Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 16:39:50 (6916)

2000-05-04 16:39:50# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Skylt er skeggið hökunni. Það kemur mér ekki mjög á óvart þó að svolítill samhljómur sé í áliti iðnrn. og Landsvirkjunar og þeirra sem þarna véla saman um hlutina.

Varðandi það að Alþingi muni síðar koma að þessu máli í haust þá er ég ekki viss um að allir hv. þm. hafi áttað sig á því að það sem til stendur hér e.t.v. innan nokkurra klukkutíma er að heimila að fallið verði frá hinum stjórnskipulega fyrirvara, síðustu bremsunni sem Ísland í raun og veru hefur gagnvart því að skuldbinda sig gagnvart þessari tilskipun. Það er það nýja við þessa aðferðafræði sem menn verða að átta sig á og ef á að meðhöndla hana þannig að vísa síðan í það að Alþingi eigi að fá að koma aftur að málinu, þá fer ég að endurskoða stuðning minn við þetta fyrirkomulag því að það er hér, núna í þessari afgreiðslu Alþingis sem í raun og veru hin efnislega uppáskrift mun fara fram vegna þess að verið er að leggja til að falla frá hinum stjórnskipulega fyrirvara og þar með vakna samningsskuldbindingar Íslands og þetta verður hluti af þjóðréttarlegum gjörningi sem við erum bundin af. Það er á þeim tímapunkti sem ég tel rétt að segja stopp og við skulum skoða málin betur. Ég legg þar af leiðandi til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar þó að ég hefði í sjálfu sér vel getað hugsað mér að vísa því eitthvert annað ef boðið væri upp á það samkvæmt þingsköpunum.