Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 19:55:12 (6761)

2000-04-27 19:55:12# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[19:55]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. og brtt. við frv. til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Frv. þetta fjallar einkum um tvö atriði. Í fyrsta lagi er verið að rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga og í annan stað varða ýmis atriði eftirlit og tæknilega þætti í stjórnun og rekstri sjóðanna.

Efh.- og viðskn. sendi þetta frv. til umsagnar allmargra aðila. Ýmsir aðilar komu til fundar við nefndina og þeirra er getið í nál.

Meiri hlutinn leggur til ýmsar breytingar á frv. Þær eru í sjö liðum.

Í 1. lið brtt. er gerð tillaga um að tvær nýjar greinar bætist við frv. Í þeirri fyrri kemur fram að lífeyrissjóðir skuli senda sjóðfélögum sínum yfirlit um iðgjaldagreiðslur eigi sjaldnar en á hálfs árs fresti og skuli fylgja því áskorun til sjóðfélaga að gera án tafar athugasemdir ef sannanlega innheimt iðgjöld hafa ekki borist sjóðnum. Síðan er orðalagsbreyting þar til viðbótar.

Í 2. lið er gerð brtt. við 3. gr. frv. er verði 5. gr. þess sem er eingöngu orðalagsbreyting.

Í 3. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 4. gr. frv. þannig að hún orðist eins og þar segir. Annars vegar er eingöngu tilvísanabreyting en síðan er lagt til að þarna komi tvær nýjar málsgreinar sem orðist eins og þar segir. Þetta er reyndar svipaður texti og í 4. gr. frv. eins og hann lá fyrir. Það sem hér er einnig á ferðinni er að 33. gr. laganna, eins og hún stendur í dag, mun halda áfram að verða til en í 33. gr. laganna er fjallað um gerðardóma. Tillaga nefndarinnar er að ákvæði laganna um gerðardóma standi áfram.

Í 4. lið brtt. er gerð tillaga til breytinga á 6. gr. frv. sem fjallar um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða. Reiknað með því að lífeyrissjóðir skuli senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína eigi síðar en 1. desember ár hvert til Fjármálaeftirlitsins. Síðan skuli Fjármálaeftirlitið setja reglur um form eða efni fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og hvernig skila skuli henni til eftirlitsins. Það er efnisleg breyting frá því sem var í frv. þar sem gert er ráð fyrir að þetta verði í höndum fjmrh.

Í 5. lið brtt. er gerð tillaga við 8. gr. Þar er enn fremur verið að flytja hlutverk til Fjármálaeftirlitsins frá fjmrh. Þessi tillaga fjallar um að með ársreikningum lífeyrissjóða skuli fylgja úttekt á ávöxtun eignasafna og sú fjárfestingarstefna sem starfað er eftir.

Í 6. lið brtt. er einungis verið að flytja til greinar í frv.

Í 7. lið brtt. er gert ráð fyrir nýrri grein er verði 12. gr., svohljóðandi:

,,Í stað síðari málsliðar 53. gr. laganna koma fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Um réttindi sjóðfélaga til greiðslu lífeyris úr sjóðum sem starfa samkvæmt greininni fer eftir reglugerðum hlutaðeigandi sjóða sem í gildi voru við gildistöku laga þessara. Þó skal heimilt að breyta ákvæðum um réttindi sjóðfélaga til samræmis við samkomulag sem samtök launþega og vinnuveitenda gera með sér, enda fari slík breyting hvorki í bága við III. kafla laganna né teljist ganga á ólögmætan hátt á áunninn rétt einstakra sjóðfélaga innbyrðis eða annarra sem réttinda njóta, eða hafa teljandi fjárhagsleg áhrif þegar litið er til eigna sjóðsins og lífeyrisskuldbindinga. Við það mat skal m.a. litið til umsagnar tryggingafræðings viðkomandi sjóðs sem fylgja skal ósk um breytingar. Breytingar á réttindaákvæðum skulu koma fram í staðfestum samþykktum fyrir viðkomandi sjóði. Að öðru leyti skulu lög þessi gilda um hlutaðeigandi sjóði eftir því sem við getur átt.``

Virðulegi forseti. Þetta á fyrst og fremst við um sjóði sem búið er að loka en ástæða getur verið til að breyta réttindum með hliðsjón af því sem almennt er látið gilda. Þetta er gert samkvæmt ósk Landssamtaka lífeyrissjóða og taldi nefndin rétt að gera þessa tillögu að sinni.

Virðulegi forseti. Undir þetta nál. rita auk mín hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Sigríður Anna Þórðardóttir, Pétur H. Blöndal, sem hefur fyrirvara, Gunnar Birgisson og Ögmundur Jónasson.