Starfsréttindi tannsmiða

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 17:11:47 (6842)

2000-04-28 17:11:47# 125. lþ. 104.23 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, RG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af þeim málum sem ekki flokkast sem flokkspólitísk. Menn hafa gjarnan skoðun á slíkum málum sem einstaklingar og þau eru því jafnvel afgreidd þverpólitískt og óháð stjórn og stjórnarandstöðu, enda er mál af þessum toga ekki hefðbundið stjórnarmál sem slíkt.

Það hefur verið mjög fróðlegt að vinna með þetta mál í hv. iðnn. Ég verð að segja eftir þá meðferð sem málið hefur fengið þar, þá finnst mér að þar hafi farið fram ágæt vinna.

Vegna þeirra orða sem féllu hér hjá hv. þm. Árna Ragnari Árnasyni þá fengu fræðslumálin talsvert rými í umræðu í nefndinni. Sérstaklega var reynt að gera samanburð við fræðslukröfur í Danmörku og okkur var ljóst að á sumum sviðum voru tannsmiðir sem hér störfuðu með meiri menntun en þeir sem störfuðu í Danmörku. En að öðru leyti og í ákveðnum þáttum var æskilegt að þar væri meira nám að baki. Þess vegna höfum við verið þeirrar skoðunar að ákveðin námskeið þurfi til að við séum sátt við þessi mál í framtíðinni.

Mikil umræða fór fram um fræðslumálin og talsvert mikil umræða var um tannpartana og vinnu í munnholi, hvenær hún er á verksviði tannlækna og hvenær nauðsyn er á samráði við tannlækna. Það var óumdeilt af hálfu þeirra sem í nefndinni starfa að um leið og fara þarf með verkfæri eins og bor upp í munn á fólki þá sé að sjálfsögðu komið inn á verksvið tannlækna. Sjálfstæð smíði tannparta sem festir eru á tennur sem fyrir eru í munni er nauðsynlegt að sé í samvinnu og samráði við tannlækni.

Mitt mat er að nefndin hafi komist að mjög ásættanlegri niðurstöðu í þessu máli. Hún flytur brtt. og meginmálsgrein frv. hljóðar þá svo, með leyfi forseta:

,,Tannsmiðir með meistararéttindi geta á eigin ábyrgð smíðað tanngóma og þá m.a. unnið að töku móta og mátun, enda séu ekki sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar samkvæmt læknisvottorði, svo og gert við tanngóma og tannparta. Að smíði tannparta á eigin ábyrgð skulu þeir starfa í samvinnu við tannlækni.``

[17:15]

Greinin er orðin nokkuð skýr og skilur á milli þess sem nefndin telur að sé ásættanlegt að sé á verksviði tannsmiðs og þess sem hann þarf að hafa samvinnu og samráð við tannlækni. Þannig er verið að fela tannsmiðum sjálfstætt að annast töku móta, mátun og smíða heilgóma. Hins vegar er þeim ekki heimilt að vinna sjálfstætt að frumsmíði tannparta, en þeim er heimilt að vinna sjálfstætt að viðgerð á tannpörtum.

Ég er sammála því sem hefur verið sagt um að tannsmíði sé iðngrein og ég hef unnið með þetta mál í iðnn. sem slíkt, enda væri málið ekki í iðnn. ef hér væri um hefðbundið heilbrigðismál að ræða. Eðli máls samkvæmt töldum við í iðnn. sjálfsagt að óska eftir umsögn heilbrn. og tókum tillit til þeirrar umsagnar eins og okkur þótti við eiga miðað við þá afstöðu sem við höfum til þessa máls.

Hér hafa komið fram brtt. umfram það sem kemur frá iðnn. Þær lúta að því að afgreiðsla sé eins og sú sem iðnn. hefur gert á meginmálsgrein frv. að öðru leyti en því að í stað læknisvottorðs skuli gera kröfu um heilbrigðisvottorð tannlæknis. Ég tel ekki rétt að binda læknisvottorðið við tannlækna. Ég tel að læknisvottorð geti verið hvort heldur er frá heimilislækni, öðrum sérfræðingi eða tannlækni. Þannig lít ég á hefðbundið ferli okkar heilbrigðiskerfis að ef krankleika ber að höndum þá byrjum við gjarnan hjá okkar heilsugæslulækni sem þekkir okkur og hefur skoðað okkur í áranna rás. Hann metur eftir þá skoðun hvort ástæða er til að vísa okkur annað. Ég treysti því mati. Ég treysti því að ef einstaklingur sem ætlar að láta smíða upp í sig góm fer til læknis og biður hann að skoða hvort munnholið sé í góðu lagi og þar er eitthvað undarlegt að sjá þá vísi sá læknir honum áfram. Þannig hef ég treyst mínum heimilislækni um margra áratuga skeið og þetta tel ég eðlilegt. Hitt tel ég of þröngt og ekki sanngjarnt. Ég tel að þarna eigi að vera þetta val. Það er ágætt ef sá sem ætlar að láta smíða upp í sig ákveður sjálfur að hann vilji endilega hafa tannlækni með í ráðum og láta hann skoða munninn sinn. Þá gerir hann það. Þannig hefur iðnn. afgreitt málið og það er neytandandum í sjálfsvald sett hvar hann byrjar á sama hátt og við eigum kost á því þegar við finnum til að fara þá leið sem ég hef þegar lýst og byrja á okkar heimilislækni eða ákveða sjálf hvaða sérfræðingur það ætti nú að vera sem við viljum helst láta líta á okkur núna með tilliti til þess sem við hugsum að geti verið að og við höfum leyfi til að fara beint til hans. Reyndar er það svo með sérfræðingana að þeir eru gjarnan dýrari kostur ef við förum beint til þeirra. En þarna er það val sem við erum mjög oft að halda á lofti hér í þessum sal.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál. Ég er mjög sátt við umfjöllunina. Mér finnst að við í iðnn. höfum farið nokkuð faglega með þetta mál. Ég er ánægð með að heilbr.- og trn. skuli hafa skoðað það og sent okkur umsögn þó ég sé ósammála því áliti að það skuli binda vottorðið við tannlækni. Í nefndaráliti kemur fram að tannsmiðum er með þessu frv., þegar að lögum verður, veitt heimild til að starfa sjálfstætt og bera faglega ábyrgð. Sú ábyrgð er þá lögð á þeirra herðar. Að sumu leyti verða þeir að hafa samvinnu við aðra og að sumu leyti verða þeir að lúta eftirliti heilbrigðiskerfisins. Við höfum áréttað það og verið sammála um að iðnrh. og heilbrrh. skuli hafa samvinnu um þær reglur sem eru settar í þessu máli.

Mér finnst að hér sé verið að búa tannsmiðum mjög sanngjörn starfsskilyrði. En mér finnst að ef við gerum kröfu um heilbrigðisvottorð tannlæknis þá sé það ekki sú sanngirni sem ég hef á tilfinningunni að ríki í afgreiðslu þessa máls.

Herra forseti. Ég læt þetta nægja. Aðrir hafa farið mjög vel og ítarlega yfir málið. Ég ætla ekki að endurtaka það. Mér finnst þetta vera þeir þættir sem fólk er enn þá að velta fyrir sér og hef skýrt sjónarmið mitt varðandi þá.