Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 18:34:13 (6857)

2000-04-28 18:34:13# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, SighB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það mál sem er til umfjöllunar er mikið áhugamál jafnaðarmanna og búið að vera baráttumál þeirra yfir þrjá áratugi. Það var fyrir rúmum þremur áratugum sem tveir þingmenn, annar alþýðubandalagsmaður og hinn alþýðuflokksmaður, fluttu í fyrsta skipti á Alþingi mál um þjóðareign. Það voru alþingismennirnir Ragnar Arnalds, þáv. þm. Alþb., og Bragi Sigurjónsson, þáv. þm. Alþfl., sem varð fyrstur manna til þess að koma með sérstakt þingmál þar um. Síðan hafa verið flutt um þetta fjölmörg þingmannamál, frumvörp og þáltill. af fulltrúum þessara sömu flokka, sem ekki náðu fram að ganga.

Ástæðan fyrir því að menn fluttu slíkar tillögur var mjög einföld og menn mega ekki gleyma henni. Ástæðan var sú að fulltrúar landeigenda, lítils minni hluta þjóðarinnar, töldu sig eiga allt land og öll landgæði upp að hájöklum Íslands. Það var ástæðan fyrir því að menn fluttu þing eftir þing tillögur um að það land og þau landgæði, sem einstaklingar gætu ekki sannað eignarrétt sinn á, yrðu sameign þjóðarinnar vegna þess að landeigendur kröfðust þess í æ ríkara mæli að einkaeignarréttur þeirra á öllu Íslandi nema hájöklum landsins yrði ávallt viðurkenndur --- nema þegar þurfti að borga einhverja reikninga, þegar þurfti að leggja fram fé, þegar þurfti að græða land, þegar þurfti að bæta eignaspjöll o.fl. vegna atburða sem gerðust á svokölluðu einkaeignarlandi landeigenda, þá var þetta land skyndilega orðið eign þjóðarinnar. Þá mátti þjóðin borga. Hún mátti punga út peningum fyrir þetta land en hún mátti ekki njóta neinna réttinda. Hér á Alþingi hlustaði ég á marga þingmenn aftur og aftur, m.a. þann ágæta þingmann sem nú situr í stól félmrh., fullyrða að á því léki enginn vafi að landeigendurnir ættu allt land, þar á meðal gróið og ógróið hálendi Íslands nema þá jökla sem þar væru.

Það er síðan fyrst með tveimur hæstaréttardómum, þar sem Hæstiréttur hnekkir slíkum landakröfum einstaklinga, sem Hæstiréttur Íslands kallar eftir því að Alþingi setji lög sem taki af öll tvímæli um það hver teljist eiga það land og þau landgæði sem einstaklingar geta ekki fært sönnur á að þeir eigi. Þá er farið að nálgast málið frá nýrri hlið því að staðreyndin er sú sem menn geta ekki umflúið að æðsti dómstóll Íslands hefur aftur og aftur hafnað landakröfum, kröfum um eignarhald á landi og landgæðum frá einstaklingum og lýst því yfir að slíkar kröfur þeirra stæðust ekki lög. Þeir ættu ekki það land og þau landgæði sem þeir gerðu tilkall til og það yrði að taka af öll tvímæli um hver það væri sem færi þá með eignarhaldið því að samkvæmt íslenskum lögum giltu ekki sömu ákvæði og í norskum lögum, þar sem það ákvæði gildir að það sem enginn á það á kóngurinn eða ríkið. Um þetta yrði að setja sérstök lög hér á Íslandi öfugt við það sem þurfti að gera í Noregi. Hér ríkir ekki sá réttur að það sem enginn telst eiga teljist vera eign þjóðarinnar, eins og í Noregi þar sem ríkir sá réttur að það sem enginn getur fært sönnur á að hann eigi það á kóngurinn, þ.e. ríkið.

