Úttekt á aðstöðu til hestamennsku

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 22:38:56 (6799)

2000-04-27 22:38:56# 125. lþ. 103.22 fundur 402. mál: #A úttekt á aðstöðu til hestamennsku# þál., Flm. JónK
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:38]

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á aðstöðu til hestamennsku en 1. flm. tillögunnar er Jónas Hallgrímsson, sem sat hér á þingi í vetur sem varaþingmaður. Ég mæli fyrir tillögunni sem ég flyt með honum ásamt Árna Johnsen, Ísólfi Gylfa Pálmasyni og Einari Má Sigurðarsyni.

Hún hljóðar á þessa leið:.

,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að skipa nefnd sem geri úttekt á aðstöðu til hestamennsku á landsbyggðinni og leggi fram tillögur um stuðning ríkissjóðs við uppbyggingu hennar. Nefndin skili áliti fyrir 1. október næstkomandi.``

Í grg. með tillögunni segir svo, með leyfi forseta:

,,Undanfarin missiri hafa einstaklingar, félög og hið opinbera sem kunnugt er sameinast um að auka kynningu og sölu á íslenska hestinum, bæði innan lands og utan. Samhliða þessu viðamikla átaki hafa verið byggðar nútímalegar reiðhallir sem jafnframt þjóna víða sem félagsmiðstöðvar hestamanna. Á þetta einkum við um suðvestanvert landið og Norðvesturland. Landbúnaðarráðuneyti og Reykjavíkurborg hafa stutt þetta málefni með myndarlegum fjárframlögum. Meðal annars hefur verið gerður samningur um miðstöð íslenska hestsins í Skagafirði. Einnig hafa einstaklingar í greininni byggt upp slík mannvirki og hafa í sumum tilfellum notið aðstoðar fyrirtækja í ferðaþjónustu. Landsvæði sem eru fjarri höfuðborgarsvæðinu, frá Eyjafirði norður og austur um land, allt til Hellu á Rangárvöllum, virðast eiga erfiðara uppdráttar hvað sölu- og markaðsmál áhrærir og er þá ekki alltaf lélegum hrossum um að kenna, nema síður væri. Frekar má nefna fjarlægð frá aðalkomustað erlendra ferðamanna til landsins ásamt aðstöðuleysi þeirra sem hlut eiga að máli. Er nú svo komið að höfuðborgarsvæðið og nærsveitir austan fjalls ásamt afmörkuðum hluta Norðurlands hafa yfirburðastöðu vegna hagstæðrar staðsetningar og framúrskarandi möguleika til þjálfunar, sýninga og sölu á hrossum. Af byggðaástæðum er því tímabært að spyrna við fótum og leita leiða til úrbóta fyrir þau landsvæði sem fjærst liggja markaðinum.

Stefna stjórnvalda hefur verið að æska þessa lands skuli eiga jafnan rétt til náms og þar með félagslífs, óháð búsetu. Ungt fólk víða um land hefur í auknum mæli haslað sér völl í hestamennsku, bæði í leik og starfi. Vitað er að nýjar og glæstar reiðhallir ásamt keppnisvöllum utan dyra skapa mikinn aðstöðumun milli unglinga sem annars vegar eiga greiða leið að góðu og heilbrigðu félagsstarfi þar sem aðstaða er fyrir hendi til tamningar og þjálfunar hesta og þeirra sem búa í dreifbýli og enga aðstöðu hafa.

Eðlilegt er að móta stuðning ríkisvaldsins við uppbyggingu í greininni og gengur þáltill. út á að hestamennskan verði nýtt sem sóknarfæri fyrir dreifðar byggðir landsins.``

Við þessa grg. er í rauninni ekki miklu að bæta. Ég vil þó bæta því við að í starfi fjárln. höfum við fulltrúar í nefndinni orðið varir við aukna ásókn til nefndarinnar um að styðja byggingu reiðhalla eins og minnst er á í tillögunni. Engar fastmótaðar reglur eru um þennan stuðning og það væri mjög þarft mál og þarft fyrir þetta málefni að gerð yrði úttekt á þeirri aðstöðu og sköpuð stefna um hvort ríkisvaldið eigi ekki að styðja þetta málefni frekar en það hefur gert. Tónninn hefur verið gefinn í því efni og þegar hefur verið hafinn stuðningur á nokkrum stöðum, en gera þyrfti heildarúttekt á þessum málum. Um það fjallar tillagan. Hún fjallar um að setja vinnu í þetta mál og skila tillögum um hvernig stuðningur ríkisvaldsins kæmi jafnt niður í öllum byggðarlögum landsins.

Að lokinni þessari umræðu fer ég fram á að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og landbn.