Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 15:16:28 (6822)

2000-04-28 15:16:28# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Á launamarkaðnum er mikið misrétti, geysilegt misrétti. Sumir hafa innan við 100 þús. kr. í tekjur á mánuði. Aðrir hafa upp undir milljón, sumir jafnvel miklu meira. Þetta misrétti á sér stað allan ársins hring. Við erum að ræða núna um örlítið brot úr ævi hvers einstaklings, þ.e. hvað gerist þann tíma sem foreldrarnir eru heima hjá börnum sínum. Ég held að meginmáli skipti að hugsa þessi mál út frá sjónarhóli barnsins, að tryggja að það fái notið samvista við foreldra sína. Þess vegna held ég að það sé rétt hugsun, þó ég sé mikill launajöfnunarmaður og andvígur launamisrétti, að tryggja það að fólk fái ígildi launa sinna eða því sem næst þann tíma sem það er í fæðingarorlofi.