Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 15:42:32 (6825)

2000-04-28 15:42:32# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, BH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að fagna sérstaklega því frv. sem hér er fram komið og tek ég því undir með þeim sem hafa sagt að hér sé um mikið framfaraspor að ræða í málefnum fjölskyldna á Íslandi.

Það er ekki bara ánægjulegt fyrir þá fjölmörgu sem hafa verið að berjast fyrir réttarbótum í áratugi, en þeir eru vissulega mjög margir sem hafa komið þar við sögu. Eins og kemur fram í athugasemdum með frv. þá er það að miklu leyti byggt á tillögum sem hafa komið frá samtökum launafólks og samtökum atvinnulífsins líka, auk þess sem fjölmargir aðrir hafa haft ámóta atriði á sinni stefnuskrá, þar á meðal allflestir stjórnmálaflokkar eins og hér hefur komið fram.

Við í Samfylkingunni getum verið nokkuð sátt við þessar tillögur því þær eru vissulega í mjög svipuðum anda og það sem við höfum lagt til í okkar stefnu. Hæstv. félmrh. getur verið stoltur af því að leggja þetta mál fram. Í því felast margar réttarbætur og þær eru líkar reyndar löngu tímabærar, herra forseti.

Ég ætla að fara stuttlega yfir það sem ég tel frv. helst til tekna. Þar ber fyrst að nefna lengingu fæðingarorlofs í áföngum. Í öðru lagi er það sjálfstæður rétta feðra sem ég tel vera mjög mikilvægt mál. Þar er um að ræða fyrirmynd frá Norðurlöndunum. Þar reyndist ekki vel að hafa réttinn yfirfæranlegan. Það var reynt í fyrstu. Ef ég man rétt var það í Svíþjóð að reynt var að hafa réttinn yfirfæranlegan til móður. Reynslan af því var einungis sú að konurnar lengdu sitt fæðingarorlof. Karlarnir tóku ekki fæðingarorlof. Þá var farin sú leið að hafa þetta í þá veru sem hér er lagt til. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að hvetja karla með öllum ráðum til þess að taka meiri þátt í umönnun barna allt frá fyrstu stigum og gera þeim þannig kleift að tengjast börnunum allt frá fyrstu tíð. Ekki er þar aðeins lagður mikilvægur grunnur að tilfinningalegum samskiptum föður og barns heldur mun það líka gera það að verkum að karlmenn fara í meira mæli að snúa sér að umönnun barna og það er vissulega allri fjölskyldunni til hagsbóta.

[15:45]

Sveigjanleikinn er mjög mikilvægur. Í 1. mgr. 10. gr. frv. er í fyrsta lagi sagt að starfsmaðurinn eigi rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi eins og verið hefur. En með samkomulagi við vinnuveitanda er starfsmanni þó heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Vinnuveitandi skal leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs samkvæmt þessu ákvæði.

Ef atvinnurekandi fellst ekki á þá tillögu sem starfsmaðurinn leggur fram þarf hann að koma með tillögur á móti og leitast þannig við að finna lausn sem getur hentað bæði atvinnurekandanum og starfsmanninum. Ef samkomulag næst ekki um að taka orlofið í annaðhvort hlutastarfi eða skipta því niður á starfsmaðurinn alltaf rétt á að taka það í einu lagi frá þeim upphafsdegi sem hann ákveður.

Það er engin spurning að það hentar mjög mörgum foreldrum að taka fæðingarorlofið í áföngum, geta jafnvel verið heima allan daginn í einhvern tíma og tekið síðan hlutastarf í einhvern tíma, komið hugsanlega inn á vinnumarkaðinn í einhvern tíma og farið síðan aftur í fæðingarorlof, allt eftir aðstæðum hverrar fjölskyldu. Ég tel mjög mikilvægt að skapa möguleika eins og gert er í þessu frv., að fólk geti hagað seglum svolítið eftir vindi í þessum efnum. Það gefur augaleið að ekki hentar sama lausn öllum fjölskyldum.

Sveigjanleikinn er mjög mikilvægur og hann rýfur þau skörpu skil á milli vinnumarkaðar og fæðingarorlofs sem verið hefur hingað til þar sem valið stóð á milli þess að vera alfarið heima eða alfarið í vinnu. Það er mjög stórt stökk fyrir foreldri að fara beint frá því að vera alveg heima og yfir í það að skella sér út í fulla vinnu, sérstaklega þegar fólk er í mikilli vinnu eins og Íslendingar eru margir hverjir. Ég tel að þetta sé líka æskilegra fyrir atvinnurekandann í mörgum tilvikum, þótt það sé ekki alltaf sem það hentar. En lykilatriðið er að þarna er mönnum gert að setjast niður og reyna að finna lausn sem öllum hentar.

