Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 20:43:18 (6931)

2000-05-04 20:43:18# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[20:43]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins til að beina spurningu til hv. þm. Árna Johnsens vegna frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum.

Eins og hv. þm. sagði er hér verið að breyta brúttórúmlestum yfir í brúttótonn. Þetta hljómar afskaplega sakleysislega, einfaldlega er verið að skipta um orð. En það kom ekkert fram í máli hv. frsm. hvað þessu fylgdi. Ég vil því gjarnan fá að heyra frá hv. frsm. hvaða upplýsingar hafi komið fram um það í nefndinni hvað 30 rúmlestir samsvöruðu mörgum brúttótonnum með þeim reiknistuðlum sem notaðir eru hjá Siglingastofnun.

Eins og ég hef heyrt einstaka samgöngunefndarmenn túlka þetta, þá er þetta engin breyting. Það þýðir þá í augum og skilningi þessara aðila að 30 rúmlestir þýði 75 brúttótonn. Samkvæmt upplýsingum mínum er þetta ekki svo. 30 rúmlestir þýða í rauninni 45 brúttótonn. Það er því verið að auka þarna um 30 brúttótonn í það minnsta umfram það sem nú er. Það er sem sagt verið að auka réttindi þeirra sem eru með svokallað pungapróf og þá um leið að fjölga þeim skipum, sem mér er tjáð að séu 39, sem pungaprófsréttindafólk getur stýrt.