Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 18:12:51 (6852)

2000-04-28 18:12:51# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa ýkja mörg orð um þetta mál. Ég get þar vísað til ágætrar ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar fyrr við umræðuna og tek undir þau sjónarmið sem þar komu fram.

Mér finnst ástæða til, herra forseti, að það týnist ekki alveg í umræðum um þetta mál að setning laganna um þjóðlendur á sínum tíma var auðvitað mikið framfaraspor. Það var og er mikil þörf á að koma á hreint bæði réttarfarslegum atriðum og spurningum um eignarhald og forræði á landi til hálendisins.

(Forseti (HBl): Ég bið hv. þm. afsökunar á að ég gríp inn í ræðu hans að því gefna tilefni að það er hér um bil eins og í skólastofu á vordegi að hlusta á hv. þingmenn nú. Hv. þm. heldur ræðu sinni áfram.)

Ég þakka, herra forseti, og læt það koma fram í leiðinni að ég hef alltaf kunnað mjög vel við mig í skóla og það var einna skemmtilegast þegar fór að vora, og það er gott að vel liggi á hv. þingmönnum.

Ég vil minna á, herra forseti, að lögin um þjóðlendur voru og eru mjög mikilvæg löggjöf og brýnt að koma betri skikkan á framkvæmd þessara mál, eyða óvissu hvað varðar réttarstöðu og hluti eins og eignarhald og forræði á landi og koma skipulagsmálum miðhálendisins og hálendisins á hreint. Unnið hefur verið að þessu á undanförnum árum og menn geta að sjálfsögðu haft ýmsar skoðanir á því hvernig þar hafi til tekist. En um hitt verður varla deilt að málin voru ekki í góðum farvegi og það stóð mönnum fyrir þrifum á ýmsan hátt hversu óljósir ýmsir þættir þessara mála voru.

Að sjálfsögðu, herra forseti, er mikilvægt að gæta hagsmuna ríkisins og almannahagsmuna þar með í máli af þessu tagi, og úr því ættu menn ekki að gera lítið að þar á bak við eru að sjálfsögðu miklir og eðlilegir hagsmunir sem þarf að gæta, og það er skylda ríkisins og hæstv. fjmrh. sem fer með þetta mál. Til þess að það sé hægt þarf ríkið að sjálfsögðu að átta sig á hvaða kröfur það telur sér stætt á að gera innan sanngirnis- og hófsemismarka.

[18:15]

Ég er ekki sérstakur talsmaður þess að einkavæða land. Ég hef ekki verið hrifinn af bráðræðislegri sölu núverandi og þó sérstaklega fyrrverandi ríkisstjórnar á ríkisjörðum. Ég tel að mjög veigamikil rök þurfi að liggja fyrir því að færa land úr opinberri eigu til einkaaðila nema í því tilviki að í hlut eigi þeir sem ætla að nýta landið sérstaklega eins og bændur eða aðilar eins og sveitarfélög, fjölmenn félagasamtök eða aðrir slíkir aðilar sem gæta hagsmuna fjölmennra hópa sem eru vel að því komnir að fá slíkt forræði í sínar hendur. Sé slíku ekki til að dreifa þá tel ég að sjálfsögðu mikilvægt vegna almannahagsmuna að það land sem er í ríkisins eigu eða ríkið á með réttmætum hætti kröfu til sé varðveitt þannig til þess að gefa síðan almenningi kost á að njóta þess lands, fara um það og eiga það saman.

Hitt er svo allt annað mál að ríkið verður líka að gæta mjög vel að vinnubrögðum sínum í málum af þessu tagi og neyta ekki aflsmunar því þarna er stærðarmunur á ferð. Hér eigast í raun og veru við Davíð og Golíat þar sem ríkið er í hlutverki hins mikla Golíats, þó að vísu í sögunum færi nú vel í því máli að lokum. En við getum ekki treyst því að það endurtaki sig og gerist alltaf. Ríkið má ekki fara fram með offorsi og beita aflsmun sínum vegna þess að þá væri sanngjarn og réttmætur réttur hugsanlega af mönnum hafður.

