Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 11:28:13 (6880)

2000-05-04 11:28:13# 125. lþ. 105.3 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[11:28]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. formanns menntmn., Sigríðar Önnu Þórðardóttur, skrifaði ég undir þetta nál. með fyrirvara. Það skal tekið fram að vinnan við þetta frv. í nefndinni var mikil og góð. Við fengum góða gesti og það var farið djúpt í málin. Ég vil meina að þeim tíma sem varið var í þá vinnu hafi verið vel varið.

Það sem eftir stendur er löggjöf sem að mínu mati er í grundvallaratriðum góð og vel unnin en skilur Ríkisútvarpið eftir standandi út af borðinu. Nú er sett í nál. yfirlýsing þess efnis að við lögleiðingu þessa frv. verði núgildandi lagaákvæði um Ríkisútvarpið að sérlögum. Þetta hefur staðið í okkar pappírum í þessu máli allan tímann. Nefndin varð sammála um að nauðsynlegt væri að endurskoða þau lög sem eftir standa og koma til með að verða sérlög um ríkisútvarp. Ég verð að segja, herra forseti, að ég óttast og ber ákveðinn kvíðboga varðandi þessi ákvæði um Ríkisútvarpsið sem eru í raun og veru afgangurinn af þeim lögum sem við búum við í dag. Ég hef á tilfinningunni að slitrurnar af þeim lögum séu ekki nægilega góð til að vera hér eftir kölluð lög um Ríkisútvarp. Ég tel afar nauðsynlegt að þau tilbúnu sérlög, þessi afgangur af þeim útvarpslögum sem við búum við í dag, verði endurskoðuð strax á næsta þingi.

[11:30]

Ég legg áherslu á yfirlýsingu sem kemur fram í nál. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Nefndin leggur áherslu á að þessari vinnu verði hraðað.`` Þarna er átt við endurskoðun lagaákvæða um Ríkisútvarpið og hvatt til að endurmeta hlutverk þess í breyttu fjölmiðlaumhverfi. Ég vona að þessi yfirlýsing verði tekin gild og falli ekki í gleymsku og dá eins og gjarnan er um yfirlýsingar af þessu tagi sem koma fram í nefndarálitum. Það kemur fram í umsögnum frá Ríkisútvarpinu, frá útvarpsráði, frá starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins og frá útvarpsstjóra sjálfum að brýnt sé að endurskoða gildandi lög um ríkisútvarp. Því til stuðnings vil ég vitna í umsögn útvarpsráðs sem nefndinni barst. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Útvarpsráð telur óheppilegt að ekki skuli jafnframt þessu frv. liggja fyrir frv. um Ríkisútvarpið.

Annars vegar er löngu orðið brýnt að endurskoða lagaramma Ríkisútvarpsins. Gildandi lög henta ekki því starfsumhverfi sem Ríkisútvarpið býr nú við og óvissa um framtíð fyrirtækisins er farin að há starfi þess.

Hins vegar er almenna frv. á ýmsan hátt óljóst að því er varðar Ríkisútvarpið þar sem ekkert liggur fyrir um framtíðarskipan þess nema RÚV-kaflinn úr gömlu lögunum. Má þar nefna m.a. valdskiptingu útvarpsréttarnefndar og útvarpsráðs, sbr. 6. gr., 5. og 12. gr., þar sem útvarpsréttarnefnd virðist falin verkefni sem útvarpsráð annast nú gagnvart Ríkisútvarpinu, og ákvæði um skyldur útvarpsstöðva.

Þá vekur útvarpsráð í þessu sambandi athygli á því að við afnám Menningarsjóðs verður sú skipan tekin upp á ný að Ríkisútvarpið greiðir beint 25% af árlegum rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Útvarpsráð telur að þá skipan þurfi að endurskoða. Til þess er engin tilraun gerð í frv. en aðeins sagt í greinargerð að huga þurfi sérstaklega að þessum efnum.``

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála því sem hér kemur fram. Endurskoðun þessara mála er afar brýn. Ríkisútvarpið er ein af þeim stóru menningarstofnunum sem okkar litla samfélag hefur á að skipa.

