Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:26:02 (6768)

2000-04-27 20:26:02# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:26]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Sannast sagna hélt ég að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði betri og traustari þekkingu á þessum málum en hér kemur fram. Þekking hans er af afskaplega skornum skammti.

Stjórnir lífeyrissjóða móta almenna stefnu. Þessi stefna á að hluta stoð í lögum sem við erum að setja, t.d. þeim lögum sem hér er verið að afgreiða. Síðan er leitað til sérfræðinga, margra sérfræðinga og til fyrirtækja á fjármálamarkaði. Eitt slíkt fyrirtæki kemur mér í hug, það heitir Kaupþing. Þar mun hv. þm. Pétur H. Blöndal einhvern tíma hafa komið við sögu. Þessi fyrirtæki aðstoða við að ákveða hvernig eigi að fjárfesta peningana. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig. Sjóðstjórnin fylgist með því að farið sé að settum reglum, að lögum sé fylgt, að vandað sé til mótunar fjárfestingarstefnunnar og kallaðir séu til bestu sérfróðir aðilar á þessu sviði til þess að tryggja hag sjóðfélaga.

Pétur H. Blöndal er hins vegar áhugamaður um ársfundi og hefur mætt á nokkuð mörgum slíkum. Ég held að þeir hafi verið þrír, voru þið ekki þrír sem mættuð á ársfund Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda á sínum tíma? Hann vill að þessir þröngu, litlu fundir ráði öllu. (Gripið fram í: Þessir þrír.) Þessir þrír. Þar geti fáeinir aðilar, sem sumir hverjir eru með einhverjar svona litlar skrúfur á sálinni, ráðið för í einu og öllu. Ég mæli fyrir því að við virkjum breitt lýðræði, að stór samtök komi að þessum málum og fulltrúar úr verkalýðshreyfingunni sem byggði upp þetta kerfi ráði þar för.