Ég vil því láta þá skoðun mína koma fram að mig hefur, eins og marga fleiri hér, undrað nokkuð ákveðnir þættir í kröfugerð ríkisins á því svæði sem þegar hefur verið tekið til umfjöllunar. Það vekur óneitanlega athygli ef svo er rétt sem frá er sagt að í einstökum tilvikum geri ríkið jafnvel tilkall til allt að 90% af landi einnar jarðar. Þá spyr maður sig: Hvers konar staða hefur þá verið á því svæði ef slík kröfugerð hefur einhverjar innstæður, að einungis tíundi partur sem bújörð eða landeigendur hafa talið innan sinna landamæra séu í raun þeirra réttmæt og sannanleg eign?

Herra forseti. Ég held einnig að huga verði mjög vel að tveimur þáttum þessa máls sem hv. þm. Jón Bjarnason gerði hér að umtalsefni. Það varðar annars vegar það um hvað verið er að deila. Er þessi deila --- eða sem átti auðvitað ekki að vera deila, helst alls ekki --- þetta verkefni sem átti að vera það að reyna að skera úr um mörk í þessum efnum, að snúast upp í lögfræðiátök um stöðu eignarheimilda og pappíra og það hvort þinglýstir gjörningar, samningnar og pappírar og landamerki hafi gildi eða ekki? Er það þá ekki orðið að réttarfarsmáli sem í raun og veru er ekkert lengur rekið á réttum forsendum? Það má spyrja að því hvort ekki hefði þá átt að nálgast þetta mál jafnvel frá öðrum sjónarhóli en þeim að setja það í þann búning að þetta snerist um að afmarka land.

Hitt er svo það sem einnig virðist vera ákveðin hætta á, þ.e. að þegnar þjóðfélagsins standi þarna ekki jafnt að vígi eftir því hvar þeirra eignir liggja í landinu. Ef það er svo að þeir sem eiga land geta í friði fyrir ríkinu, eða þá eftir atvikum öðrum, haldið sínum eignarheimildum á grundvelli pappíra sem eru síðan vefengdir annars staðar í landinu af þeirri ástæðu að það land liggur inn til landsins þá er það auðvitað mismunun gagnvart þegnum þjóðfélagsins. Þá er það svo. Og það gengur ekki, herra forseti. Þannig viljum við ekki hafa hlutina. Þetta held ég að þurfi að athuga mjög vel því að það eru til landmiklar jarðir og stór svæði í einkaeign sem ekki liggja að þessum svonefndu hálendissvæðum sem þarna á að fara að taka fyrir.

Bara hlutir eins og þeir að þetta verk kann að taka áratugi geta valdið því að menn halda forræði á grundvelli slíkra gjörninga á einum stað í landinu, þeim sem síðastur verður tekinn fyrir, áratugum lengur en annars staðar af því að það á að fara bæ af bæ ef svo má að orði komast. Er þetta vinnulag sem er sæmandi ef í vændum eru tilflutningar af þessu tagi? Þetta tvennt, herra forseti, tel ég að hafi komið hér fram við umræðuna og sé hvort tveggja gilt og beri að skoða.

Að lokum hlýt ég að segja fáein orð vegna ummæla sem hér hafa fallið og reyndar einnig í fjölmiðlum og á fundum innbyrðis milli stjórnarliða. Ég lít svo á, herra forseti, að framkvæmd þessarar löggjafar sé á hendi ríkisstjórnarinnar. Að vísu hefur fjmrh. verið falið þetta verk sem hagsmunagæslumanni eigna ríkisins eða ríkissjóðs. En það gefur öðrum hv. þm. stjórnarliðsins, svo ekki sé talað um hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni, ekki stöðu til þess að stunda þannig kattarþvott í málinu sem við höfum séð og heyrt hér að undanförnu.

Hv. þm., hvort sem þeir heita hv. þm. Árni Johnsen eða hv. þm. Hjálmar Jónsson, svo ekki sé talað um hæstv. landbrh. Guðna Ágústsson, geta ekki með réttu gert sig dýrlega í augum bænda á fundum úti um sveitir landsins og ekið síðan hingað til Reykjavíkur og borið fulla ábyrgð sem stuðningsmenn stjórnarliðsins á framkvæmd þessara mála eftir að komið er inn fyrir borgarmörkin. Hvað er að gerast hér og nú, herra forseti? Framkvæmdin er að halda áfram í óbreyttum farvegi að því einu undanskildu að það á að létta einhverjum kostnaði sem ella hefði getað lent á landeigendum vegna viðskipta þeirra við ríkið.

