Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 11:04:15 (6879)

2000-05-04 11:04:15# 125. lþ. 105.3 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[11:04]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Frv. til útvarpslaga sem við fjöllum um við 2. umr. hefur verið til umfjöllunar í menntmn. í allan vetur eins og hér kom fram og einnig var fjallað um þetta frv. á síðasta þingi.

Ég verð að segja að frv. er ágæt smíð að mínum dómi og eftir þá góðu og mjög vönduðu umfjöllun sem frv. hefur fengið í menntmn. og ágætar brtt. sem hér liggja frammi og eru allar til bóta að mínu mati, styð ég þetta frv. Ég skrifaði samt undir það með fyrirvara og vil ég síðar gera nokkra grein fyrir í hverju sá fyrirvari er fólginn.

Ég ætlaði aðeins að fjalla um nokkrar greinar sem hafa kannski valdið mestum heilabrotum og umræðu innan nefndarinnar. Vil ég þá fyrst nefna 9. gr. frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur.``

Ýmsar skoðanir á þessu komu svo sem fram í álitum sem okkur bárust m.a. frá Ríkisútvarpinu sem segir um þennan lýðræðisþátt, með leyfi forseta:

,,Við skulum fyrst gera okkur grein fyrir því að útvarpsréttarnefnd á að hafa vald til að hafa áhrif á dagskrárinnihald ljósvakafjölmiðla, sjá ákvæði um barnavernd, auglýsingar, kostun, svo og 9. gr.``

Fleira segja þeir í áframhaldi af þessu en það sem þeir gera þó sérstaklega athugasemdir við er ,,að þeim sem hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað er ekki skylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar``. Þetta finnst Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins óvarlegt að setja í lög og fjalla m.a. um þetta atriði í umsögn, þ.e. að það sé ,,... óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar.`` Menn hugsa þá að allt í lagi sé að leyfa litlu róttæklingahópunum að sperra sig. En hvað ef Bylgjan nær geysilegri hlustun og stjórn hennar ákveður að Bylgjan beiti sér fyrir tilteknum málstað, málstað stærsta eða næststærsta stjórnmálaflokksins?

Þeim finnst sem sagt ekki viturlegt að hafa þetta ákvæði inni í lögum. Ég geri samt ekki sérstakar athugasemdir við þetta sjálf.

10. gr. frv. er m.a. um að sjónvarpsstöðvar eigi að sjá til þess ef unnt er að minnst 10% af útsendingartíma sé varið til evrópskra verka. Við þetta voru gerðar miklar athugasemdir m.a. af Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins og framleiðendafélaginu sem krefst þess skilyrðislaust að hlutdeild innlendrar framleiðslu eigi að vera 25% af útsendingartíma í stað 10% eins og stendur í greininni. Þarna er sem sagt hlutfall innlendrar framleiðslu, fyrir utan fréttir, veður og talsetningu barnaefnis sem framleidd skuli af sjálfstæðum framleiðendum. Fari 10% greinin óbreytt í lög geta íslenskar sjónvarpsstöðvar keypt sýningarrétt á nokkrum seríum frá Bretlandi, segja þeir, og þannig uppfyllt 10% skilyrðin. Ég tel að því verði að treysta að útvarpsréttarnefnd hafi auga með þessu atriði og ef þessar áhyggjur reynast raunhæfar þá tel ég sjálfsagt að endurskoða þurfi lögin og láta þetta taka til innlends efnis.

Miklar breytingar voru gerðar á 14. gr. til hins betra. Í nefndaráliti menntmn. sem hv. formaður nefndarinnar las upp stendur að þar séu tekin upp nánari ákvæði en áður til verndar börnum gegn sjónvarpsefni sem ýmist er talið geta haft alvarleg og skaðvænleg áhrif á þroska þeirra eða til þess fallið að hafa slík áhrif. Ákvæði þessi eiga að styrkja núgildandi íslensk lög um þetta efni og vera til fyllingar ákvæðum samkeppnislaga. Ég held að það sé mjög til hins betra að þetta hafi verið fært nær tilskipuninni eins og þarna var gert með breytingunum.

Þá er það 18. gr. Nokkrar sjónvarpsstöðvar í landinu kallast skjávörp og eru reknar á minni stöðum úti á landi. Þær eru mest með svona innansveitarkróníkur, ef svo má kalla, og auglýsingar. Þessar stöðvar hafa miklar áhyggjur af því að þær geti ekki uppfyllt ákvæði 18. gr. og fóru þess á leit að kannað væri hvort unnt væri að veita einhverjar undantekningar frá þessu. Það fór til athugunar í ráðuneytið og þaðan kom það svar að 18. gr. væri ófrávíkjanleg og þess vegna yrðu skjávarpsstöðvarnar að haga útsendingum sínum í samræmi við ófrávíkjanleg ákvæði útvarpslaga og tilskipunarinnar sem vikið er að hér að ofan. Mér þykir það miður. En eftir að við höfum farið mjög vandlega yfir þetta í nefndinni þá sé ég ekki að hægt sé að víkja frá þessu eins og áður hefur komið fram.

