Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:21:35 (6765)

2000-04-27 20:21:35# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:21]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði lífeyrissjóðunum mismunað gagnvart bönkum, verðbréfafyrirtækjum og öðrum aðilum sem veitt geta viðbótarlífeyrissparnaði viðtöku. Þetta er rétt. En hann vill þá kannski líka taka upp að menn geti valið sér lífeyrissjóð? Því ég get nefnilega valið mér tryggingafélag, banka eða verðbréfafyrirtæki til að leggja viðbótarsparnaðinn til hliðar. Þegar ég get valið hef ég strax agavald á þeim sem ráðstafa peningunum. Ef mér finnst sá aðili ráðstafa peningunum mínum illa þá fer ég bara eitthvað annað. Það get ég hins vegar ekki gert hjá hinum venjulega lífeyrissjóði, því miður.

Hv. þm. situr reyndar í stjórn míns lífeyrissjóðs, hann er fulltrúi minn í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þó að ég hafi aldrei kosið hann og ég sé þvingaður til að vera í þeim sjóði og vilji ekki vera þar. (Gripið fram í.) Já, en ég vil ekki vera í þessum sjóði og ég hef aldrei kosið hv. þm. Þó að stjórnin stæði sig ekki með þeim hætti sem ég kærði mig um þá get ég ekkert annað en greitt inn í þennan sjóð. Ég get bara ekki nokkurn skapaðan hlut annan frekar en allir Íslendingar. Þeim er gert skylt að borga inn í ákveðinn lífeyrissjóð samkvæmt lögum en þeir hafa engin áhrif á stjórn síns lífeyrissjóðs. Þetta er vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Og þess vegna vildi ég gjarnan taka um það umræðu að hætta að mismuna milli lífeyrissjóða og þeirra sem taka við viðbótarsparnaðinum og leyfa fólki að velja hvort tveggja.