Það er að vísu rétt hjá hæstv. landbrh. Guðna Ágústssyni, og ánægjulegt til þess að vita að hann skuli þrátt fyrir skamma dvöl í ríkisstjórn hafa áttað sig á þeirri staðreynd, að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald, eins og stundum er sagt. Hver einstakur ráðherra ber ráðherraábyrgð samkvæmt lögum á sínum embættisverkum. En þar endar það í grófum dráttum og síðan tekur við hin sameiginlega ábyrgð þeirra sem sitja í ríkisstjórn og þingmanna sem styðja þingbundna ríkisstjórn á verkum hennar og frá henni geta menn ekki hlaupið hversu mikið sem þá langar til þess á fundum uppi í Biskupstungum. Ég geri bókstaflega ekkert með tilraunir einstakra hæstv. ráðherra eða þingmanna stjórnarliðsins til að reyna að gera sig dýrlega í augum bænda ef þeir ætla að styðja það eftir sem áður með atkvæði sínu og stuðningi við ríkisstjórn að framkvæmdin haldi áfram óbreytt, en það er hér í sjónmáli.

Auðvitað er kostulegt að heyra hv. þingmenn eða hæstv. landbrh. tala, þegar hæstv. ráðherra hentar það, eins og hæstv. ráðherrann sé bara alls ekki í ríkisstjórninni, jafnvel bara í stjórnarandstöðu. En það eru þá nýjar fréttir fyrir mér, nema hæstv. ráðherra hafi sagt af sér fljótlega eftir að hann kom frá Kína. Ég hef nú ekki heyrt um það enn þá.

Herra forseti. Mér finnst því óhjákvæmilegt að menn komist ekki upp með svona ódýrar aðferðir hér, eins og þennan gamla, lúna frasa að segja þegar þeim hentar það, að af því að ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald þá geti þeir gert það sem þeim sýnist og haft uppi stóryrði um framgöngu hæstv. fjmrh. eins og hæstv. landbrh. gerði.

Hvar er hæstv. landbrh. nú og hvað hugsar hann sér um framhaldið? Ef þetta frv. verður hér að lögum og hefur þá í sér þá einu breytingu fólgna að hugsanlega verði einhverjum kostnaði sem ella hefði lent á landeigendum létt af þeim, en að öðru leyti haldi framkvæmdin áfram í nákvæmlega óbreyttum farvegi, sömu menn skipa þær nefndir sem þarna koma við sögu o.s.frv., þá leggst nú lítið fyrir kappann, hæstv. landbrh., virðist mér, herra forseti.

Herra forseti. Vegna þess hversu óheppilega hefur til tekist í upphafi þessarar vinnu og greinilegt að í raun hefur rofnað að nokkru leyti trúnaður milli landeigenda, milli bænda og þeirra sem með framkvæmdina fara --- og þar hafa menn ekki bætt úr skák með yfirlýsingum af því tagi sem komið hafa t.d. frá hæstv. landbrh. --- er mér nær að halda að heppilegt væri að fresta frekari aðgerðum í málinu um sinn, fresta frekari framkvæmd þessara laga, sem er að sjálfsögðu ótímabundin og ekkert bundin við eina dagsetningu annarri frekar, um sinn og taka málið til endurskoðunar. Það geta ráðherrar gert að mínu mati og tekið upp hjá sjálfum sér. Ég beini því til hæstv. fjmrh. að hann íhugi hvort ekki sé skynsamlegt að stöðva frekari aðgerðir í málinu um sinn og endurmeta stöðuna vegna þess að það er afar óheppilegt varðandi mál af þessu tagi, þar sem verið er að reyna að setja niður til frambúðar og þess vegna um ókomin ár og aldir hluti af þessu tagi sem eru býsna þýðingarmiklir og afdrifamiklir í augum margra, að vinna þá hluti í andrúmslofti af því tagi sem nú hefur skapast.

Herra forseti. Mér finnst því ýmislegt mæla með því að menn ættu að taka sér aðeins tíma til að telja upp að tíu, endurmeta stöðuna og reyna að átta sig á því hvort hugsanlega væri hægt að koma þessum málum í betri farveg og hefja svo vinnuna á nýjan leik, eftir atvikum á grundvelli þessara laga eins og þau eru eða eftir breytingar á þeim ef mönnum sýnist það betra. Þá held ég að miklu líklegra væri að menn gætu komist að farsælli niðurstöðu sem sæmilegur friður gæti orðið um.