23. gr. olli miklu fjaðrafoki. Greinilegt er að forsvarsmenn ýmissa sjónvarpsstöðva hafa miklar áhyggjur af þessu, sem sé að hægt sé að ákveða að víkja frá einkarétti á útsendingum varðandi atburði sem hafa verulega þýðingu í þjóðfélaginu. Ég tel eftir þær skýringar sem koma fram í nefndaráliti við þessa grein að hún sé mjög ásættanleg fyrir alla. Það er tekið skýrt fram hér að það verði að koma fram í reglum og það verði að koma fram miklu fyrr, töluvert fyrr, um hvaða atburði sé þarna að ræða. Ég held að þetta sé bara hið besta mál og tek undir þetta heils hugar og ég held að ákvæðið sé nú í þeim búningi að allir eigi að geta sætt sig við það.

Varðandi 34. gr. þá hafa ýmis merkissamtök miklar áhyggjur af því valdi sem menntmrh. er veitt með 1. mgr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Heimilt er menntamálaráðherra að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi``.

Það má nefna t.d. Verslunarráð Íslands sem telur með vísan til aukinnar samkeppni í útvarpsrekstri óeðlilegt að festa í lögum ákvæði um að hið opinbera skuli hafa forgöngu um undirbúning stafræns útvarps á Íslandi. Þarfir markaðarins hljóti að stýra því hvort og hvenær útvarpsrekstraraðilar telja rétt að fara af stað með þá tækni sem í stafrænu útvarpi felst. Þá megi benda á að almennt sé óeðlilegt að festa í lög viljayfirlýsingar sem einmitt feli í sér almenna stefnumörkun á ákveðnum sviðum. Aðrir birtingarhættir henti betur í því samhengi. Þetta eru sem sagt orð Verslunarráðsins sem leggur til að þessi grein falli eins og hún leggur sig brott úr frv.

[11:15]

Íslenska útvarpsfélagið hefur líka áhyggjur af þessari grein og telur að ákvörðun um stafrænt útvarp sé ákvörðun um milljarðakostnað, bæði fyrir stjórnvöld og útvarpsstöðvar á markaðnum þegar ákvörðun verður tekin. Það sé brýnt að vandað verði til svo stórrar ákvörðunar. Íslenska útvarpsfélagið hefur lagt til að skipuð verði sérstök nefnd sem í verði fulltrúar ráðuneytisins, Póst- og fjarskiptastofnunar, útvarpsréttarnefndar og starfandi útvarpsstöðva sem fái það hlutverk að móta tillögur til ráðherra um tæknilega útfærslu stafræns útvarps. Síðan verði það ákvörðun Alþingis hvenær og hvernig ríkið taki þátt í ákvörðun um stafrænt útvarp. Útvarpsréttarnefnd fagnaði hins vegar þessu ákvæði og því að lögfesta ætti þessa heimild menntmrh. til að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi.

Ég verð að játa að ég hef ekki nægilega tækniþekkingu eða yfirsýn varðandi stafrænt útvarp þrátt fyrir að ég hafi í nefndinni lagt mig fram við að hlusta grannt á tæknifræðinga útskýra þessi mál fyrir okkur. Ég tel þó ekkert óeðlilegt við að menntmrh. fái þessa heimild. Ég tel auðvitað sjálfsagt að hann leiti samráðs við þá sem málið varðar áður en þessi undirbúningur verði hafinn. Ég tel það víst að hann hafi þann háttinn á.

Það er sérstaklega varðandi ákvæði til bráðabirgða sem ég vildi láta í ljós áhyggjur mínar, þ.e. vegna Menningarsjóðs útvarpsstöðva sem gert er ráð fyrir að verði lagður niður við gildistöku þessara laga þó að stjórn hans eigi samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu að sitja áfram eftir gildistöku laganna og ljúka svo starfi eigi síðar en 31. desember 2001. Ég er meðvituð um þá miklu gagnrýni sem verið hefur í garð Menningarsjóð útvarpsstöðva og þess hvernig hann hefur verið notaður. Ég geri mér grein fyrir því að auðvitað var þörf á að endurskoða þetta og breyta en ég harma að málið skuli vera skilið eftir í því tómarúmi sem mér finnst vera þarna. Ríkisútvarpið á áfram að greiða 25% af rekstrarkostnaði sinfóníunnar. Það hafa verið um 60 millj. á ári sem sjóðurinn hefur greitt til sinfóníunnar og heildarframlag Ríkisútvarpsins í Menningarsjóð er 80 millj. En það eru líka aðrar stöðvar sem greiða í Menningarsjóð. Mér finnst það skilið eftir í lausu lofti hvað verður um styrki til annarrar þáttagerðar. Ég veit að búið er að ganga frá því með breytingu á lögum um Kvikmyndasjóð að ákveðin framlög séu til sjálfstæðra framleiðenda en ég hef áhyggjur af annarri þáttagerð til útvörpunar. Mér finnst þetta mál skilið eftir svolítið í lausu lofti. Mér finnst að með nýjum lögum hefði átt að ganga betur frá málinu en hér er gert.

