því að öryggisráðstafanir séu ávallt í samræmi við kröfur tölvunefndar.

Tölvunefnd getur hvenær sem er endurmetið kröfur sínar í ljósi nýrrar tækni, reynslu eða breyttra viðhorfa til öryggismála.

Kostnaður af úttekt tölvunefndar á öryggi kerfisins skal greiddur af Fasteignamati ríkisins.``

Þannig hljóðar þessi brtt. sem við flytjum. Ég tel afar brýnt að þetta ákvæði komist inn þannig að hægt sé að útbúa nauðsynlegar aðgangshindranir sem hugsanlega þurfa að vera. Það þarf að greina hverjar þær öryggisráðstafanir séu sem þarna þarf að gera. Þarna er mjög mikilvægt verkefni á ferðinni sem tengist Landskránni. Hv. formaður nefndarinnar nefndi að Fasteignamat ríkisins mundi standa straum af því að gera þær öryggisráðstafanir sem gera þarf í samráði við tölvunefnd.

Þetta var vissulega rætt í nefndinni og einmitt að viðstöddum formanni tölvunefndar, Páli Hreinssyni. Hann minnti á, sem ég vil halda til haga í þessari umræðu, að í tengslum við frv. um gagnagrunn á heilbrigðissviði hafi verið getið um það í nál., eins og verið er að gera nú að ,,tölvunefnd ber að tryggja að verklag og vinnuferli, m.a. tæknilegar aðgangstakmarkanir, séu þannig að persónuverndar sé gætt þegar gagnagrunnarnir eru tengdir saman tímabundið.``

Formaður tölvunefndar upplýsti hins vegar að þrátt fyrir að þetta hafi staðið hér hafi ekki verið farið í þetta verkefni vegna þess að samkomulag liggur ekki fyrir um hver eigi að greiða kostnaðinn sem af þessu hlýst. Þess vegna er það mjög mikilvægt öryggisatriði þegar við göngum frá þessu máli í þinginu að þetta ákvæði sé partur af lagasetningunni þannig að tryggilega verði frá þessu gengið og örugglega verði farið í þetta verkefni sem ég tel afar brýnt, að tryggja persónuverndina í þessu máli. Þess vegna flytjum við þessa brtt. sem ég hef hér lýst.