Starfsréttindi tannsmiða

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 17:00:58 (6838)

2000-04-28 17:00:58# 125. lþ. 104.23 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[17:00]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Eins og kom fram í máli mínu snerist umræðan í heilbr.- og trn. ekki eingöngu um krabbamein í munnholi, sem betur fer er það ekki mjög algengt þó það sé að aukast. Það kom fram í heilbr.- og trn. að ýmsir aðrir kvillar hrjáðu þá sem nota gervitennur. Þar nefndu menn ýmsa mjög algenga sjúkdóma til sögunnar en töldu eins og fram kom hér krabbamein ekki vera aðalatriðið, enda eru ýmsir aðrir sem finna krabbamein í munnholi en tannlæknar þó að oft séu dæmi um það. Ýmsir aðrir kvillar finnast, alls konar bólgur eftir tannbrot, alls konar sveppasýkingar og kvillar sem ég kann ekki að nefna hér, enda er ég ekki sérfræðingur í sjúkdómafræði munnhols. Mér fannst vera lögð mun meiri áhersla á aðra sjúkdóma en krabbamein í heilbrn. Það er ástæðan fyrir því að við leggjum til þessa tillögu um vottorð frá tannlækni, þ.e. sú að þetta eru sjúkdómar í munnholi sem tannlæknar eru sérfræðingar í. Hún er á þskj. 1074.

Varðandi eftirlit landlæknis vildi ég gjarnan fá fram hér frá hv. formanni nefndarinnar hvort ekki sé rétt að einnig heyri undir landlækni allt sem varðar heilbrigði munnholsins. Það snýr að þeim læknisvottorðum sem óskað er eftir varðandi heilbrigði þar sem fólk ætti að geta snúið sér til landlæknis og kvartað ef eitthvað bjátar á hvað þann þátt varðar.