Þess vegna þarf að setja slík lög á Íslandi og þurfti að setja um það hver ætti það land og þau landgæði sem einstaklingur gæti ekki sannað eignarhald sitt á. Það var gert með þjóðlendulögunum. Því fögnuðum við jafnaðarmenn því að við höfðum barist fyrir þessu í 30 ár og ekki bara við sem tilheyrðum Alþfl. gamla heldur líka þeir sem tilheyrðu Alþb. og skipa sér nú margir hverjir í sveit vinstri grænna. Það var ekki síður baráttumál þeirra en okkar að það land sem enginn gæti sannað eignarrétt sinn á skyldi teljast sameign þjóðarinnar. Þess vegna kemur mér nokkuð á óvart að menn skuli nú í þeim herbúðum slá þar nokkuð úr og í.

Það var líka samkomulag um það hvernig að þessum eignarskilum skyldi standa, að hæstv. fjmrh. skyldi byrja þennan leik með því að láta fyrir sína hönd lýsa yfir eða leggja fram kröfur um almannaeign á því landi sem hann eða aðilar í umboði hans teldu að ekki væru fullnægjandi eignarheimildir á. Þinglesinn samningur er ekki fullnægjandi eignarheimild vegna þess að spurningin er auðvitað um það hvort sá sem seldi átti það sem stendur í samningnum að hann hafi selt.

Ég sagði við hv. þm. Jón Bjarnason eftir ræðu hans hér fyrir tveim, þremur dögum að ef ég keypti af honum lóð undir íbúðarhús í Hólalandi, sem við skulum segja sem svo að hann ætti, og fengi afsal fyrir allri Hólatorfunni og léti þinglýsa slíkum samningi, væri ég þá þar með orðinn eigandi að allri Hólatorfunni vegna þess að ég hefði í höndum þinglýstan samning um að ég hefði keypt hana? Auðvitað ekki. Ekki er nóg að hafa þinglýstan gjörning í höndunum heldur verður að ganga úr skugga um það að sá sem seldi hafi átt það sem hann sagðist hafa selt. Út á það gengur málið. Þinglýstur samningur einn og sér er ekki sönnun um eignarrétt, ekki í þessu tilviki og ekki í neinu öðru tilviki. Það verður að sanna það að sá sem seldi, hvenær svo sem hann seldi, hafi átt það sem hann seldi, og út á það gengur málið og út á það gengu úrskurðir Hæstaréttar á sínum tíma í Landmannaafréttarmálinu og fleirum. Þar dugðu ekki þinglýstir pappírar vegna þess að sá sem seldi átti ekki það og hafði aldrei eignast það og aldrei keypt það og aldrei numið það land sem hann þóttist vera að selja þeim tiltekna aðila sem keypti. Menn gátu eignast ýmsan rétt, takmarkaðan eignarrétt eins og beitarrétt, veiðirétt o.s.frv. en ekki fullkominn eignarrétt á landi og landgæðum.

Hæstv. fjmrh. hefur því að mínu viti unnið þetta verk nákvæmlega eins og til var ætlast.

Menn tala um að kröfugerð fjmrh. sé óraunhæf í þessu sambandi. En eru menn búnir að gleyma kröfu gagnaðilans? Hver var sú krafa? Hún var að landeigendur í því tilviki ættu allt land á hálendi sunnan fjalla upp að jöklum. Það var hin krafan sem kom á móti, að þeir ættu allt landið, nýtanlegt og ónýtanlegt, að hájöklum. Og þeir óskuðu eftir því, fulltrúar þeirra, þegar þeir gengu á fund þeirrar nefndar sem fjallaði um málið á Alþingi að það yrði bókstaflega sett í lög að sú krafa gæti gengið fram, hvort sem hún stæðist íslenskt réttarfar eða ekki. Það yrði bundið í lög. Lögunum um þjóðlendur yrði breytt þannig að heimildir sem Hæstiréttur hefði dæmt ógildar skyldu gildar samt. Lög yrðu sett um það.

Menn sem eru fulltrúar almannahagsmuna á Alþingi leyfa sér að verja að 4.000--5.000 Íslendingar skuli hvað sem líður niðurstöðum æðsta dómstóls Íslendinga fá í hendur frá Alþingi Íslendinga rétt til þess að geta kastað eign sinni á land og landgæði sem þeir hafa engar lögformlegar eignarheimildir yfir. Að menn skuli leyfa sér þetta í krafti margra áratuga óréttlátrar kjördæmaskipunar og misvægis atkvæða, því að það er út á það sem þetta gengur, og það er það sem þessu veldur. Menn skulu gera sér fulla grein fyrir því.

