Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 16:04:04 (6912)

2000-05-04 16:04:04# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[16:04]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (frh.):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnrh. sé ekki langt undan úr því að umræðan er hafin á nýjan leik. En það var einmitt ástæða þess að ég gerði hlé á máli mínu að hæstv. ráðherra hafði horfið á braut úr þinghúsinu eftir að atkvæðagreiðslum lauk og ég hafði óskað eftir því að einnig forsvarsmenn iðnaðarmála, fyrir utan þá sem bera ábyrgð á því sem utanríkismáli, væru viðstaddir umræðuna.

Ástæðan er sú, herra forseti, og ég vona að sá rökstuðningur nægi, að ég tel að hér sé á ferðinni eitt stærsta mál á sviði raforkumála sem við höfum um langt árabil haft í höndunum á Alþingi Íslendinga. Hér stendur sem sagt hvorki meira né minna til en að Alþingi fyrir sitt leyti blessi að Ísland falli frá stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart því að tilskipun Evrópusambandsins um innri markað í raforkumálum gangi einnig í gildi fyrir Ísland.

Herra forseti. Þetta mál er þar af leiðandi eins og ég sagði í raun og veru algerlega tvíþætt. Það snýst annars vegar um þá aðferðafræði sem hér er verið að innleiða hvað varðar að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar í þeim tilvikum að Ísland hefur sett svokallaðan stjórnskipulegan fyrirvara á grundvelli 103. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og hins vegar er það svo efni þeirra tilskipana eða sameiginlegu ákvarðana sem á að innleiða. Það er kannski lýsandi fyrir þann færibandahugsunarhátt eða þá færibandaaðferðafræði sem í reynd er að verða á afgreiðslu mála sem koma þessa boðleið inn í íslenska löggjöf gegnum tilskipanir sem Evrópusambandið hefur afgreitt og síðan sameiginlega EES-nefndin tekið upp, að hér virtist, herra forseti, ekki ætla að verða nein umræða um efnisþætti einnar einustu af þessum tilskipunum og það var t.d. ekki á þær minnst í framsögu með málinu fyrir 2. umr.

Herra forseti. Maður veltir fyrir sér hvort það hefði getað gerst að málið hefði verið afgreitt á Alþingi án þess að minnast á það einu orði að innri markaður fyrir raforku samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins gengi í gildi á Íslandi með þeim margvíslegu og miklu áhrifum sem það er auðvitað dæmt til að hafa.

Ég var þar kominn í máli mínu, herra forseti, þegar ég gerði á því hlé til þess að hæstv. iðnrh. gæti komið til umræðunnar, að ég var að gera aðeins grein fyrir meginmarkmiðum þessarar tilskipunar. Hún er reyndar birt í fylgiskjali með þáltill. þessari sem er nokkuð að vöxtum. Það má velta því fyrir sér, herra forseti, hvort þingheimur sé allur orðinn þaullesinn í skjalinu. Hér mjög aftarlega rakst ég á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og sem fylgiskjal með henni fylgir tilskipun Evrópusambandsins 96/92/EB. Það er þó nokkurt plagg, herra forseti, bara sjálf tilskipunin er í allmörgum köflum og samtals nokkur hundruð greinar.

Þar af leiðandi, herra forseti, er kannski tímans vegna ekki ástæða til að fara í einstökum atriðum ofan í efni þessarar tilskipunar og væri þó full ástæða til því að ég held að Alþingi þurfi að sjálfsögðu að átta sig á því hvaða grundvallarbreytingar í skipulagi raforkumála í landinu muni hljótast af því að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla ákvæði þessarar tilskipunar. Þau áhrif eru margvísleg, bæði á löggjöf og skipulag raforkumálanna og á þau fyrirtæki sem starfa á þessum markaði og sér þó kannski ekki fyrir endann á því að öllu leyti enn. En ef við látum okkur nægja, herra forseti, að staldra við meginmarkmið tilskipunarinnar þá var ég búinn að fara yfir þau í fjórum liðum, sem sagt að gera raforkugeirann að hluta að innri markaði Evrópusambandsins, þ.e. að fella hann undir þær leikreglur sem gilda á innri markaðnum um samkeppni og annað í þeim dúr. Í öðru lagi að tryggja öryggi í afhendingu raforku, í þriðja lagi að auka samkeppni í framleiðslu á raforku og í fjórða lagi að gera fyrirtækjum kleift að eiga viðskipti með raforku milli landa á svæðinu.

