Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 19:13:27 (6867)

2000-04-28 19:13:27# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[19:13]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Þessi stofnun hér, Alþingi, hefur komið okkur hæstv. ráðherra til nokkurs þroska á þessum tuttugu og fimm árum. Fyrir tuttugu og fimm árum hefði honum aldrei hugkvæmst að ljá því atkvæði sitt að sett yrðu lög um að land og landgæði, sem væri ekki hægt að færa sönnur á að einstaklingar ættu, skyldu teljast eign íslenska ríkisins. Svo oft andmælti hann því og svo margar voru um það fluttar ræður af hans hálfu. En þennan þroska hefur hann fengið á þessum árum.

Mér dettur ekki í hug, hef aldrei ætlað það, að hafa af einstaklingum, félögum eða sveitarfélögum eignir sem þeir eiga. Stefna mín var ávallt sú að þessir aðilar gætu ekki kastað eign sinni á það sem þeir eiga ekki eins og þeir hafa reynt að gera. Nú er verið að stöðva það. Hæstv. fjmrh. tók það fram áðan að hann hefði ekki gengið lengra í kröfugerðum sínum en hann teldi sjálfur að fyllsta ástæða væri til og meira að segja skemur en hann hefði átt von á að óbyggðanefnd mundi ætlast til. Síðan verður auðvitað felldur úrskurður um það. Það er það sem skiptir meginmáli. En aldrei datt mér það í hug fyrir tuttugu og fimm árum að við Páll Pétursson ættum það ólifað að greiða báðir atkvæði með frv. til laga um þjóðareign á landi.