Hagsmunir hins réttlausa og landlausa íslenska almennings, sem á ekki Ísland nema þegar kemur að því að borga, njóta minnihlutastuðnings hér á Alþingi. Þeir sem haft hafa meirihlutastuðninginn eru þeir sem telja sig eiga eignarréttinn á öllu Íslandi, 4.000--5.000 einstaklingar meðal þessarar þjóðar, og um það snýst málið.

Athyglisvert verður að sjá hvernig óbyggðanefnd fellir úrskurð sinn vegna þess að það er fordæmagefandi fyrir það sem á eftir fer. Auðvitað lifum við í réttarríki þannig að séu menn ósáttir við niðurstöður óbyggðanefndar þá geta menn farið með það til dómstóla.

[18:45]

En þeir kröfugerðarmenn sem þarna eiga í hlut hafa nú ekki sótt gull í greipar þeirra dómstóla. Þess vegna vilja þeir ekki taka áhættuna því að þeir hafa tapað þar hverju málinu á fætur öðru, menn sem kasta með óleyfilegum hætti eign sinni á land og landgæði sem eru í eigu íslensku þjóðarinnar og hún hefur lagt út hundruð milljóna og milljarða til að reyna að vinna til baka þann skaða sem fulltrúar landeigendaaðalsins hafa valdið landinu. Það má þjóðin.

Ég hef því engar athugasemdir að gera við starfshætti hæstv. fjmrh. í þessu máli. Hlutverk hans er að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar, almennings. Það tel ég að hann hafi gert. Hvort hann hefur gengið þar feti of langt fáum við ekki að vita fyrr en úrskurður óbyggðanefndar fellur. En hafi hann gengið feti of langt hefur gagnaðilinn, sem gert hefur kröfur um allt land sunnan fjalla í sína eigu, einkaeigu, allt land upp að hájöklum, gengið mörgum fetum of langt. En því gleyma þeir sem varið hafa hagsmuni fjögur, fimm þúsund landeigenda á Íslandi í fjóra áratugi. Þeir minnast ekki á það. Þeir tala bara um kröfur fjmrh. en minnast ekki á kröfur gagnaðilans.

Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hér hljóðs var hins vegar ekki fyrst og fremst sú sem ég hef vikið að í máli mínu til þessa, heldur hitt að fallið hafa orð í umræðum um þetta mál á opinberum vettvangi sem mér finnst full ástæða til að hæstv. fjmrh. sé beðinn um viðbrögð við. Ráðherra gat ekki verið hér þegar málið var síðast rætt, m.a. af hæstv. landbrh., svo ég óskaði eftir því að hæstv. fjmrh. yrði hér viðstaddur og raunar hæstv. landbrh. líka. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að verða við þeirri ósk en hæstv. landbrh. er því miður fjarverandi eins og sjá má og ég harma það því ég á erindi við hann líka.

Í umræðum sem urðu um þetta mál á Alþingi fyrir nokkrum dögum vitnaði hv. þm. Jón Bjarnason í orð hæstv. landbrh. hvað eftir annað og ég vil leyfa mér að nota tilvitnanir hans, ef hann ekki mótmælir því. (JB: Það er forseti sem ræður.) Ég veit ekki betur en að þær tilvitnanir sem hann fór með í orð landbrh. séu nákvæmlega réttar. Samkvæmt tilvitnun hv. þm. Jóns Bjarnasonar sagði hæstv. landbrh. í viðtali í Ríkisútvarpinu 13. mars sl. orðrétt, með leyfi forseta:

,,Mér finnst að kröfugerðarnefnd sú sem fjármálaráðherra skipaði í málinu hafi gengið í allt aðra átt heldur en ætlunin var með lögunum eins og hún hefur teiknað upp verkin.``

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það svo? Ég tel að svo sé ekki. En þetta er fullyrðing ráðherra í ríkisstjórn með honum sem ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að bregðast við. Ég tek ekki undir þessi orð, ýmsir þingmenn hafa gert það, ég geri það ekki.

