Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 21:15:01 (6940)

2000-05-04 21:15:01# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[21:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Ég er alveg sammála honum í því að nefndir hafa að sjálfsögðu allar heimildir til að breyta þeim frv. og þáltill. sem til þeirra koma að eigin geðþótta. Það sem ég vildi fá hér fram er sú staðreynd að á bak við frv. frá ráðuneytum liggur oft mikil vinna með hagsmunasamtökum þeirra aðila sem málið varðar. Það er náttúrlega grunnurinn á bak við lagasetninguna. Þegar fram koma tillögur sem í raun breyta í veigamiklum atriðum því samkomulagi sem náðst hefur á milli ráðuneytisins og viðkomandi samtaka mundi ég segja að málið, ef til stendur að breyta því, ætti að fara aftur til umfjöllunar hjá sömu aðilum þannig að ný sátt náist. Ég hef ekki orðið var við að það hafi verið reynt. Þess vegna spyr ég: Var þessi brtt. samgn. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna upp í 75 tonn, þar sem fyrra frv. er samkomulag ráðuneytisins við hagsmunasamtök, borin undir ráðuneytið og er það þá gert með samþykki ráðuneytisins?