Starfsréttindi tannsmiða

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 16:34:19 (6835)

2000-04-28 16:34:19# 125. lþ. 104.23 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[16:34]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. hv. iðnn. við frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða.

Frá því að málinu var vísað eftir 1. umr. til nefndarinnar hefur nefndin lagt töluverða vinnu í þetta mál, fengið fjölmarga gesti á sinn fund og að auki skriflegar umsagnir, þar á meðal umsögn frá hv. heilbrn. þingsins. Það er ástæða til að þakka þeim aðilum fyrir þeirra framlag við vinnslu málsins.

Tilefni þessa frv. er, eins og fram kemur í greinargerða með frv., að með dómi Hæstaréttar frá 7. des. 1995 er í rauninni komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé á grundvelli gildandi laga heimilt að leyfa tannsmiðum að starfa sem sjálfstæðri stétt þrátt fyrir ákvæði um atvinnufrelsi í stjórnarskránni. En rökin fyrir þessari niðurstöðu dómsins eru þau að ekki hafi verið sett sérstök lög um tannsmiði. Þetta mun eiginlega vera það sem rekur frv. af stað og hingað inn til þingsins.

Frv. gerir ráð fyrir því að tannsmiðum með meistararéttindi verði veittur réttur til að vinna sjálfstætt í iðngrein sinni án þess að þurfa að treysta á úthlutun verkefna frá tannlæknum. Það er í rauninni grunnhugsunin í frv. að tannsmiðir með meistararéttindi fái þennan sjálfstæða rétt til þess að starfa í sérstakri iðngrein. Til þess að fá þennan rétt verði meisturum í tannsmíðum, auk meistaranámsins, gert skylt að sækja námskeið til starfsréttinda eftir nánari ákvörðun sem iðnrh. setur. Þar er sérstaklega átt við 133 tíma námskeið þar sem lögð er áhersla á grunnatriði í meinafræði munnhols, sem og mótataka og mátun.

Þá segir jafnframt í frv. að iðnrh. geti skyldað tannsmiði í vissum tilvikum, þrátt fyrir þessi ákvæði um sjálfstæði þeirra, til að vinna ákveðinn hluta starfs síns í samráði við tannlækna.

Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að í iðnaðarráðuneytinu er fyrirhugað að takmarka rétt tannsmiða samkvæmt frumvarpinu með reglum þannig að ef einhverjar tennur eru í munnholi viðskiptavinar verður tannsmiður að hafa samráð við tannlækni við smíði tanngóms eða tannparts fyrir viðkomandi viðskiptavin. En það er rétt að leggja á það áherslu að viðkomandi tannsmiður skuli hafa samráð. Ábyrgðin er tannsmiðsins. Það er grundvallaratriði í þessu frv. og undir það álit tekur í rauninni hv. iðnn.

Í frumvarpinu er það gert að skilyrði fyrir því að tannsmiðir með meistararéttindi geti starfað sjálfstætt að ekki séu sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar. Töluverð umræða varð um þetta í nefndinni, m.a. ekki síst hvað varðar meint krabbamein í munnholi. Eftir mjög ítarlega umræðu innan nefndarinnar komst hún að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að gera þá kröfu að við fyrstu heimsókn viðskiptavinar til tannsmiðs skuli viðskiptavinurinn framvísa læknisvottorði. Rétt er að leggja áherslu á það að nefndin komst að þeirri niðurstöðu að framvísa bæri læknisvottorði, annaðhvort frá almennum lækni ellegar tannlækni. Í rauninni er það ein af þeim brtt. sem hv. iðnn. gerir við frv., þ.e. að viðskiptavinur skuli leggja fram læknisvottorð við fyrstu heimsókn til tannsmiðs.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tannsmiðir með meistararéttindi geti á eigin ábyrgð smíðað og gert við tanngóma og tannparta. Fulltrúar Tannlæknafélags Íslands og tannlæknadeildar háskólans gerðu verulegar athugasemdir við þetta atriði í heimsókn sinni til nefndarinnar og í skriflegri umsögn um málið. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu til þess að koma til móts við þetta sjónarmið Tannlæknafélagsins og tannlæknadeildarinnar að 1. gr. frv. verði breytt á þann veg að við smíði tannparta þurfi tannsmiður að starfa í samvinnu við tannlækni. Á það er lögð áhersla, þ.e. í samvinnu við tannlækni. En það breytir engu að síður ekki því að meginábyrgðin er hjá hinni sjálfstætt starfandi stétt, tannsmiðum.

Mikil umræða varð innan nefndarinnar og hefur svo sem verið, m.a. í fjölmiðlum, um það hvort tannsmiðir skuli flokkast sem heilbrigðisstétt eða iðnstétt svo sem verið hefur. Það kemur m.a. fram í umsögn hv. heilbr.- og trn. þar sem hún mælir með því að hér verði um heilbrigðisstétt að ræða. Hv. iðnn. kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu í samræmi við útgangspunkt frv. að meginþorrinn af starfi tannsmiða sé iðnaðarstarf og gerir þess vegna ekki breytingar hvað þennan þátt áhrærir og lítur á tannsmiði sem iðnstétt áfram eða iðngrein.

