Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 14:38:44 (6817)

2000-04-28 14:38:44# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[14:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög jákvætt mál og fyrirhugað að stíga mikilvægt framfaraskref sem hæstv. félmrh. á þakkir skildar fyrir að beita sér fyrir.

Breytingarnar sem eru boðaðar eru í fyrsta lagi þær að verið er að lengja fæðingarorlof í níu mánuði, úr sex og hálfum í níu mánuði. Í annan stað er verið að skapa feðrum rýmri sjálfstæðan rétt en þeir hafa núna. Þeir hafa núna tvær vikur en koma til með að hafa þrjá mánuði. Þetta er jafnréttismál, þetta skiptir máli í jafnréttisbaráttunni, bæði hvað það snertir að feður munu að öllum líkindum taka aukna ábyrgð á uppeldi barna sinna með tilkomu þessara lagabreytinga en þetta hefur einnig mikið að segja á vinnumarkaði, vegna þess að það hefur staðið konum, mæðrum, verðandi mæðrum fyrir þrifum að þær geti verið varasamur kostur að ráða til starfa vegna þess að augljóst er að þær geta þurft að hverfa úr starfi vegna barneigna. Nú gildir hið sama um karlmenn. Í þessu tilliti er því einnig um jafnréttisatriði að ræða.

Í þriðja lagi felur frv. í sér grundvallarkerfisbreytingu frá því sem nú er. Búinn verður til Fæðingarorlofssjóður sem kemur til með að gilda um allan vinnumarkaðinn. Við hvaða kerfi höfum við búið fram til þessa? Kerfið hefur í reynd verið tvíþætt. Annars vegar hafa tryggingarnar séð um greiðslur í fæðingarorlofi til þeirra sem stunda störf á almennum vinnumarkaði. Þar er um jafnháar upphæðir að ræða sem hver og einn fær.

Hins vegar er kerfi sem gilt hefur um opinbera starfsmenn, starfsmenn ríkis og sveitarfélaga innan vébanda samtaka opinberra starfsmanna, sem fá launagreiðslur eins og ekkert hafi upp á komið í fæðingarorlofi, heildarlaun í þrjá mánuði og föst laun í þrjá mánuði til viðbótar.

Þetta eru þau tvö kerfi sem hafa verið við lýði. Menn hafa lengi á undanförnum árum glímt við þá spurningu hvernig eigi að fara að því að samræma þessi kerfi og samræma þennan rétt. Og öðru hvoru hefur verið sett í gang vinna, nefndavinna, og smíðuð frumvörp um breytingar á kerfinu. Slík vinna fór held ég tvívegis í gang á tíunda áratugnum, smíðuð voru frumvörp en um þau skapaðist ekki sátt.

Nú gerist það að innan samtaka launafólks vaknar viljinn, mjög sterkur vilji til að bæta rétt foreldra og barna og það er mjög mikilvægt að skoða málin út frá þeim sjónarhóli. Menn einsettu sér strax í upphafi að skoða fæðingarorlofsréttindin út frá sjónarhóli barnsins, hvernig yrði best tryggt að foreldrar þess yrðu samvistum við það á unga aldri.

Niðurstaðan varð sú að einkum hjá fólki sem hafði ekki úr of miklu að spila yrði að tryggja að það yrði ekki fyrir óhóflegri tekjurýrnun meðan á fæðingarorlofi stæði. Þetta var eitt. Þá komust menn að raun um að þær greiðslur sem koma úr almannatryggingunum eru of lágar og menn fóru að leita leiða til að tengja þær betur laununum. Eftir stóð þetta, að erfitt mundi reynast að finna fyrir því siðferðilega réttlætingu að greiða einum miklu hærri greiðslu en öðrum. Þetta stóð svolítið í mönnum. Annað sem stóð í opinberum starfsmönnum að sjálfsögðu var að þeir vildu ekki semja af sér þau réttindi sem þeir höfðu.

Nú var annað að gerast á þeim tíma sem varð þess valdandi að opinberir starfsmenn voru mjög fýsandi að leita nýrra leiða. Í stað hins miðstýrða kerfis sem sá um allar launagreiðslur, greiðslur fyrir veikindi, fæðingarorlof og annað af því tagi gætti nú þeirrar tilhneigingar að einstakar stofnanir yrðu gerðar að sjálfstæðum rekstrareiningum, rekstrareiningum sem fóru að haga sér á mjög svipaðan hátt og fyrirtæki.

