Vegamál

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 23:32:30 (6808)

2000-04-27 23:32:30# 125. lþ. 103.36 fundur 510. mál: #A vegamál# þál., Flm. JB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[23:32]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um vegamál. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að heimila Vegagerðinni að ráðstafa árið 2000 þeirri inneign sem safnast hefur upp á síðustu árum vegna hærri tekna af lögboðnum tekjustofnum til vegagerðar en reiknað hefur verið með í vegáætlun. Þessu fé verði ráðstafað með eftirfarandi hætti:

1. Varið verði 200 millj. kr. vegna aukins kostnaðar við vetrarþjónustu.

2. Varið verði 150 millj. kr. til að flýta áætlun um uppbyggingu tengivega.

3. Varið verði 150 millj. kr. til að flýta áætlun um uppbyggingu safnvega.

4. Varið verði 50 millj. kr. til að flýta framkvæmdum við breikkun einbreiðra brúa.

5. Varið verði 150 millj. kr. til undirbúnings jarðgangagerð.``

Herra forseti. Um síðustu áramót var inneign hjá ríkissjóði vegna innheimtu lögboðinna gjalda til vegagerðar um 700 millj. kr. eða nánar tiltekið 707 millj. kr. en markaðir tekjustofnar vegna vegagerðar hafa skilað meiri tekjum en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun við gerð vegáætlunar. Í 2. gr. laga um fjáröflun til vegagerðar, nr. 3 frá 1987, með síðari breytingum, segir: ,,Tekjum samkvæmt lögum þessum skal einungis varið til vegagerðar.``

Herra forseti. Þessi inneign er þannig til komin að frá árinu 1998 er inneign upp á 108 millj. kr., frá árinu 1999 inneign upp á 216 millj. kr. og eldri inneign er upp á 383 millj. kr. eða samtals 707 millj. kr. sem þarna standa inni og hefur ekki verið ráðstafað annað en lög gera ráð fyrir, þ.e. til vegagerðar.

Margáréttuð er sérstök þörf á auknu fjármagni til ,,sveitaveganna``. Í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sem samþykkt var á Alþingi vorið 1999 er lögð þung áhersla á bættar samgöngur í byggðum sem standa höllum fæti. Í allri vegagerð á síðustu árum hafa tengivegir og safnvegir, sem við köllum í daglegu tali ,,sveitavegi``, dregist hlutfallslega aftur úr í nýframkvæmdum og viðhaldi. Jafnframt hefur þörfin fyrir góðar samgöngur í sveitum aukist, t.d. vegna daglegs heimanaksturs nemenda, vinnu sveitafólks utan bús, daglegra aðdrátta og flutninga á vörum og þjónustu, svo og aukinnar ferðaþjónustu í sveitum landsins.

Eðlilegt er að þessu uppsafnaða fé verði nú ráðstafað í vegáætlun og þá með þeim áherslum og þeirri forgangsröðun sem hér er lagt til. Þetta fjármagn komi til viðbótar því sem lagt er til að varið verði til þessara verkefnaflokka samkvæmt tillögu til þingsályktunar um vegáætlun fyrir árin 2000--2004 og nú liggur fyrir Alþingi.

Ljóst er að þetta viðbótarfé er engan veginn nægjanlegt til að hleypa af stokkunum því stórátaki sem flestir eru sammála um að þurfi til að laga ,,sveitavegina`` og til annarra brýnna framkvæmda á vegum í dreifbýli. Því er ástæðulaust að láta fjármagn sem þegar hefur verið innheimt til vegamála liggja ónotað.

Herra forseti. Þegar þessi tillaga var lögð fram var ekki ljóst að varið yrði neinu fjármagni til undirbúnings jarðgangagerð. Ekki hafði fengist við afgreiðslu fjárlaga fyrir síðustu jól nein fjárveiting til þess að vinna að undirbúningi jarðgangagerðar. Því var lagt til og lögð á það áhersla að einnig yrði varið fé til þess undirbúnings en samkvæmt þáltill. um jarðgangaáætlun er lagt til að þar komi sérstakt fjármagn til þeirra verkefna þannig að það sem hér er lagt til gæti þá færst með auknum þunga á tengivegina og safnvegina, þ.e. ,,sveitavegina``.

Herra forseti. Oft eru mörg stór verkefni vegamála tekin út fyrir vegáætlun þegar á að vinna stórvirki. En þessir vegir hafa orðið hlutfallslega út undan við eflingu samgöngukerfis og samgönguæða landsins. Því er fyllilega réttmætt og sanngjarnt að þessu fjármagni, sem er ekki verið að taka frá neinni markaðri framkvæmd en hefur réttilega verið innheimt til vegamála, verði varið til þessara samgöngubóta, til veganna í hinum dreifðu byggðum landsins og flýta þar þeim áætlunum sem þar eru um samgöngubætur. Ekki er verið að taka neitt frá neinum í því en þarna er í litlum mæli en þó markvisst verið að koma til móts við þær auknu kröfur og auknu og þarfir og þær yfirlýsingar sem hv. þm. á Alþingi og víðar lýsa svo fjálglega um brýna nauðsyn á, þ.e. að bæta samgöngur í sveitum landsins.

Því legg ég til, herra forseti, að að lokinni fyrri umræðu um þessa þáltill. verði henni vísað til hv. samgn. til afgreiðslu. Ég vænti þess að bæði hv. samgn. og Alþingi taki undir með mér hversu mikilvægt málið er og góð ráðstöfun fjár.