Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 19:03:55 (6862)

2000-04-28 19:03:55# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[19:03]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fór mikinn en þó fram hjá málinu sem var verið að ræða. Það er eitt hvort við viljum að landið allt sé þjóðareign og flutt séu lög um að allt land skuli vera þjóðareign. Það er ég alveg reiðubúinn að ræða hvort það skyldi vera. En þá skal jafnt yfir alla ganga í þeim efnum, þá skal ekki verða gerður munur á fólki eftir búsetu hvort land á að teljast þjóðareign eða ekki. Ég vil spyrja hvort honum finnist það í anda jafnaðarstefnunnarinnar að sækja að landeigendum sem eiga land að hálendi um að þeir sanni eignarrétt sinn á jörðum og landamerki sérstaklega umfram landeigendur sem eiga land að sjó eða á láglendi eða suður með sjó eða á Reykjanesi eða hvar annars staðar eða á láglendi Suðurlands. Að mínu mati er það jafnaðarmennska að eitt gildi þannig yfir alla. Hvernig finnst honum vera sá samhljómur í stefnu ríkisstjórnarinnar annars vegar að selja ríkisjarðir með misjöfnum hætti, sumar fyrir slikk og aðrar í vinagreiða eða hugmyndir um það og hins vegar að reka ójafnaðarstefnu gagnvart landi og landeigendum um eignarhald? Nei, ég leyfi mér að spyrja hvernig honum finnist þetta samræmast jafnaðarmannstilfinningu sinni, þ.e. fyrst það hvort land sé þjóðareign eða hvort þegnarnir njóta jafnræðis?