Herra forseti. Við getum þá spurt okkur hve mikið erindi á Ísland og íslenski orkumarkaðurinn inn í þetta samhengi. Er ekki jafnaugljóst í raun í þessu tilviki eins og það var þegar tilskipun um innri markað fyrir jarðgas og gegnsæi t.d. í verðlagningu á jarðgasi var afgreitt í Evrópu, að við eigum ekkert erindi inn í þetta samhengi af þeirri einföldu ástæðu að íslenski orkumarkaðurinn er einangraður? Hann er eyja og án tengsla við orkumarkað meginlands Evrópu og tengdra nálægra eyja. Sæstrengirnir sem stundum hefur borið á góma hafa ekki verið lagðir enn og ekki er í sjónmáli að það verði gert og fyrr verður Ísland ekki í beinum skilningi tengt þessum orkumarkaði þannig að héðan gæti flust raforka til notkunar á meginlandi Evrópu eða öfugt.

Það sem ég vil leggja sérstaka áherslu á í þessu sambandi og rökstyðja um leið fyrir mitt leyti hvers vegna það er ekki skynsamlegt að Alþingi heimili að fallið verði frá þessum stjórnskipulega fyrirvara að svo stöddu er þá í fyrsta lagi þessi staðreynd sem snýr að stöðu Íslands sem eyju.

Í öðru lagi er sérstaða Íslands hvað orkumál varðar mjög mikil. Hún er mikil vegna þess að við framleiðum nánast alla okkar raforku úr innlendum orkugjöfum, að mestu endurnýtanlegum þar sem fallorka vatnanna á í hlut, og við erum þar af leiðandi ekki háð erlendum orkumörkuðum í þessum skilningi, hvorki í þeim skilningi að við kaupum eða seljum raforku um strengi né heldur að við flytjum inn eldsneyti til framleiðslu á raforku hér, nema í svo óverulegum mæli að ég hygg að það megi sleppa þeim þætti.

Við erum að sjálfsögðu einnig í mjög sérstakri stöðu hvað varðar uppbyggingu og skipulag orkumála hér. Framleiðsla, dreifing, eignarhald og fleiri þættir eru með mjög sérstökum hætti af eðlilegum ástæðum og lúta séríslenskum aðstæðum.

Í þriðja lagi má nefna þær sérstöku landfræðilegu aðstæður sem þjóðin býr við í þeim skilningi að hér býr mjög fámenn þjóð í mjög stóru en orkuríku landi.

Ef við lítum svo, herra forseti, í þessu ljósi á meginmarkmið orkutilskipunarinnar, er strax ljóst að a.m.k. tvö af fjórum meginmarkmiðum tilskipunar Evrópusambandsins um sameiginlegan innri markað fyrir raforku eiga alls ekki við á Íslandi, þ.e. það fyrra, að gera raforkugeirann að hluta af innri markmaði Evrópusambandsins, fellur um sjálft sig í þeim skilningi að ekki er um sambærilegar samkeppnisaðstæður að ræða eða möguleika vegna einangrunar orkumarkaðarins hér. Og hvað hið síðara snertir, að auðvelda viðskipti milli landa með raforku, þá fellur það strax algjörlega um sjálft sig af því að engin slík viðskipti eru í tilviki Íslands möguleg þar sem hér er ekki um að ræða mögulega flutninga á orku til eða frá landinu og inn á markaði annarra landa Evrópska efnahagssvæðisins.

Menn geta auðvitað reynt að halda því til streitu að um tiltekna óbeina samkeppni geti verið að ræða í þeim skilningi að við getum keppt við markaðinn á meginlandinu um iðnfyrirtæki og um sölu á raforku til einhverrar tiltekinnar framleiðslustarfsemi en það á ekki að efni til sérstaklega við ákvæðin um hinn sameiginlega innri markað um raforku. Það fellur undir hin almennu samkeppnisskilyrði samningsins og við erum bundin af þeim hvort sem er. Sú samkeppni gildir að sjálfsögðu gagnvart öllum löndum, ekki bara löndum Evrópska efnahagssvæðisins, og lýtur eftir atvikum ákvæðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar einnig.

