Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 15:12:47 (6820)

2000-04-28 15:12:47# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er í öllum atriðum hjartanlega sammála hv. þm. Kristjáni L. Möller. Hann benti réttilega á að hér er á ferðinni veruleg réttarbót. Sú réttarbót tekur ekki síst til hins almenna vinnumarkaðar. Þar batna kjörin meira en þau gera hjá hinu opinbera. Hann spurði um hvað verið væri að semja um, það er nokkuð sem ég þekki örlítið til. Þá er það staðreynd að þau stéttarfélög og samtök sem hafa búið við ívið skárri rétt, þ.e. full laun í þrjá mánuði og föst laun í þrjá, munu að sjálfsögðu halda þeim rétti. Það gleðilega í þessu er að verið er að jafna réttindin upp á við. En eftir stendur náttúrlega í þessum efnum eins og ýmsum öðrum að mismunandi launakerfi hefur verið við lýði og mismunandi réttarkerfi. Þannig t.d. hafa opinberir starfsmenn ekki sjúkrasjóði, þeir hafa hins vegar betri veikindarétt fyrir þá einstaklinga sem lenda í langtímaveikindum en sjúkrasjóði hafa þeir ekki. Einnig á þessum sviðum er unnið að samræmingu og samtök launafólks munu sjá til þess að samræmingin eigi sér jafnan stað upp á við.