[14:45]

Þá fóru menn að óttast það að stofnanir sem væru fjárlitlar, fjárvana stofnanir, og það eru ekki síst kvennavinnustaðirnir, skólarnir og heilbrigðisstofnanirnar, mundu láta það bitna á konum á barneignaraldri við ráðningar vegna þess að stofnunin fær samkvæmt nýju fyrirkomulagi um þjónustusamninga tiltekið fjármagn í sínar hendur og ráðstafar því síðan að eigin vild og það væri líklegt að hún hefði varann á við ráðningar og þá ekki síst með tilliti til greiðslna í fæðingarorlofi. Allt þetta varð þess valdandi að hugmyndin um Fæðingarorlofssjóð kom til sögunnar og þá ætluðu menn að hann mundi leysa þetta tvennt, þ.e. að finna leið til að réttlæta það að menn greiddu einstaklingum misháar upphæðir í fæðingarorlofi annars vegar og hins vegar að taka byrðina af fjárvana stofnunum. Hvernig gerðu menn það? Með því að láta stofnanirnar og einstaklingana þess vegna eða atvinnureksturinn greiða inn í þennan sjóð í hlutfalli við laun viðkomandi einstaklinga, þ.e. sams konar hugsun og lífeyriskerfið byggir á.

Úr lífeyrissjóðum fá menn misháar greiðslur. En menn greiða líka mishá iðgjöld ílífeyrissjóðina. Þessi hugsun byggir á sama grundvallaratriði. Hvers vegna komast menn að þessari niðurstöðu? Vegna þess að menn nálgast málið frá sjónarhóli barnsins og hugsa um það eitt að tryggja að foreldrar þess hverfi af vinnumarkaðnum og verði samvistum við það á unga aldri. Þetta er hugsunin að baki Fæðingarorlofssjóði og ég styð hana hjartanlega.

Hún tryggir líka að karlavinnustaðir, ekki síður en kvennavinnustaðir, láta fjármuni af hendi rakna til þessa sjóðs. Tollurinn og lögreglan greiða í Fæðingarorlofssjóð ekkert síður en Sjúkrahús Reykjavíkur svo dæmi sé tekið eða skólarnir. Þessi hugsun er því að mínum dómi alveg hárrétt. Hún hefur oft verið rædd hér í þinginu. Kvennalistakonur lögðu fram frumvörp um þetta efni, en áður hafði komið fram tillaga frá BSRB um miðjan áratuginn. Ég held það hafi verið árið 1995 að tillaga kom fram að settur yrði á fót fæðingarorlofssjóður. Hvað um það, hver sem saga málsins er þá hafa margir aðilar lagst á eitt um að ýta þessari hugmynd úr vör og hæstv. félmrh. hefur hlustað á þessi sjónarmið öll og gert þau að sínum og mótað frv. sem í grófum dráttum er að mínum dómi mjög skynsamlegt og horfir til mikilla framfara.

Að sjálfsögðu liggur í augum uppi að þau réttindi sem fólk býr við þegar verða ekki skert. Það er ljóst. Enda eru þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa búið við tryggð í bráðabirgðaákvæði laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og við því verður að sjálfsögðu ekki hreyft þar til um annað verður samið. Slíkir samningar hafa farið fram og lofa góðu. Ég er vongóður um að það muni ganga eftir, enda reiknar enginn með öðru en að þeir sem hafa haft traust réttindi haldi þeim eftir sem áður, að sjálfsögðu.

Það eru atriði sem mér finnst að þurfi að gaumgæfa nánar og þá ekki síst út frá þeirri hugsun sem ég nefndi, að nálgast málið út frá sjónarhóli barnsins, að tryggja að barnið fái að vera samvistum við foreldra sína á unga aldri. Og þá má ekki mismuna börnum. Ekki heldur gagnvart þeim sem eru foreldralaus eða eiga eitt foreldri, eru ófeðruð t.d. Ég beini því til hæstv. félmn. að taka það til rækilegrar athugunar hvernig hægt er að tryggja að öll börn búi við sama rétt hvað þetta snertir.