Staðfest samvist

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:16:07 (6952)

2000-05-04 22:16:07# 125. lþ. 106.14 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:16]

Árni Johnsen (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður er það svo að hv. Alþingi stendur ekki í sporum Jesú Krists, og mér finnst vægast sagt ósmekklegt að líkja saman barni og réttindum til tannsmíða. Ég er eingöngu að leggja áherslu á mál mitt út frá því sjónarmiði að barnið hafi réttinn. Það eru ströng lög og strangar reglur um ættleiðingu. Hún er opin fyrir hjón og einstaklinga. Réttindin geta á svo margan hátt verið tryggð. Það er engin lausn endanleg og eilíf fyrir barnið að lúta fyrir þeim reglum sem hér er verið að fjalla um. Það tryggir ekki hamingju og lífsgleði, ekki frekar en svo margt annað sem menn vilja þó hafa til viðmiðunar, en réttur barnsins á að vega þyngst í þessu.