Öryggi á miðhálendi Íslands

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 22:56:15 (6801)

2000-04-27 22:56:15# 125. lþ. 103.26 fundur 443. mál: #A öryggi á miðhálendi Íslands# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:56]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um öryggi á miðhálendi Íslands, sem ég flyt ásamt þeim hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, Jóni Kristjánssyni, Jónasi Hallgrímssyni, Margréti K. Sverrisdóttur og Þorgerði K. Gunnarsdóttur.

Þáltill. er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að skipa nefnd sem geri tillögur um aðgerðir til að auka öryggi þeirra sem ferðast um hálendi Íslands að vetrarlagi. Einkum verði athuguð dreifing NMT-kerfisins, TETRA-kerfisins, samstarf við Slysavarnafélagið Landsbjörg um ferðaáætlanir ferðalanga og nýtingu björgunarbúnaðar almennt.``

Herra forseti. Markmiðið með tillögu þessari er að hæstv. dómsmrh. skipi nefnd til þess að gera tillögur er feli í sér aukið öryggi ferðalanga á miðhálendi Íslands. Tilefni tillögunnar er að á síðustu árum hefur það ítrekað gerst að efnt hefur verið til víðtæks leitarútkalls þegar fólk hefur týnst á hálendinu, einkum að vetrarlagi. Svo rammt hefur kveðið að þessu að á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs má segja að efnt hafi verið til leitarútkalls að meðaltali annan hvern dag þegar ferðalangar týndust á fjöllum uppi að vetrarlagi í misjöfnu veðri. Enda er það svo að á síðustu árum hefur með bættum bílakosti og auknum áhuga á vetrarferðamennsku það færst stöðugt í vöxt að ferðalangar hafa lagt leið sína upp á miðhálendið en svo sem kunnugt er þá eru veður þar válynd og geta skjótt skipast veður í lofti eins og dæmin sanna. Í þeim miklu vetrarveðrum sem brostið geta á og bresta reglulega á á miðhálendinu þá geta í miklum ferðamannastraumi oft orðið slys og fólk hreinlega týnst. Við slíkar aðstæður getur oft verið um mínútuspursmál þar sem skilur á milli lífs og dauða fólks sem hrakið er eða fast í miklum vetrarhríðum.

Við þær aðstæður getur verið afskaplega erfitt að finna fólk og því mikilvægt að auka öryggið þannig að mannslífum sé ekki stefnt í voða. Það er mjög mikilvægt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða þar sem mannslíf eru í húfi.

Þáltill. er í rauninni ekki með beinar tillögur um það hvernig þessum fyrirbyggjandi aðgerðum verði komið á heldur er mælst til þess að hæstv. dómsmrh. skipi nefnd fagfólks til að fara faglega og vandlega yfir þá hættu sem hér er gerð að umtalsefni og birti síðan tillögur til úrbóta. Hins vegar bendum við í grg. á þskj. 713 á ýmsar leiðir sem hafa komið upp í umræðum, bæði í fjölmiðlum og manna á milli. Við bendum m.a. á að símakerfið, dreifikerfi símans er æðigloppótt uppi á miðhálendinu, bæði NMT-kerfið og GSM-kerfið ná ekki til nema takmarkaðs hluta miðhálendisins og við bendum á það sem eina leið að bæta úr þeim gloppum þannig að ferðalangar geti notað fjarskiptabúnað þegar í nauðir rekur.

[23:00] (framhald af ræðu í vinnslu)

[22:56]

Þá má benda á að í umræðu, sem m.a. varð á hv. Alþingi, kom fram að í bígerð er að koma upp svonefndu TETRA-kerfi þar sem m.a. er ætlunin að nýta fjarskiptabúnað Landsvirkjunar í tengslum við mannvirki Landsvirkjunar á miðhálendinu og skapar það ákveðna möguleika til úrbóta. Þá er rétt að benda á að nú spretta nánast daglega upp ný fyrirtæki á fjarskiptamarkaðnum, m.a. hefur komið fram nýtt fyrirtæki, Martel ehf., sem vinnur að uppbyggingu GSM-endurvarpskerfisins um gervihnetti og hefur unnið að því frá árinu 1996. Þar er m.a. stefnt að því að ná yfir landið allt og m.a. á svonefndum Globalstar-lausnum sem fyrirtækið Martel byggir á. Það á að vera tiltölulega auðvelt að koma staðsetningarbúnaði fyrir í síma ferðalanga þannig að við erfiðar aðstæður eigi leitarflokkar að geta staðsett ferðalanga með nokkuð mikilli nákvæmni.

Þá er aðeins um það fjallað í greinargerð hvort taka þurfi upp einhvers konar tilkynningarskyldu þegar fólk leggur upp á miðhálendið að vetrarlagi og jafnframt er bent á ýmiss konar búnað, neyðarbúnað, og því velt upp hvort æskilegt sé að skylda ferðalanga um miðhálendið að vetrarlagi til þess að hafa slíkt með í för.

Þetta eru nokkrir af þeim þáttum sem við bendum á sem, má segja, veganesti til þeirrar nefndar, ef skipuð verður, sem hún getur fjallað um og örugglega fleiri þætti, þ.e. fjarskiptakerfið, spurninguna um tilkynningarskyldu í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg og hinn almenna búnað sem æskilegt er að fólk hafi með sér í slíkar svaðilfarir sem vetrarferðir á miðhálendið geta verið.

Að öðru leyti vil ég vísa, herra forseti, til greinargerðarinnar sem fylgir þáltill. og að svo mæltu leyfi ég mér að vonast til þess að tillagan fái farsæla afgreiðslu og leyfi mér að vísa henni til hv. allshn.

[23:03]