Herra forseti. Það væri æskilegt að hæstv. utanrrh. væri hérna einnig viðstaddur umræðuna eða a.m.k. formaður utanrmn.

Það vakna þegar af þessum ástæðum, herra forseti, spurningar um hvað þeim samningamönnum Íslands sem tóku ákvörðun um að setja Ísland inn í þetta samhengi gekk til. Hvers vegna í ósköpunum var ekki frá byrjun gert ráð fyrir því að leita eftir varanlegri undanþágu fyrir Ísland hvað varðaði þennan innri markað í raforkumálum, af þeirri einföldu ástæðu að við erum af efnislegum og landfræðilegum ástæðum ekki hlutar af honum? Í fyrsta lagi hefði auðvitað strax við gerð samningsins um Evrópskt efnahagssvæði þurft að gera þarna fyrirvara og í öðru lagi átti ekki að standa að þeirri ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni sem tekin var í nóvembermánuði sl. Maður spyr sig líka hvernig standi á því að ákvörðun um svo afdrifaríkan hlut eins og þennan er tekin þegjandi og hljóðalaust án nokkurrar umræðu á Alþingi eða heima fyrir yfir höfuð og, mér vitanlega, án nokkurs minnsta samráðs t.d. við utanrmn. Alþingis eða iðnn. Alþingis. Mér er ekki kunnugt um að það hafi sérstaklega verið tekið þar á dagskrá eða menn varaðir við því að til stæði að Ísland gerðist aðili að þessu á þessum tímapunkti í nóvembermánuði sl.

[16:15]

Eins og ég áður sagði, herra forseti, þá var sú leið valin af næsta augljósum ástæðum að fá varanlega undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins um gagnsæi verðlagningar og gegnumflutninga á jarðgasi á Evrópska efnahagssvæðinu. Þó að það hafi reyndar stundum gleymst og menn hafi staðið frammi fyrir því á Alþingi að næsta fáfengilegum hlutum hafi skolað hingað upp á strendur af því að mönnum hafi láðst af eðlilegum ástæðum að undanskilja Ísland jafnvel frá hlutum sem varða járnbrautarsamgöngur eða eitthvað því um líkt á þessum markaði. Ég tel að það hefði átt að nálgast þetta með raforkuna með sambærilegum hætti og setja það sem skilyrði að Ísland fengi þarna varanlega undanþágu eða a.m.k. allt annan og rýmri aðlögunarfrest og sérmeðhöndlun að ýmsu leyti.

Herra forseti. Víða í löndum Evrópusambandsins hafa áform um markaðsvæðingu og samkeppni í orkumálum og veitumálum valdið miklum deilum og reyndar er það svo að þessi tilskipun 96/92/EB er niðurstaða af mjög átakamiklu ferli og er í eðli sínu málamiðlun ólíkra sjónarmiða milli ríkja Evrópusambandsins. Engu að síður er ljóst að innleiðing hennar hefur í för með sér margháttaðar breytingar fyrir Ísland og skapar vandamál sem er ekki augljóst hvernig leyst verða þegar menn standa frammi fyrir þeim. Ég vil þar nefna sérstaklega þá staðreynd að eignarhald á orkufyrirtækjum á Íslandi er nánast alfarið opinbert, þ.e. ekki er því fyrir að fara hér að orkufyrirtækin séu í eigu ríkis og sveitarfélaga og samkeppni milli margra fyrirtækja á markaði í einkaeigu eða blandaðri eigu og eru ekki forsendur fyrir slíku eins og mál standa, a.m.k. nú um stundir á Íslandi.