Hæstv. landbrh. sagði líka orðrétt 17. mars samkvæmt tilvitnun hv. þm. Jóns Bjarnasonar:

,,Mér finnst það óásættanlegt að fjármálaráðherra skipi alla nefndina`` --- hann er þá að tala um kröfugerðarnefndina --- ,,og í nefndinni séu skipaðir menn sem hafa staðið í illdeilum við bændur árum saman til að reyna að hafa af þeim land.``

Hefur hæstv. fjmrh. skipað slíka nefnd?

Hér gerðist það í þinginu fyrr í kvöld að einn samflokksmanna hans, hv. þm. Hjálmar Jónsson, gerði það að sérstöku umræðuefni að sú nefnd væri óeðlilega skipuð. Hann ræddi í því sambandi um það og tók sem dæmi að í henni sæti fulltrúi skotveiðimanna sem hefði mestan áhuga á af öllu saman að geta komist með byssur sínar nánast að hverjum einasta bóndabæ í landinu til að hefja þar skothríð utan þéttbýlis og hann ynni að verki sínu í umboði fjmrh. með þessa persónulegu hagsmuni sína fyrir augum. Og síðan bætti hv. þm. Hjálmar Jónsson við eða tók undir þau orð sem höfð eru eftir hæstv. landbrh. þegar hann lýsti kröfugerð nefndar sem vinnu á ábyrgð fjmrh.

Ég spyr hæstv. fjmrh.: Er þetta rétt? Er kröfugerðarnefnd hans skipuð svona, að hún sé skipuð fulltrúum sem hafa staðið í illdeilum við bændur árum saman til þess að reyna að hafa af þeim land? Nefndin vinnur á ábyrgð hans. Er hún svona skipuð? Er þetta tilgangurinn, að hafa með öllum ráðum land af bændum? Tekur hann undir orð hæstv. landbrh. og inntakið í orðum hv. þm. Hjálmars Jónssonar sem talaði áðan? En báðir þessir aðilar og fleiri hafa ráðist á nefnd sem starfar á ábyrgð hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Það er meira sem hefur komið upp. Hæstv. landbrh. talaði hér þennan sama dag í þinginu og tók fram í ræðu sinni sjálfur að hann staðfesti hvert einasta orð af því sem hv. þm. Jón Bjarnason hefði haft um málflutning hans í þessu máli. Hæstv. landbrh. sagði að hv. þm. Jón Bjarnason hallaði þar hvergi réttu máli. Hann sagðist standa við hvert einasta orð sem hann hefði sagt um málið, þar á meðal þau orð sem ég hef farið með hér. Síðan bætti hæstv. landbrh. um betur því hann sagði að hann teldi að nefnd fjmrh. hafi sett málið í uppnám, og hann teldi rétt að skoða ætti að skipa nefndina á annan hátt, þ.e. að taka skipunarvaldið úr höndum fjmrh. Þess í stað ætti að skipa nefndina fulltrúum frá þremur ráðuneytum, þ.e. einum frá sínu eigin ráðuneyti, landbrn., einum frá ráðuneyti annars framsóknarmanns, hv. félmrh., sem sagði hér fyrr á árum að bændur ættu Ísland, og síðan einum fulltrúa frá hæstv. fjmrh., sem yrði þá í minni hluta í nefndinni og forræðið þar með af honum tekið.

Þetta sagði hæstv. landbrh. úr ræðustól á Alþingi, herra forseti, og þetta eru engin ómagaorð. Þetta er harkaleg árás á þá framkvæmd sem verið hefur í höndum hæstv. fjmrh. og ég sem stjórnarandstæðingur geri enga athugasemd við því að hæstv. fjmrh. er bara að reyna að vinna sína vinnu með því að gæta almannahagsmuna, ekkert annað en það. Ég óska eftir því, herra forseti, að hæstv. fjmrh. segi eitthvað um afstöðu sína í málinu og um þessar stóryrtu yfirlýsingar samstarfsmanna hans í ríkisstjórn um framkvæmd hans á málinu.