Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 16:09:37 (6828)

2000-04-28 16:09:37# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[16:09]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nota þetta tækifæri til að koma inn á réttindamál. Þingmaðurinn fór yfir það í upphafi máls síns hvernig réttindamissir gat átt sér stað í fæðingarorlofi. Í framsögu ráðherra kom fram að hér eftir verður það þannig að þegar einstaklingur fer í fæðingarorlof greiðir hann í lífeyrissjóð og greidd eru öll þau gjöld sem greidd eru þegar fólk er á vinnumarkaði. Þetta er feikilega mikilvægt atriði þó að ekki hafi verið staldrað mjög mikið við það í umræðunni.

Það eru orðin allmörg ár síðan ég flutti um það tillögu að heimilt væri að greiða í lífeyrissjóð í fæðingarorlofi því það gefur augaleið að ef fólk fer nokkrum sinnum á ævinni í fæðingarorlof munar um þann réttindamissi, sérstaklega eftir því sem fæðingarorlofið lengist og verður þýðingarmeira fyrir fjölskyldulífið. Ég vil því koma með þá ábendingu að þarna sé verið að lagfæra hlut sem mér finnst skipta mjög miklu máli og ég fagna því.

Í öðru lagi get ég tekið undir það sem hér var sagt að auðvitað eigum við að hafa þá sýn að það verði ákvörðun hjóna þegar um það er að ræða að fólk er að eignast saman börn í sambúð eða hjúskap að þá skipti það með sér hvernig það vill vera heima og hvernig það vill vera á vinnumarkaði. En hér hefur verið farið ítarlega yfir málið af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar og ég hef ákveðið að lengja ekki umræðuna með því að bæta mér á mælendaskrá og notaði þess vegna tækifærið til að benda á þessi réttindamál í andsvari við hv. þm.