Hins vegar er auðvitað mikil skörun. Það er mikil snerting á milli heilbrigðisstétta, getum við sagt, og þessarar iðnstéttar sem tannsmiðir eru samkvæmt frv. og samkvæmt hefðinni, m.a. og ekki síst við mótatöku í munnholi. Þess vegna er í frv. gert ráð fyrir sérstöku 133 tíma námskeiði í heilbrigðisfræðum, ef svo má segja, fyrir verðandi tannsmiði og það er m.a. þess vegna sem hv. iðnn. gerir þá breytingu við frv. að ráðherra, þ.e. iðnrh., skuli að höfðu samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, setja reglur um að hluti af starfi tannsmiða skv. 1. mgr. 1. gr. skuli unninn í samstarfi við tannlækni og reglur um skilyrði starfsleyfis, m.a. eftirlit landlæknis.

Þarna herðir iðnn. í raun nokkuð á ákvæðum frv. þar sem í upphaflegu frv. er talað um að ráðherra geti, þá tekur hv. iðnn. af skarið og segir að ráðherra skuli setja þessar reglur.

Eftir að málið hafði formlega verið afgreitt út úr nefndinni kom fram ábending um að gera þyrfti dálitlar tæknilegar breytingar og að höfðu samráði við hv. nefndarmenn var lögð fram brtt. í rauninni við brtt. þar sem kveðið er á um það, eins og fram kemur á þskj. 1073, að við 2. tölul. brtt. á þskj. 1012, verði í stað orðanna ,,m.a. eftirlit landlæknis`` --- og þar er höfðað til þess að landlæknir skuli m.a. hafa að einhverju leyti eftirlit með starfsemi tannsmiða --- tilgreint hvaða þættir það eru sem landlæknir þarf að hafa eftirlit með. Þar er í rauninni verið þar að herða á og taka af allan vafa um að landlækni sé heimilt og að landlæknir skuli fylgjast með tilteknum þáttum í starfi tannsmiða. En þá kom jafnframt fram sú ábending að með hliðsjón af lögum um heilbrigðisþjónustu þyrfti að opna fyrir þessa heimild fyrir landlækni til þess að geta sinnt því eftirliti sem hér hefur verið fjallað um. Um það fjalla brtt. við brtt., þær sem komu fram síðar og samþykkt var hér á þinginu að kæmust á dagskrá.

Til þess að taka af allan vafa um tengsl tannsmiða við heilbrigðisstéttir gerir nefndin þá brtt. við frv., eins og ég hef hér greint frá, að iðnrh. skuli setja reglur um að hluti af starfi tannsmiða skuli unnið í samstarfi við tannlækni. Jafnframt er kveðið á um eftirlit landlæknis með tannsmiðum, eins og hér hefur verið rakið.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla mikið frekar um málið og vísa í þau þingskjöl sem hér liggja fyrir, þ.e. nefndarálitið á þskj. 1011 og jafnframt þskj. 1012 og 1073 þar sem eru brtt. hv. iðnn. og brtt. við brtt.

Undir nefndarálitið ritar sá sem hér stendur, formaður nefndarinnar, ásamt hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni, Drífu Hjartardóttur, Pétri H. Blöndal, Árna Steinari Jóhannssyni og Rannveigu Guðmundsdóttur. Hv. þm. Árni Ragnar Árnason og Ásta R. Jóhannesdóttir rita undir nefndarálitið með fyrirvara.

[16:45]

Nefndin lítur svo á, eins og fram kom í máli ýmissa gesta nefndarinnar og í skriflegum umsögn, að með því að veita tannsmiðum þennan sjálfstæða vinnurétt sé í rauninni verið að innleiða samkeppni milli tannlækna og tannsmiða hvað varðar tannsmíði. Það er trú manna að sú samkeppni muni hafa í för með sér töluvert hagræði og sparnað, jafnt fyrir einstaklinga, ekki síst eldri borgara sem oft á tíðum þurfa á þjónustu tannsmiða að halda, en ekki síður fyrir ríkissjóð. Það sjónarmið hlýtur að hafa eitthvað að segja.

Að lokum, herra forseti, er rétt að taka fram og benda á að fram til þessa hafa tannsmiðir í raun ekki borið faglega ábyrgð á verkum sínum, heldur hefur sú faglega ábyrgð legið hjá öðrum, þ.e. hjá tannlæknum sem tannsmiðir hafa unnið í samstarfi við og það eru þeir tannlæknar sem hafa þá verið ábyrgir fyrir vinnu þeirra. Það er trú hv. nefndar að með því að tannsmiðum verði veitt heimild til að starfa sjálfstætt sé fagleg ábyrgð þeirra á öllum þáttum vinnunnar sem að þeim snýr aukin og álit nefndarmanna er að það sé til bóta.

Herra forseti. Ég held ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um þetta og vonast til þess að málið fái farsæla framgöngu.