Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 18:59:12 (6860)

2000-04-28 18:59:12# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[18:59]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að undirstrika enn einu sinni að málsmeðferðin í þessu byggir að sjálfsögðu á forskriftinni sem lögin kveða á um. Fjmrh. er falið í lögunum að leggja fram slíkar kröfur. Að sjálfsögðu hef ég gert það sem lögin hafa skyldað mig til að gera, þ.e. leggja fram kröfur fyrir óbyggðanefnd eftir þeim ákvörðunum sem sú nefnd ákveður. Það er hún sem ákveður að taka fyrir ákveðinn landshluta og síðan annan og hún ákveður vinnuferlið.

[19:00]

Síðan er auðvitað nauðsynlegt, þó að það eigi að vera óþarfi að taka það fram að á bak við þessar kröfur liggja að sjálfsögðu mjög ítarlegar heimildarannsóknir og mjög ítarleg vinna við að meta hvað sé eðlilegt og sanngjarnt að gera kröfur um í þessu efni. Þar er m.a. stuðst við þá dómaframkvæmd sem fyrir liggur hér í landinu um þessi efni og margt fleira. Þar koma til skjalanna þinglýsingar, landamerkjabréf og alls kyns aðrar eignarheimildir. En eins og hefur komið fram í umræðunni eru þær ekki endilega alltaf einhlítar og það sýna dómaframkvæmdir að slíkir gjörningar geta verið brigðulir. Fleiri atriði geta skipt máli en eingöngu þinglýsingar, ég tala ekki um ef þær eru einhliða gjörningar. Á bak við þetta er auðvitað heilmikil upplýsingavinna og rannsóknir sem kröfugerðin byggist á. Hitt er svo annað mál að úrskurðarnefndin, óbyggðanefnd, mun kveða upp endanlegt orð um þetta þegar hún hefur vegið og metið kröfugerð beggja aðila og þá kemur í ljós hvort menn hafa gengið of langt eða skammt. Ég geri ráð fyrir því að óbyggðanefnd hafi átt von á ríkari kröfum af hálfu ríkisins á einstaka svæðum sem verið er að ræða um þó að á öðrum svæðum geti það verið á hinn veginn.