Í því umhverfi sem Ríkisútvarpið starfar í dag steðjar að samkeppni frá hægri og vinstri, úr öllum áttum. Hún er góð að mörgu leyti. En í litlu samfélagi á borð við okkar verður hún aldrei gjöful nema ríkisvaldið leyfi sér þann munað að standa vel við bakið á metnaðarfullri innlendri dagskrárgerð fyrir hljóðvarp og sjónvarp. Ég fullyrði, herra forseti, að Ríkisútvarpið er menningarstofnun sem er ein af okkar mikilvægustu lífæðum svo að menning okkar fái dafnað og blómstrað. Það er afar mikilvægt að Alþingi og hv. menntmn. viðurkenni það. Þess vegna segi ég: Það er aldrei of oft sagt að Ríkisútvarpið á það skilið og þarf á því að halda að lög um það séu endurskoðuð og bætt sem allra fyrst.

Varðandi það sem kemur fram í tilvitnun minni í umsögn útvarpsráðs, herra forseti, hef ég ákveðnar áhyggjur af því að verða muni árekstrar varðandi lögsögu útvarpsréttarnefndar yfir Ríkisútvarpinu. Í nefndinni voru þessar áhyggjur vissulega reifaðar en starfsmenn ráðuneytisins og höfundar frv. komu á fund okkar og sögðu að við þyrftum ekki að óttast slíkt. Við vorum í raun fullvissuð um að ekki verði skörun á valdsviði útvarpsráðs og útvarpsréttarnefndar. Þessi orð ráðuneytisstarfsmanna og höfunda frv. eru vissulega góð og gild og þau verða að hafa vægi. Við verðum að treysta því á Alþingi að ekki verði meiri háttar áreskstrar á milli útvarpsréttarnefndar og útvarpsráðs og þarna verði ekki um skörun að ræða. Það þarf að vera alveg tryggt og hv. menntmn. þarf að vera viss um að það geti staðið, að þessi lög breyti í raun og veru engu um starfssvið útvarpsráðs, það sé hið sama og samkvæmt gildandi lögum um ríkisútvarp.

Herra forseti. Mig langar til að gera að umræðuefni eitt veigamikið atriði sem við ræddum mikið í nefndinni. Það lýtur að þeim skyldum sem nefndin telur að eigi að hvíla á herðum Ríkisútvarpsins umfram aðrar stöðvar. Þá erum við fyrst og fremst, herra forseti, að tala um útvarpsstöðvar. Það sem ég á við kemur fram í 7. gr. frv. þar sem fjallað er um dagskrárframboð og skyldur útvarpsstöðva. En í 7. gr. frv., 1. málsl., segir með leyfi forseta:

,,Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun, efla íslenska tungu og leggja rækt við sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.``

Þessi setning var mikið rædd í nefndinni, herra forseti. Á endanum kom fram tillaga sem er hluti af brtt. nefndarinnar, um að fyrri málsl. 1. mgr. orðist svo:

,,Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.``

Með öðrum orðum, herra forseti, ákvað nefndin að útvarpsstöðvum almennt væri það ekki skylt að leggja rækt við sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Þessi skoðun nefndarinnar var rökstudd á þann hátt að þetta væri skylda sem Ríkisútvarpið ætti umfram aðrar stöðvar að bera. Þannig kom fram í nefndinni, herra forseti, að hún er sammála um að Ríkisútvarpið eigi að bera ríkari skyldur gagnvart menningu þjóðarinnar, sögu hennar og menningararfleifð en aðrar stöðvar. Þetta er afar mikilvægt í því samhengi sem hér er um rætt. Hér hefur hv. menntmn. Alþingis viðurkennt það að Ríkisútvarpið sé menningarstofnun umfram aðrar útvarpsstöðvar. Ég vil að því sé haldið til haga og viðurkennt að Ríkisútvarpið ber menningarlegar skyldur umfram aðrar útvarpsstöðvar.