Í öðru lagi ber að hafa það í huga að aðstæður á Íslandi, t.d. hvað dreifikerfi varðar, eru með allt öðrum hætti en gerist annars staðar í Evrópu, mér liggur við að segja alls staðar, þó kannski megi segja að svæðið í norðan- og vestanverðum Noregi séu að einhverju leyti sambærileg þá er það þó tæpt. Dreifikerfið hér er óhemjuvíðfeðmt borið saman við fjölda þjóðarinnar og notkun. Það er afar kostnaðarsamt vegna stærðar landsins og líka að nokkru leyti vegna veðurs þar sem ljóst er að tjón á dreifikerfi hér er með allt öðrum hætti en víðast hvar annars staðar. Ísingaveður eru t.d. einna illvígust á Íslandi miðað við flest lönd á byggðu bóli eins og menn hafa rækilega fengið að kenna á. Menn hafa jafnvel valið þann kost að grafa langar flutningalínur í jörð vegna óheyrilegs tjóns sem menn höfðu aftur og aftur orðið fyrir í ísingaveðrum. Það er að vísu rétt sem fram kemur í salnum að annars staðar geta aðrar vágestir plagað menn eins og hvirfilvindar en þeir eru þó sjaldan jafnstórvægilegt vandamál eins og illviðri og ísing við íslenskar aðstæður.

Það er líka rétt, herra forseti, að hafa það í huga að þrátt fyrir að hið opinbera hafi á undanförnum áratugum verið að baksa við að byggja upp dreifikerfi fyrir raforku í landinu og það hefur alfarið verið verkefni hins opinbera, þ.e. fyrirtækja í eigu ríkisins og/eða þá sveitarfélaga, þá er ekki lengra komið en svo, enn sem komið er, að það vantar mikið upp á að allir landsmenn búi við sómasamlega þjónustu að þessu leyti. Ég minni þar t.d. á hið mikla óréttlæti sem drjúgur hluti landsmanna, þ.e. þeirra sem byggja landsbyggðina eða hið eiginlega strjálbýli, býr við hvað það varðar að hafa ekki aðgang að þriggja fasa rafmagni með tilheyrandi kostnaði, orkusóun og óþægindum. Þar af leiðandi, herra forseti, þyrfti ríkið og opinberir aðilar sem hafa séð um framkvæmd þessara mála hingað til helst að ljúka þeim hlutum þannig að málin væru þá í sómasamlegri stöðu þegar kemur að breytingum af þessu tagi.

Í þriðja lagi vil ég nefna að það er algerlega ljóst að undirbúningur undir óumflýjanlegar breytingar á lögum og fyrirkomulagi raforkumála, svo sem varðandi skipulag og rekstur fyrirtækja eigi tilskipunin að ná fram að ganga, er mjög skammt á veg komin. Þetta lýtur ekki aðeins að t.d. uppskiptingu fyrirtækja eins og Landsvirkjunar sem er ljóst að verður að hluta niður í fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö fyrirtæki ekki síður en stórveldið Microsoft ef af verður, þetta lýtur einnig að breytingum á lögum og reglum, þetta lýtur að skipulagi, uppbyggingu og hlutverki annarra fyrirtækja, svo sem Rafmagnsveitna ríkisins og orkufyrirtækja á vegum sveitarfélaganna, þá má nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og fleiri.

Það er einnig ljóst og ætti hæstv. iðnrh. að vera afar vel um það kunnugt, herra forseti, að mikil gerjun er í einstökum landshlutum og meðal ákveðinna aðila á þessu sviði hvað varðar stöðu þessara mála. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að menn séu að velta þeim hlutum fyrir sér, en þar er fyrst og fremst um mjög lauslegar vangaveltur að ræða enn sem komið er að mér sé kunnugt um. Það nægir t.d. í því sambandi að vísa til mjög svo flausturslegra umræðna sem urðu skömmu fyrir jól um þann möguleika að flytja höfuðstöðvar Rafmagnsveitna ríkisins út á land, væntanlega til Akureyrar, og breytingar sem slíkt gæti haft í för með sér eða boðið upp á hvað varðar endurskipulagningu orkumála í einstökum landshlutum. Menn eru jafnvel að ræða um að stofna fleiri landshlutafyrirtæki á þessu sviði og fleira í þeim dúr. Allt ber að sama brunni, herra forseti, að mínu mati. Okkur Íslendingum veitir ekki af svo sem eins og 5--10 ára tíma til að endurskipuleggja fyrirkomulag orkumála á okkar eigin forsendum á þann hátt sem við teljum henta aðstæðum okkar áður en við förum að taka inn á okkur að gera grundvallarbreytingar vegna utanaðkomandi tilskipana.