Greiðslur í fæðingarorlofi eru auknar. Það er líka mikilvægt að fólk hafi efni á að taka fæðingarorlof því að greiðslurnar hafa verið þannig, a.m.k. á almenna vinnumarkaðnum, að fólk hefur hreinlega ekki haft efni á því að taka þetta orlof í mörgum tilvikum. Það hefur verið mikið fjárhagslegt hrun fyrir marga. Því er gríðarlega mikilvægt að auka greiðslurnar líka eins og gert er hér.

Ég vil nefna foreldraorlofið sem frv. gerir líka ráð fyrir. Í VII. kaflanum er fjallað um foreldraorlof og foreldri á samkvæmt þeim hugmyndum rétt á foreldraorlofi í 13 vikur til að annast barn sitt. Þessi réttur fellur niður er barn nær átta ára aldri og þarna er um ólaunað orlof að ræða. Þetta er heimild til að vera heima ef fólk óskar þess í ákveðinn tíma. Þetta getur líka verið lausn og einhver flötur sem hentar fólki, þ.e. fyrir þá sem hafa ráð á því að taka sér slíkt orlof.

Þessu frv. er í raun ætlað m.a. að innleiða tilskipun ráðs Evrópusambandsins nr. 96/34/EB, sem er staðfesting Evrópubandalagsins á rammasamningi um foreldraorlof sem gerður var milli samtaka evrópskra iðn- og atvinnurekenda, Evrópusamtaka fyrirtækja með opinberri eignaraðild og Evrópusambands verkalýðsfélaga. Sameiginlega EES-nefndin hér á landi tók síðan ákvörðun um að hann skyldi leiddur í lög hér á landi og foreldraorlofið er hluti af því. Ég held að foreldraorlofið sé einmitt liður í því að auka þennan sveigjanleika sem er mjög mikilvægur þáttur.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um efni frv. hér. Ég mun ræða málið við 2. umr. eftir að hafa séð þær athugasemdir sem koma hugsanlega fram og umsagnir um málið.

Það er reyndar eitt sem ég var að vonast til að sjá í þessu frv. en hef ekki komið auga á. Ég hefði viljað sjá örlítið betri stöðu fjölburaforeldra en er í núgildandi lögum. Reyndar voru gerðar réttarbætur hvað fjölburaforeldra varðar árið 1997 sem voru mjög til bóta þar sem réttur til fæðingarorlofs fyrir hvert barn umfram eitt var lengdur. Hann er núna þrír mánuðir fyrir hvert barn umfram eitt. En þá heyrðust raddir, sérstaklega frá þríburamæðrum, sem voru og eru mjög kröftugur hópur og hafa komið málstað sínum dyggilega á framfæri, að óeðlilegt væri að skertur yrði réttur fólks sem yrði þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga börnin öll í einu. Ef börnin hefðu komið með árs millibili væri rétturinn meiri.

Það er náttúrlega svo að það er gríðarlega ólíkt að eiga eitt barn í einu, eins og mannskepnan er yfirleitt gerð fyrir, eða eiga þau tvö og ég tala nú ekki um ef þau eru þrjú eða fjögur í einu. Þá er í raun um allt annars konar viðburð að ræða sem setur heimilislífið svolítið mikið úr skorðum á þeim tíma. Móðirin er lengur að jafna sig, sérstaklega hvað fjölburameðgöngu varðar þegar kona þarf mjög oft að vera á lyfjagjöf og vera mjög lengi inni á spítala með börnin eftir að þau fæðast.

Það er því kannski það eina sem ég hefði viljað sjá einhverjar breytingar á. En ég ætla ekki að gera mikið mál úr því hér því að ég vil fyrst og fremst lýsa yfir ánægju með þetta frv. Ég tel það vera svo mikilvægt skref, bæði hvað varðar jafnrétti og ekki síður hvað varðar möguleika fólks til þess að lifa eðlilegu fjölskyldulífi hér á landi. Fólki hefur verið gert það mjög erfitt. Sennilega kannast allir foreldrar við þá tilfinningu að það gangi erfiðlega að samræma fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku og hér er vissulega um að ræða skref, stórt skref í rétta átt í þeim efnum.