Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 15:14:40 (6821)

2000-04-28 15:14:40# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna þess sem hefur komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að verið sé að jafna réttindin upp á við sem er mjög ánægjulegt. Ég staldra töluvert við þessi 80% og bendi aðeins á það að frv. á vegum hæstv. ríkisstjórnar var lagt fram fyrir jól sem var um breytingar í þá átt að persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur milli hjóna, stigi skref úr 80% í 85%. Mér finnst því skjóta skökku við ef í þessu frv. kemur fram núna svipað misrétti að mínu mati milli aðila vinnumarkaðarins. Þetta er grundvallaratriði og ég held að ég hafi nefnt að þetta væri mesti ljóður á. Hins vegar eru svo líka nokkur atriði sem ég nefndi ekki en rétt er að geta aðeins um og sem hv. þm. og formaður BSRB ræddi hér um, þ.e. um lágmark og hámark sem eru í þessu frv. Við skulum átta okkur á því að 700 þús. kr. launamaður heldur þeim rétti áfram miðað við það sem hér er. Þó svo menn hafi viljað horfa á eitthvert hámark væri það kannski hindrandi í það að menn mundu nota þetta, ef þetta mundi skerðast kannski niður í eitthver hámark sem sett væri 400 þús. eða 500 þús. Hins vegar er það misrétti sem er ekki hægt að una við að starfsmenn, sem vinna jafnvel hlið við hlið, annar opinber starfsmaður og hinn er á almenna markaðnum, og 100 þús. kr. maðurinn á almenna markaðnum fær bara 80 þús. meðan opinber starfsmaður fær 100 þús.