Hér stendur að stöðvarnar eigi sjálfar að ákveða til hvaða verkefna fjármunir séu nýttir. Mér finnst þetta of opið. Ég hefði gjarnan viljað að þeir fjármunir sem stöðvarnar hafa áður greitt í sjóðinn væru merktir til ákveðinnar þáttagerðar á vegum stöðvanna sem þær hefðu allt að segja um hvernig yrði. Mér finnst alla vega að ganga hefði átt betur frá þessu máli en hér er gert.

Annað langar mig að koma inn á. Ég hef oft þegar minnst hefur verið á útvarp á Alþingi lagt til að sjónvarps- og útvarpsgjald yrði innheimt með nefskatti. Umræður um þetta í nefndinni urðu til þess að nefndin bað um tölur frá Ríkisútvarpinu. Pétur Matthíasson sendi nefndinni áætlun um hvernig þetta mundi líta út ef nefskattur yrði tekinn upp næsta ár. Hann áætlar að það sem Ríkisútvarpið þarf til rekstrarins sé 1 milljarður og 800 þús. Ef skattur yrði lagður á hvern einstakling, yrði hann 6.473 kr. á ári á mann, eða sem svarar 25.892 kr. á fjögurra manna fjölskyldu. Ef gjaldið yrði lagt á heimili yrði skatturinn 18.254 kr. á heimili. Ef hann yrði lagður á fyrirtæki einnig yrði hann 5.786 kr. en það að leggja á fyrirtæki er ábyggilega mjög þungt í vöfum því að í ýmsum fyrirtækjum eru kannski ekki sjónvarpsáhorfendur. Ég veit t.d. að eitt fyrirtæki --- af því að ég sé hv. þm. Össur Skarphéðinsson í salnum --- þ.e. félag til stuðnings framboði Össurar Skarphéðinssonar, mundi þá þurfa að borga slíkt sjónvarpsgjald ef það yrði líka lagt á öll skráð félög og fyrirtæki. Ég tel hreinlega að jafnvel þó að það félag mundi borga þá sé sú leið ekki fær, að leggja þetta á fyrirtæki. En ef fyrirtækin greiddu eins og heimili yrði fjöldi aðila 131.890 og nefskatturinn þá 13.678 kr. á ári á hvern aðila.

Ég verð að segja að þessar tölur ollu mér nokkrum vonbrigðum. Ég hélt að meiri munur yrði ef þetta væri lagt á bara eftir íbúaskrá en þeir segja að ef þetta væri miðað við fólk á vinnumarkaði, sem eru 158.400 manns, yrði nefskatturinn 11.389 kr. eða 34.167 kr. fyrir hjón með eitt barn eldra en 16 ára. Þetta yrði þá greinilega, ef þessi tillaga sem ég hef löngum haft á lofti yrði samþykkt, ekki til hagsbóta fyrir venjuleg heimili í landinu og ég dreg tillögu mína hér með til baka nema fram komi nýjar upplýsingar sem réttlæti hana frekar.

Í nál. er því lýst yfir að þegar í stað þurfi að hefja endurskoðun á lögum um Ríkisútvarp og færa þau til nútímalegra horfs. Ég tel að sú endurskoðun, ef rétt er að henni staðið, geti orðið til góðs, t.d. ef tekið er mið af tillögum starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins sem bárust okkur í nefndinni. Þau eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Útvarpslögum verði breytt þannig að:

Útvarpsráð sé skipað tíu mönnum, þar af sjö kosnum af Alþingi. Enn fremur skipi starfsmenn Ríkisútvarpsins þrjá menn í útvarpsráð og hafi þeir þar fullan atkvæðisrétt. Ráðið meti og taki afstöðu til árlegrar rekstrar- og dagskrárstefnu sem framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins leggur fram. Að fengnum tillögum framkvæmdastjórnar fjalli útvarpsráð um og samþykki langtímaáætlun fyrir Ríkisútvarpið um dagskrá og fjárreiður.

Störf útvarpsstjóra og framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins verði lögð niður. Í staðinn komi þrjár nýjar stöður helstu yfirmanna: dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins ráðinn af útvarpsráði, rekstrarstjóri sem sé ráðinn af menntamálaráðherra og starfsmannastjóri sem rekstrarstjóri og dagskrárstjóri ráði til starfa. Þessir þrír yfirmenn myndi ásamt tveimur fulltrúum starfsmanna framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins.

Útvarpsráð framfylgi valdi sínu yfir dagskrá Ríkisútvarpsins með því að fela dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins að annast yfirumsjón með framkvæmd dagskrár í sjónvarpi og útvarpi. Ráðinu sé gert að starfa sjálfstætt og óháð hagsmunum stjórnmála- og viðskiptalífs. Það hætti afskiptum af einstökum dagskrárliðum og ráðningu starfsmanna, annarra en dagskrárstjórans. Í staðinn líti útvarpsráð eftir því í höfuðatriðum að Ríkisútvarpið ræki skyldur sínar við þjóðina.``

Þetta eru tillögur starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins um nútímalegra Ríkisútvarp. Ég tel að þessar tillögur séu allrar athygli verðar og vona, þegar þessi endurskoðun á útvarpslögum fer fram, að höfð verði hliðsjón af þeim.