Flugmálaáætlun 2000 - 2003

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 14:55:29 (6903)

2000-05-04 14:55:29# 125. lþ. 106.8 fundur 299. mál: #A flugmálaáætlun 2000 - 2003# þál. 14/125, Frsm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Samgöngunefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti og Þorgeir Pálsson flugmálastjóra.

Við meðferð málsins í nefndinni urðu nokkrar umræður um slæma aðstöðu til eldsneytissölu á Egilsstaðaflugvelli. Hann er einn þriggja flugvalla í flokki nr. I, en flugvellir í þeim flokki eiga m.a. að geta þjónað sem varaflugvellir fyrir þotuumferð. Er því að mati nefndarinnar óviðunandi að eldsneytisaðstaða þar sé ófullnægjandi. Telur nefndin eðlilegt að í flugmálaáætlun séu gerðar tilteknar lágmarkskröfur um eldsneytisaðstöðu á flugvöllum og beinir því þeim tilmælum til samgönguráðherra að við næstu endurskoðun á áætluninni verði slíkar lágmarkskröfur látnar koma fram í skýringum við hvern flokk flugvalla.

Nefndin leggur til smávægilega breytingu á tillögunni um Bakkaflugvöll. Leggur hún til að á árinu 2002 renni 20 millj. kr. til flugbrauta og hlaða og 10 millj. kr. til bygginga við flugvöllinn, en í áætluninni er gert ráð fyrir að 30 millj. kr. renni til flugbrauta og hlaða en ekkert til bygginga. Er því einungis um að ræða tilfærslu á fjármunum til flugvallarins en heildarútgjöld til hans verða þau sömu eftir sem áður.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með fyrrgreindri breytingu.