Hitt er svo annað atriði, herra forseti, sem kemur einnig fram í 7. gr. þar sem sagt er að heimilt skuli ef sérstaklega stendur á að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku. Ég hefði, herra forseti, viljað sjá miklu skilmerkilegri skýringar á þessari grein. Samkvæmt henni er útvarpsstöðvum heimilað að útvarpa tónlistarefni sem kynnt er á öðru tungumáli en íslensku. Herra forseti. Það eru útvarpsstöðvar starfandi hér í dag sem gera slíkt, sem hafa á dagskrá sinni þætti þar sem þulartexti er á erlendu tungumáli. Herra forseti. Það er ekki vegna þess að viðkomandi texti sé miðaður við nýbúa. Hér er einungis um að ræða útþynningu á menningu í landinu. Þess vegna ítreka ég, herra forseti, að miklu brýnni þörf er fyrir okkur að standa vel vörð um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins en við höfum áttað okkur á hingað til. Á markaðinn eru komnar stöðvar sem ekki er hægt að segja að séu íslenskar þó þær starfi samkvæmt þessum lögum og í skjóli 7. gr.

Herra forseti. Að lokum, varðandi þetta atriði í 7. gr., tekur útvarpsráð undir þessa gagnrýni mína og segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Útvarpsráð telur að slíkar undantekningar`` --- þ.e. frá því að úvarpa þáttum á íslenskri tungu --- ,,verði að skilgreina mun betur en nú er gert í frv. og reglugerð þannig að ljóst sé við hvaða hópa útlendinga er hér átt og hvers konar útvarpssendingar sé um að ræða. Athygli skal vakin á því að samkvæmt orðanna hljóðan í greinargerð er hér ekki um að ræða nýbúa/innflytjendur.`` Þessar áhyggjur mínar eru því studdar áliti útvarpsráðs og reyndar fleiri umsagnaraðila.

Herra forseti. Þá vil ég gera að umtalsefni réttindi og skyldur útvarpsstöðva gagnvart börnum og ungmennum. Um það atriði fór fram mikil umræða í nefndinni og litaðist sú umræða satt að segja talsvert af áliti umboðsmanns barna sem sendi nefndinni afskaplega greinargóða umsögn. Þar kom fram sú skoðun umboðsmanns barna að lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldismyndum sem og útvarpslög þurfi að taka til endurskoðunar til að tryggja börnum betur þá vernd sem ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga, kveður á um og einnig til að uppfylla ákvæði 17. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem og ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins. Í þessa umsögn var farið djúpt, herra forseti, og á endanum var niðurstaða nefndarinnar sú að hér skyldi tekið á af myndarskap og farið að tilmælum umboðsmanns barna. Í brtt. nefndarinnar er 14. gr. því orðuð upp á nýtt. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa brtt., 14. gr. hljóðar samkvæmt brtt. svo:

,,Sjónvarpsstöðvum er óheimilt að senda út dagskrárefni, þar á meðal auglýsingar, sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi dagskrárefni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, á þeim dagskrártíma sem hætta er á að börn sjái viðkomandi efni.``

Herra forseti. Þetta ákvæði er afar mikilvægt og það er ekki síður mikilvægt að tryggt sé að eftir þessu ákvæði í lögunum verði farið. Það er aðeins eitt orð í þessari brtt. sem ég er kannski ekki alveg fullkomlega sátt við. Það er í lokasetningunni þar sem sagt er að óheimilt sé að sýna þetta efni á þeim dagskrártíma sem hætta er á að börn sjái viðkomandi efni. Í þessum efnum er ekkert tryggt. Auðvitað er erfitt, herra forseti, að setja lög um að tryggt sé að börn séu ekki vakandi á ákveðnum tíma. En það er afar mikilvægt að þess sé gætt að þessu ákvæði verði framfylgt og við stöndum sameiginlega vörð um það að vernda börn og ungmenni fyrir þeim skaðvænlegu áhrifum sem sannað er að ofbeldis- og klámefni hafi á þroska þeirra. Hér náðist mjög gott samkomulag í nefndinni og ég er afskaplega ánægð með þá breytingu sem gerð var á 14. gr.

Þess má geta í þessu sambandi, herra forseti, að í umsögn útvarpsráðs kemur fram að Ríkisútvarpið hefur ákveðna sérstöðu í þessu efni eins og mörgum öðrum. En í umsögn útvarpsráðs segir um vernd barna, með leyfi forseta:

,,Í útvarpsráði eru nú til umræðu hugmyndir um að leggja af eða takmarka mjög auglýsingatíma nálægt barnaefni í sjónvarpi og hvetur ráðið menntmn. til að taka það mál til sérstakrar athugunar.``

Það er afar gott og gaman að geta tilkynnt það hér, herra forseti, að hjá Ríkisútvarpinu skuli hugað að þessum málum á þessum nótum og væri betur að fleiri stöðvar tækju sér Ríkisútvarpið til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Ef ekki eykur þetta í öllu falli sérstöðu Ríkisútvarpsins og styrkir enn stöðu þess sem öflugrar menningarstofnunar sem stendur vörð um íslenska menningu og stendur undir ábyrgð sinni.

