Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 18:57:10 (6859)

2000-04-28 18:57:10# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[18:57]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir mjög afdráttarlaus svör. Ýmsir stuðningsmenn hans í hópi þeirra sem verja hagsmuni landeigendavaldsins hafa reynt að hengja bakara fyrir smið og hafa reynt að búa það til að einhver stjórnskipuð nefnd beri ábyrgð á þeim kröfum sem gerðar hafa verið af ríkisins hálfu um land í almenningseign. Það er ekki. Hæstv. ráðherra tók það skýrt fram. Kröfugerðin í þessu efni er hans.

Honum var í sjálfsvald sett og í lófa lagið að leita sér ráðuneytis hjá þeim sem hann vildi. Hann þurfti ekki að skipa neina nefnd. Ef hann skipaði nefnd gat hún verið fimm manna eða tíu manna, skipuð skotveiðimönnum eða landeigendum eða hv. þm. séra Hjálmari Jónssyni.

En hann kaus að gera þetta svona sjálfur því að nefndin er aðeins honum til ráðuneytis en kröfugerðin er hans, varaformanns Sjálfstfl. og fjmrh. Herra forseti. Svo ég vitni aftur í fornar sögur, þá segi ég einfaldlega við þá þingmenn úr hans eigin röðum sem mest hafa látið að sér kveða í þessu máli á fölskum forsendum: Ja þér ferst, Flekkur, að gelta.