Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 14:00:45 (6812)

2000-04-28 14:00:45# 125. lþ. 104.11 fundur 260. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða) frv. 56/2000, MF (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti er svo fljótur að þessu að maður rétt nær að fylgjast með atkvæðagreiðslunni. En það frv. sem er til afgreiðslu felur í sér þrjár meginbreytingar varðandi fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna sem allar rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga. Í umsögn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins kemur skýrt fram að ekkert knýi á um að rýmka núverandi heimildir lífeyrissjóðanna, núverandi lög voru sett fyrir stuttu og vart er komin reynsla á gildandi ákvæði sem lúta að heimildum til fjárfestinga en þau eru í fullu samræmi við það sem gerist hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum í Evrópu.

Í umsögn Verðbréfaþings Íslands kemur fram að nauðsynlegt sé að þeir aðilar sem hafa leyfi stjórnvalda til að safna fjármunum almennings og ávaxta þá eigi að mestu leyti að halda sig við fjárfestingar sem lúta skilyrðum um upplýsingalöggjöf, sýnileika viðskipta og verðmyndun. Neytendaverndin veikist ef stofnanafjárfestum, í þessu tilviki lífeyrissjóðum, er heimilt að leggja fjármuni almennings í ríkum mæli í bréf sem uppfylla ekki fyrrnefnd skilyrði eins og raunar er gert ráð fyrir í þessu frv.

Við teljum að núgildandi löggjöf sé fullnægjandi og tökum ekki þátt í afgreiðslu þessa frv.