Barnalög

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 22:02:01 (6793)

2000-04-27 22:02:01# 125. lþ. 103.18 fundur 339. mál: #A barnalög# (ráðgjöf um forsjá og umgengni) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:02]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því frv. sem komið er fram um breytingu á barnalögum, nr. 20/1992, með síðari breytingum. Fyrsti flm. þess er Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Reykvíkinga, ásamt öllum þingflokki Samfylkingarinnar.

Það er mjög brýnt hagsmunamál fyrir börn að málum verði komið fyrir með þessum hætti. Við vitum að oft þegar verið er að tala um umgengni barna við foreldra sína er litið á það sem rétt foreldra til samvista við barn sitt. Svo er auðvitað alls ekki því þetta er fyrst og fremst réttur barnsins til beggja foreldra. Það er mjög mikilvægt að við höfum þá hugsun alveg grunnfasta.

Við þekkjum líka að börn verða bitbein foreldra í óuppgerðum tilfinningasamböndum og því miður er það allt of oft að börn hljóta mikinn skaða af eftir slíkt. Þess vegna er lykilatriði að þetta verði almenn og aðgengileg ráðgjöf sem sé kostuð af hinu opinbera.

Ég kem úr fagstéttarfélagi þar sem þetta hefur verið baráttumál sl. 15--20 ár þar sem faghópur minn hefur setið uppi með mikið af þessum vandamálum og hefur kannski ekki haft eins mikið aðgengi inn í stjórnsýsluna og eðlilegt væri.

Við þekkjum líka að eftir að ákveðið var með sameiginlega forsjá vildi oft brenna við, t.d. hjá sýslumönnum, að ákveðin var sameiginleg forsjá þegar síst skyldi þar sem það var einfaldasta leiðin þegar setið var á móts við lögfræðingana. Núna er farið að vinna öðruvísi í þeim málum og eins og sagt var líka þegar þau lög komu, að þar sem mál eru í lagi þarf kannski ekki að setja nein lög, þar er sameiginleg forsjá eðlilegur þáttur í umhverfi barnsins þar sem barnið er í fyrirrúmi. Eitt af því sem hefur oft verið talað um er að tengja ráðgjöfina þessu þó erfitt sé að sjá fyrir þróun slíkra mála.

Ég vil líka benda á að gerðar hafa verið tilraunir með fjölskylduráðgjöf og ég vil minna á fjölskylduráðgjöf Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar. Það sýndi sig strax þar að mjög stór hópur fólks leitaði ráðgjafar í þessum málum. En það sem ég segi líka er að ráðgjöfin þarf að vera almenn og aðgengileg, vel auglýst og má ekki kosta meira en í hæsta lagi göngudeildargjald eins og er á heilsugæslustöðvum þannig að það sé eðlilegur hlutur að leita í ráðgjöf og má hún jafnvel vera ókeypis undir ákveðnum kringumstæðum.

Ég vil líka minna á fjölskylduráðgjöf kirkjunnar sem hefur haft talsvert af þessum málum. Félagsþjónustan hefur auðvitað tekið eitthvað af þessum málum en hún fær þau oft þegar hlutirnir eru komnir í óefni og málin koma allt of seint inn. Ég tel því gríðarlega mikilvægt að tekið sé á málunum og ég held að það væri góð búbót við góð mál fyrir þessa ríkisstjórn að státa sig af því að samþykkja tillögu sem þessa.

Ég átta mig ekki alveg á því, herra forseti, hvort málinu verður vísað í félmn. eða allshn. en ég efast ekki um að það fái góða umfjöllun enda um afskaplega gott mál að ræða fyrir hönd barna í landinu.