Einnig er rétt að minna á að lokum, herra forseti, að einn megintilgangur tilskipunarinnar og markmið með henni er að innleiða samkeppni í orkugeiranum. Ef að líkum lætur er í tengslum við það og í kjölfarið ætlunin að fylgi einkavæðing opinberra fyrirtækja á þessu sviði. Það vantar að sjálfsögðu ekki að söngurinn er einnig uppi í þessu tilviki að lausnarorðið stóra og mikla sé einkavæðing. En þá, herra forseti, vaknar líka stórar spurningar og þeim er ekki síður ósvarað en þeim sem ég hef hérna velt upp. Þar ber auðvitað hæst, hvernig ætla menn að tryggja jöfnun á raforkuverði um allt land í slíku samkeppnisumhverfi eða ætla menn alfarið að gefa það markmið upp á bátinn?

Mér vitanlega hefur ekki verið sýnt fram á það með hvaða einföldum aðferðum eða jafnvel yfir höfuð færum leiðum menn geta varðveitt markmið um jöfnuð í raforkuverði annars vegar og það að innleiða samkeppnisaðstæður í þessum efnum hins vegar.

Það er líka rétt, herra forseti, að benda á að þá væri um að ræða einkavæðingu fyrirtækja sem eru í eðli sínu í einokunar- eða í besta falli fákeppnisaðstöðu og þá minnug þess að reynslan af slíkri einkavæðingu þegar í hlut eiga fákeppnis- eða einokunarfyrirtæki einmitt á sviði veitumála er mjög slæm. Ætli þeir finni ekki fyrir því á Bretlandseyjum sem hafa verið að borga einkaeinokunarfyrirtækjunum sem þar voru búin til fyrir vatn og rafmagn, gas og fleiri hluti, hversu góð útkoman er af því að búa við einkaeinokun. Íslendingar þekkja hana mætavel. Versta tímabil sem Íslendingar hafa upplifað í viðskiptamálum er tímabil einkaeinokunarinnar, þ.e. hinnar illræmdu dönsku einokunarverslunar en hún var lengstum, herra forseti, einkaeinokun, þ.e. Danakonungur seldi í hendur einkafyrirtækja einkaleyfi til að okra á Íslendingum. Reyndar var það þannig að skástu tímabilin í þeirri sögu voru þegar Danakonungur sjálfur fór með verslunina. Segja má að hún hafi verið ríkiseinokun en miklu verr vegnaði okkur þegar um einkaeinokun væri að ræða af skiljanlegum ástæðum enda yfirleitt ekki um það deilt að versta mögulega fyrirkomulag í viðskiptum er einkaeinokun, þegar einkaaðili er einn í aðstöðu til að þvinga menn til viðskipta við sig til að hagnast á þeim sjálfur og hefur sjálfdæmi meira og minna um verðlagningu og jafnvel að einhverju leyti þjónustu. Menn eru í ósköp lítilli samningsaðstöðu gagnvart aðilanum sem á einu raflínuna inn í húsið hjá sér eða vatnslögnina eða annað í þeim dúr.

Herra forseti. Mér er tjáð að hæstv. iðnrh. sé tímabundinn og ég skal taka tillit til þess og reyna að stytta mál mitt í þessari lotu þannig að hæstv. ráðherra geti komist í ræðustólinn til svara. Það eru þó nokkur atriði sem ég vil nefna örstutt í lokin en áskil mér þá rétt til að koma betur inn á þau mál aftur.

