Endurskoðun kosningalaga

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 23:13:17 (6803)

2000-04-27 23:13:17# 125. lþ. 103.32 fundur 481. mál: #A endurskoðun kosningalaga# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:56]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði till. til þál. um endurskoðun kosningalaga. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi ályktar að fram fari á vegum Alþingis endurskoðun á kosningalöggjöf með það fyrir augum að tryggja

a. að sjúklingar, aldraðir og öryrkjar geti ávallt nýtt kosningarrétt sinn,

b. að jafnan fjalli óháður aðili um kærumál sem upp kunna að koma í tengslum við framkvæmd kosningalaga.``

Að því eru brögð að sjúklingar, aldrað fólk og öryrkjar geti ekki neytt kosningarréttar síns. Víða hefur tíðkast að láta fara fram atkvæðagreiðslu á sjúkrastofnunum og dvalarheimilum aldraðra. Þó er það ekki algilt og hafa í þessu samhengi risið deilumál og dómsmál. Brýnt er að tryggja jafnræði með þegnunum til kosningarréttar og nauðsynlegt að fram fari athugun á framkvæmd kosningalaganna hvað þetta atriði snertir.

Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að einnig verði kannað hvernig unnt verði að koma því á að óháður aðili skeri jafnan úr um deilumál sem rísa við framkvæmd laganna.

Í deilumálum sem risið hafa í tengslum við kosningar um sameiningu sveitarfélaga hlýtur að teljast í hæsta máta óeðlilegt að þeim sé skotið til úrskurðar í félagsmálaráðuneytinu eins og lög gera ráð fyrir þar sem það málefni sem greidd eru atkvæði um er á vegum þess ráðuneytis. Það getur í slíkum tilvikum ekki talist hlutlaus aðili. Ef fram kemur kæra um framkvæmd kosninganna kæmi til álita að hún væri milliliðalaust látin ganga til dómstóla.

[23:15](framhald á ræðu í vinnslu)

[23:15]

Málið sem þessi þáltill. er í raun sprottið úr, kosningum sem fram fóru 15. nóv. 1997 um sameiningu sveitarfélaga í Skagafjarðarsýslu, endaði fyrir dómstólum og fór til beggja dómstiga, undirréttar og Hæstaréttar einnig. Ég læt fylgja sem fskj. með þáltill. blaðagrein sem Erlendur Hansen og Hörður Ingimarsson skrifuðu og birtist í Morgunblaðinu 29. nóv. 1998 undir fyrirsögninni: ,,Hæstiréttur varði ekki kosningarréttinn.`` Þar eru dómstólar harðlega gagnrýndir og reyndar segir í blaðagreininni að greinarhöfundar hafi gert sér grein fyrir því og verið varaðir við því að erfitt kynni að reynast að vinna mál sem beindist að stjórnsýslunni. ,,Hún fyndi sér alltaf vörn,`` segir hér í þessari blaðagrein, með leyfi forseta. Þeim var sagt að stjórnsýslan fyndi sér alltaf vörn.

Eftir að ég kynnti mér þetta mál, ég hef farið rækilega í saumana á því, er ég sannast sagna sammála greinarhöfundum. Mér finnst hafa verið staðið undarlega að þessum kosningum og mér finnst niðurstaða dómstóla einnig vera harla undarleg. Þetta hefur sannfært mig um að í fyrsta lagi sé nauðsynlegt að tryggja betur í lögum rétt þeirra sem í hlut eiga og í annan stað að tryggja að óháður aðili fjalli jafnan um deilumál, að jafnan séu reknir allir þeir varnaglar sem kostur er á til varnar kjósendum sem þurfa að reiða sig á þessi ákvæði.

Vegna þessa er tillagan lögð fram. Það er alllangt síðan hún var borin fram á þinginu þótt ekki sé mælt fyrir henni fyrr en nú. Ég teldi mikilvægt, herra forseti, að þessari till. til þál. yrði hraðað til allshn. Alþingis. Þar fer nú fram endurskoðun á kosningalögum í tengslum við nýja kjördæmaskipan og mér fyndist eðlilegt að þessi mál yrðu tekin til skoðunar í því samhengi einnig.

Reynist það ekki unnt, ég sé því samt ekkert til fyrirstöðu, mun ég að sjálfsögðu fylgja þessu máli eftir síðar því að við svo búið má ekki standa.

Ég legg til að þessari þáltill. verði vísað til allshn.