Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 19:08:44 (6865)

2000-04-28 19:08:44# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[19:08]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði mig um stefnu ,,jafnaðarstefnunnarinnar``, ég hef ekki heyrt um hana í þrjátíu ár og gat þess vegna ekki svarað honum, ég veit ekkert um hana. Ég hins vegar get sagt honum að (Gripið fram í.) það hefur verið kjarni stefnu þeirra flokka sem standa að Samfylkingunni og þar á meðal manna eins og Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar, sem var þingmaður fyrir Alþb. á síðasta kjörtímabili, að berjast fyrir sameign þjóðarinnar á landi, að berjast fyrir því að allt það land sem enginn einstaklingur gæti sannað eignarrétt sinn á yrði sameign þjóðarinnar, (Gripið fram í.) hann skal bara tala við sína félaga um það, þetta er jafnréttismál, þetta er mál sem varðar það að 4.000--5.000 Íslendingar eigi ekki allt ræktað og óræktað land á Íslandi, allt land og öll landgæði, allt inn að miðju jarðar utan hájökla landsins. Ef hv. þm. skilur ekki að það er stefnumál jafnaðarmanna, það er stefnumál vinstri manna, það er meira að segja stefnumál grænna manna, þá ætti hann að kynna sér málið betur.