Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 17:30:19 (6925)

2000-05-04 17:30:19# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[17:30]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. og formanni utanrmn., Tómasi Inga Olrich, fyrir mjög greinargóð svör. Ég legg áherslu á að við fáum nánari upplýsingar um þessa liði við síðari hluta umræðunnar, sérstaklega það sem snýr að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Það er rétt ályktun sem hann dregur af málflutningi okkar í stjórnarandstöðunni að við erum ekki að leggjast gegn þessu fyrirkomulagi nema síður sé en það á einvörðungu við um þær tilskipanir og þær breytingar sem sátt ríkir um. Þá erum við tilbúin að fallast á þetta fyrirkomulag.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að vitað var hvert stefndi í orkumálum Evrópu. Það var vitað eins og það var vitað hvert stefndi í málefnum símkerfanna löngu áður en ákvörðun var tekin um að einkavæða þau og setja inn í tilskipanir Evrópsambandsins ákvæði þess efnis. En einmitt vegna þess ættum við að taka upp umræðu á Alþingi um þau mál sem vitað er að koma til ákvörðunar í hinni sameiginlegu EES-nefnd. Eðlilegt er að slík stefnumótandi umræða fari fram áður en til ákvörðunar kemur.

Ég ítreka þá afstöðu okkar að við erum tilbúin til að fallast á þessa þáltill. að því tilskildu að orkugeirinn verði felldur út úr henni.