Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 20:50:05 (6934)

2000-05-04 20:50:05# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., Frsm. ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[20:50]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Það er enn ástæða til að leiðrétta áframhaldandi misskilning hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni.

Í fyrsta lagi er ekki verið að draga úr menntunarkröfum. Þær hafa aukist verulega á undanförnum árum í pungaprófinu. Greinum hefur verið fjölgað. Nú er skylda að fara á öryggisnámskeið í Öryggisskóla sjómanna og fá skírteini þaðan og dómarar sem dæma próf þeirra sem taka pungaprófið eru tilskipaðir samkvæmt reglugerð menntmrn. (Gripið fram í.) Það er engin ástæða til að snúa út úr þessu.

Ef miðað hefði verið við 50 tonn, brúttótonn, þá hefði þessum bátum fjölgað um 24. Miðað við 75 tonn koma 39 til viðbótar. Þetta er mergurinn málsins. Þetta snýst ekki um að fórna öryggi, sækja að Stýrimannaskólanum. Pungaprófið hefur aldrei verið neinn hryggbiti í Stýrimannaskóla Íslands. Pungaprófið hefur verið námskeið um allt land, m.a. í grunnskólum og framhaldsskólum. Það er æskilegt að rækta það nám, þá möguleika, fyrir fólk um allt land til þess að auka áhuga þess á sjósókn og sjómennsku. Það er enginn metnaður í því ef það verður sem mér heyrist á hv. þm., að það eigi að binda þetta nám við Stýrimannaskólann í Reykjavík eða Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum eða Stýrimannaskólann á Dalvík. Þetta nám þarf að vera miklu víðar um landið. Það eru full rök fyrir því. Þar eru menn með þekkingu. Þar eru menn með reynslu. Það er góð reynsla af þessu og þetta hefur verið grunnurinn að mörgu sem hefur verið jákvætt í okkar sjómennsku.