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Sigríðar Jóhannesdóttur sem talaði á undan mér og ræddi um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er afar mikilvægt að rekstrargrundvöllur Sinfóníuhljómsveitar Íslands verði tryggður. Það er ekki nægilega afgerandi í þessum lögum. Á því máli þurfum við að taka og það verður vonandi gert af myndarskap á næsta ári, að ræða málefni þeirrar menningarstofnunar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands er og tryggja að hún verði sjálfstæð og efld. Við þurfum að velta upp öllum þeim skoðunum sem hafa verið á því máli og hvort það eigi að vera á ábyrgð Ríkisútvarpins að Sinfóníuhljómsveitin geti starfað.

Það má nefna, herra forseti, nokkur atriði er varða skilgreiningar orða og hugtaka í þessu frv. Það sem ég hefði kannski helst viljað klára í þeim efnum er að skilgreina tvennt. Annars vegar hugtakið ,,fréttatengt efni`` og hins vegar ,,innlend dagskrárgerð``. Það kemur í ljós þegar talað er um innlenda dagskrárgerð, þá fyrst og fremst innlenda dagskrárgerð fyrir sjónvarp, að þar kennir ýmissa grasa. Það mun talið til innlendrar dagskrárgerðar þar sem erlend tónlistarmyndbönd eru sett saman og íslenskur kynnir kemur inn á milli og kynnir þau í örfáum orðum. Um þetta munu vera fleiri dæmi, að samsettir erlendir þættir sem eru klipptir upp og settir saman á nýjan leik með íslenskum þul falli undir innlenda dagskrárgerð í úttektum stöðvanna á eigin efni. Það hefði alveg verið tímabært og þarft fyrir nefndina að taka á þessu. Þetta er kannski mál sem tæki lengri tíma í vinnslu en það er kannski eitthvað sem við ættum að horfa til á næsta þingi að skoða skilgreiningar að þessu leyti. Það verður að vera alveg tryggt að innlend dagskrárgerð sé innlend dagskrárgerð en ekki einhver tilbúningur.

Varðandi skilgreininguna á fréttatengdu efni, þá hefði ég viljað sjá frekari skilgreiningu á því. Nú hefur það komið upp að sjónvarpsstöðvar reyna að fara í kringum ákvæði í þessu frv. og reyndar í gildandi lögum varðandi auglýsingar í fréttatengdu efni. Það hefði verið þarft verk fyrir nefndina að skilgreina það frekar þannig að Alþingi gæti komið sér saman um eftir hvaða reglum eðlilegt væri að stöðvarnar færu og hvernig fara ætti með auglýsingar í sambandi við fréttatengt efni.

Að lokum langar mig, herra forseti, að nefna mál sem hefði kannski átt að koma inn í umræðu okkar en gerði það ekki nema að örlitlu leyti. Það er textun á íslensku sjónvarpsefni fyrir heyrnarskerta. Það var sérmál fyrir nefndinni en fæst sýnilega ekki afgreitt frá henni á þessu vori en það hefði sannarlega verið rausnarlegt af hinu háa Alþingi og hv. menntmn. ef við hefðum getað sett inn í þessi lög ákvæði sem skylduðu sjónvarpsstöðvar til að texta innlent efni í textavarpi sínu fyrir heyrnarskerta. Það er löngu orðið tímabært, herra forseti, að tekið sé almennilega á því máli því að þessu leyti sitja heyrnarskertir ekki við sama borð og aðrir landsmenn. Ég hefði gjarnan viljað sjá það en, herra forseti, eins og venjulega verður ekki á allt kosið. Hér náðust fram ýmsar mjög veigamiklar og góðar breytingar og ég er í heild sátt við þá vinnu sem fór fram í hv. menntmn. varðandi þetta frv.