Ég vil sérstaklega spyrja hæstv. ráðherra hver sé afstaða hans til þess sem kemur fram í nál. minni hluta að vegna þess hversu stórt og afdrifaríkt mál er hér á ferð og í raun og veru lítil umræða hefur farið fram um það og undirbúningur allur undir gildistöku þessarar tilskipunar ef af ætti að verða er skammt á veg kominn verði því vísað til ríkisstjórnarinnar og við bíðum með það a.m.k. um sinn að falla frá hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. ráðherra hvað líði undirbúningi þessa máls almennt talað. Mér er ljóst að komið hefur út ein skýrsla sem lýtur að einhverjum opinberum undirbúningi sem hægt er að segja með réttu að tilheyri þessu máli, þ.e. skýrsla eða tillögur nefndar undir forustu forstjóra Þjóðhagsstofnunar, þáverandi, væntanlegum ráðuneytisstjóra í iðnrn. Þórðar Friðjónssonar, þar sem er velt upp ýmsum möguleikum sem á því væru að skipta upp fyrirtækjum, aðskilja þá þætti sem tilskipunin gerir ráð fyrir að þurfi að vera aðskildir, þ.e. framleiðsla í fyrsta lagi, flutningar í öðru lagi og dreifing í þriðja lagi. Rétt er að vekja athygli á því að þetta þarf allt að aðskilja þannig að sami aðili getur til að mynda ekki annast annars vegar flutninga og heildsöluviðskipti á þessu sviði og smásöluviðskipti og dreifingu hins vegar.

Ég vil í þriðja lagi spyrja hæstv. ráðherra hvort skoðaðir hafi verið þeir möguleikar sem felast í 24. gr. tilskipunar Evrópusambandsins til að fá varanlegar undanþágur eða beita fyrir sig þeim ákvæðum í þeim tilvikum sem greinin fjallar um og mér sýnist að Ísland gæti út af fyrir sig mögulega fallið undir. Þar er fyrst og fremst vikið að tveimur mögulegum undanþáguleiðum, þ.e. annars vegar undanþágur og ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnrh. kunni þetta, þegar þegar gerðar samningsskuldbindingar valda vandkvæðum gagnvart því að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar eru gefnir í 24. gr. hennar vissir möguleikar á undanþágum eins og þar segir, með leyfi forseta:

,,Aðildarríki þar sem ákvæði þessarar tilskipunar leyfa ekki að virtar séu skuldbindingar eða rekstrarábyrgðir sem gefnar voru áður en tilskipunin öðlaðist gildi geta sótt um bráðabirgðafyrirkomulag sem framkvæmdastjórnin getur leyft m.a. með tilliti til stærðar kerfisins, samtengingar kerfisins og skipulags raforkuiðnaðar ríkisins. Framkvæmdastjórnin tilkynnir aðildarríkjum um slíkar umsóknir áður en hún tekur ákvörðun að teknu tilliti til trúnaðar kröfunnar, birting í stjórnartíðindum`` o.s.frv.

Svo er hitt meginundanþáguatriðið sem þarna er mögulegt. Um það er fjallað í 3. tölul. 24. gr. Það er þegar í hlut eiga smá og einangruð kerfi en þar segir, með leyfi forseta:

,,Aðildarríki sem geta sýnt fram á eftir að þessi tilskipun hefur öðlast gildi að umtalsverð vandkvæði séu á rekstri lítilla einangraðra kerfa þeirra geta sótt um undanþágur frá ákvæðum IV., V., VI. og VII. kafla sem máli skipta og er framkvæmdastjórninni heimilt`` o.s.frv.

Herra forseti. Ég tel tvímælalaust skynsamlegast við núverandi ástæður, vegna þeirra mistaka sem ég tel að hafi verið gerð að setja Ísland inn í þetta án þess að leita þarna eftir varanlegri undanþágu, að við af léttum ekki stjórnskipulegum fyrirvara. En til vara mætti gera þá kröfu að leitað verði eftir annars vegar miklu lengri aðlögunartíma fyrir Ísland en þeim tveim árum sem Íslandi og Liechtenstein er ætlað að hafa frá og með því að tilskipunin tekur gildi. Hins vegar að setja í gang skoðun á því hvort nýta megi ákvæði 24. gr. tilskipunarinnar til þess að semja varanlega um sérstöðu Íslands í þessum efnum.

Afstaða minni hlutans er að málinu sé vísað til ríkisstjórnar, herra forseti, þ.e. þessu eina númeri þáltill.