Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 20:45:07 (6775)

2000-04-27 20:45:07# 125. lþ. 103.45 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[20:45]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs öðru sinni til að leggja áherslu á það sjónarmið að ég tel mikilvægt að lífeyrissjóðunum sé veitt aðhald, gagnstætt því sem hugsanlega mátti skilja á orðum mínum áðan. Þetta aðhald kemur fyrst og fremst í gegnum verkalýðsfélögin og verkalýðshreyfinguna. Við skulum minnast þess að fyrir fáeinum árum, og reyndar er það engin nýlunda, það hefur gerst í gegnum tíðina, komu hingað inn á Alþingi frv. sem höfðu í för með sér eða hefðu haft í för með sér, ef þau hefðu náð fram að ganga, umtalsverða skerðingu á lífeyrisréttindum. Þetta fékkst lagað þegar frv. voru dregin til baka og þau urðu viðfangsefni samningaviðræðna milli verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og ríkisvalds. Þar var það verkalýðshreyfingin, þar voru það samtök launafólks sem stóðu vaktina fyrir sjóðfélaga, sem tryggðu að réttindi þeirra yrðu ekki skert. Þetta er staðreynd. Lífeyrismál eru iðulega til umfjöllunar hjá verkalýðsfélögum á fundum þeirra, í málgögnum þeirra, þar sem einstaklingum og hópum gefst tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og þar sem kallað er eftir slíkum sjónarmiðum, þar sem efnt er sérstaklega til funda um þessi mál.

Hvað ársfundina snertir gerði ég allt of lítið úr þeim í máli mínu og viðhafði galgopalegt orðalag sem ég hefði betur ekki gert og vildi helst draga til baka því að sönnu þá skipta þeir máli. Ársfundir geta skipt máli og eiga að vera mikilvægir upplýsingafundir. Það sem okkur hins vegar greinir á, mig og hv. þm. Pétur H. Blöndal, er hvert eigi að vera hlutverk þessara funda. Ég tel að þeir eigi fyrst og fremst að vera upplýsingafundir, opnir öllum sjóðfélögum og þeim sem greiða í sjóðina einnig. Hv. þm. Pétur H. Blöndal telur að þeir eigi að vera hinn ákvarðandi aðili. Ég tel að sá vettvangur eigi að vera verkalýðshreyfingin, sá aðili sem smíðaði þessa sjóði, barðist fyrir þessum sjóðum og hefur varið þá þegar á hefur reynt.

En ég vil leggja áherslu á að ég tel mikilvægt að lífeyrissjóðunum sé veitt aðhald. Ég vil ekki gera lítið úr ársfundunum eins og skilja mátti á orðalagi mínu áðan og hefði betur hagað orðum mínum á annan hátt. En meiningin er sú að ég tel mikilvægt að lífeyrissjóðunum sé veitt sem allra best og traustast aðhald.