Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 17:08:16 (6920)

2000-05-04 17:08:16# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[17:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að draga fram þetta atriði sem er eitt af mörgum sem rætt er um í þáltill. þ.e. að það á að örva og koma á samkeppni á raforkumarkaði, en eins og hann gat um í fyrri ræðu sinni er engin samkeppni þar og allur sá markaður í eigu opinberra aðila.

Sumir hv. þm. og sem betur fer meiri hlutinn, hefur trú á því að samkeppni sé það sem getur haldið verðlagi niðri og komið neytendum best. Við höfum séð það á mörgum sviðum. Við höfum séð það í lyfjaverslun. Við höfum séð það í matvöruverslun. A.m.k. fyrir fimm, sex árum lækkaði mjög hörð samkeppni vöruverð og gerði það meira að segja mögulegt að þrátt fyrir jafnvel gengisfellingar lækkaði verðlag á Íslandi. Það hefur gert það að verkum að unnt hefur verið að hækka laun til fólks án þess að það færi beint út í verðlagið. Samkeppnin hefur neytt fyrirtækin til þess að hagræða og stjórna betur rekstri sínum.

Nú er spurning mín til hv. þm.: Trúir hann ekki á samkeppni? Önnur spurningin er þessi: Ef hann skyldi trúa á samkeppni svona almennt, trúir hann þá ekki á samkeppni í raforkugeiranum og af hverju ekki? Hvað er svona sérstakt við raforkugeirann, þar sem menn trúa á samkeppni í útlöndum, hvað er svona sérstakt við íslenska raforkugeirann sem gerir það að verkum að samkeppnin geti ekki unnið þar til hagsbóta fyrir neytendur eins og um allan heim?