Afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 10:43:16 (6872)

2000-05-04 10:43:16# 125. lþ. 105.91 fundur 477#B afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[10:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómasi Inga Olrich, að það er ekki nýmæli að mál séu látin liggja í nefndum. En ég hygg að það mundi ekki gerast í öðrum þjóðþingum að komið væri í veg fyrir það í hartnær áratug að afstaða viðkomandi þjóðþings í máli af þessu tagi sem brennur mjög á fengi yfir höfuð að birtast mönnum. Ég minni t.d. á að þar er víða fyrir að fara sérstökum flýtifarvegi fyrir afgreiðslu mála ef mikið þykir liggja við að afstaða þjóðþingsins birtist með einföldum en skýrum hætti í einstökum efnismálum.

Þar er til að mynda hægt að knýja fram með mjög skömmum fyrirvara efnislega afstöðu þings, t.d. til þess hvernig farið er með atkvæði viðkomandi þjóðar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í einstökum málum. Slíkum farvegi er ekki fyrir að fara hér og ég tel það mikla tímaskekkju, úr því að svo er ekki, að beita þá með þessum hætti meiri hluta eins og gert var og koma í veg fyrir að Alþingi látið í ljós ákveðinn vilja í þessum efnum. Allt og sumt sem farið var fram á í tillögunni, herra forseti, var að fulltrúar Íslands beittu sér fyrir að þetta mál yrði tekið til endurskoðunar.

Ég held, herra forseti, að þetta eigi að vera okkur mikið umhugsunarefni. Til umræðu hefur verið að hér standi til að fara í endurskoðun þingskapa og í því sambandi leyfi ég mér að vekja athygli á því að þarna þarf að verða á breyting. Okkur vantar farveg fyrir endanlega afgreiðslu mála sem hafa verið endurflutt aftur og aftur. Það verður að koma til sögunnar einhver skilagrein frá nefnd og einhver sjálfstæður réttur til þess að lokum að knýja fram efnislega afgreiðslu mála á þingi. Það er ekki neinn svipur á því, herra forseti, og er ekki lýðræðislegt eða þingræðislegt að koma í veg fyrir að vilji þingsins líti dagsins ljós árum og áratugum saman í einstökum málum.