Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 16:06:06 (6827)

2000-04-28 16:06:06# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[16:06]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að hafa þetta stutt. Ég vil þakka fyrir þetta tækifæri, fyrir það að frv. hafi verið lagt fram og ég vil þakka hæstv. ríkisstjórn fyrir þá miklu framtíðarsýn sem birtist í þessu frv. til laga um fæðingar- og foreldraorlof og ítreka þakkir mínar.

Í rauninni er komið inn á svo margt í frv. Verið er að auka réttinn til fæðingarorlofs. Það er verið að lengja fæðingarorlofsréttinn. Það er ekki verið að auka sveigjanleikann. Það er verið að setja sveigjanleikann í löggjöfina. Það var enginn sveigjanleiki til staðar. Ef kona fór í fæðingarorlof og byrjaði að vinna eftir þrjá mánuði missti hún réttinn til hinna þriggja mánaðanna þannig að mikil réttarbót birtist í þessu frv. Verið er að jafna réttinn á milli foreldra sem er mjög mikilvægt atriði. Það er verið að ýta undir og efla samspil atvinnu- og fjölskyldulífs. Þetta er nútímalegt frv. Þetta er framtíðarfrv. Það er mjög mikil framtíðarsýn í þessu frv. þannig að ég vil enn og aftur þakka hæstv. ríkisstjórn fyrir þetta gríðarlega mikilvæga frv.

Í raun vil ég líka taka undir það sem kemur fram m.a. í greinargerðinni að þetta verði endurskoðað að ákveðnum tíma liðnum og þá verði litið til reynslunnar af þessu frv., þ.e. hvort við náum ekki því sem skiptir mjög miklu máli, að auka jafnréttið á vinnumarkaðnum, m.a. að reyna að minnka þann kynbundna launamun sem er til staðar og margar kannanir hafa sýnt fram á.

Framtíðarsýn mín er reyndar sú að einhvern tíma þurfum við að hætta þeirri forsjárhyggju, eins og það birtist í frv., að þrír mánuðir eru til kvenna og þrír mánuðir eru til karla, það er ekki millifæranlegt og það lykilatriði í jafnréttisumræðunni. Eins og hefur komið skýrt fram í mjög góðum og merkum ræðum hv. þingmanna á undan mér þá er þetta að mínu mati lykilatriði í jafnréttisumræðunni. En ég vona að við berum gæfu til þess síðar meir að þurfa ekki að hafa svona ákvæði í lögum og að við getum sagt: Hér hafið þið 12 mánuði í fæðingarorlof og þið ráðið hvernig þið ráðstafið þeim. Það er framtíðarsýn mín að við þurfum ekki á því að halda að það standi þrír mánuðir til kvenna, þrír mánuðir til karla og síðan þessi þriggja mánaða sveigjanleiki, heldur að það verði 12 mánuðir til foreldra og þau fái að ráða þessu.