Höfundalög

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:33:41 (6957)

2000-05-04 22:33:41# 125. lþ. 106.19 fundur 325. mál: #A höfundalög# (EES-reglur) frv. 60/2000, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:33]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1110 og brtt. á þskj. 1111 um frv. til laga um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum, frá menntmn.

Helsta markmið þeirra breytinga á höfundalögum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu er að laga íslenska höfundalöggjöf að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9 um lögverndun gagnagrunna. Þá er með frumvarpinu gerð tillaga um að samræma íslensk höfundalög að tilskipun ráðsins 92/100/EBE, um leigu- og útlánsrétt og önnur réttindi tengd höfundarrétti á sviði hugverkaréttar. Að lokum er í frumvarpinu gerð tillaga um breytingar á ákvæðum varðandi vernd tölvuforrita með hliðsjón af tilskipun ráðsins 91/250/EBE, um lögvernd fyrir tölvuforrit.

Gagnagrunnur er skilgreindur í tilskipun Evrópusambandsins sem safn sjálfstæðra verka, upplýsinga eða efnisatriða sem komið er fyrir með skipulegum eða kerfisbundnum hætti og eru aðgengileg með rafrænum aðferðum eða á annan hátt. Lögvernd gagnagrunna samkvæmt frumvarpi þessu er tvíþætt. Annars vegar lýtur hún að vernd höfunda gagnagrunnsins að fullnægðum almennum skilyrðum höfundarréttar um verkshæð. Þannig er þess krafist að fullnægt sé skilyrðum um frumleik og skapandi vinnu í vali og niðurröðun efnis í gagnagrunninn. Hins vegar lýtur lögverndin að vernd fjárfesta, þ.e. að tímabundnum einkarétti framleiðenda gagnagrunna til eintakagerðar í því skyni að tryggja þeim hæfilegt endurgjald fyrir afnot annarra aðila af efni gagnagrunna á verndartímabilinu sem er 15 ár. Ástæðan fyrir þessari vernd er sú að miklir fjárhagslegir hagsmunir eru tengdir því að byggja upp gagnagrunna.

Rétt er að taka fram að gagnagrunnur kann að geyma höfundarréttarlega varið efni sem að sjálfsögðu er verndað samkvæmt almennum rétti höfundarréttar.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:

1. Lögð er til lagfæring orðalags í 1. málsl. 2. efnismgr. 1. gr.

2. Lagðar eru til breytingar á 2. gr. Ör tækniþróun og framfarir í dreifingu á hugverkum geta haft í för með sér mikla röskun á réttindum höfunda, listflytjenda og framleiðenda. Er hér einkum átt við eintakagerð til einkanota. Í athugasemdum við lagafrumvarp um breytingu á höfundalögum, sem lagt var fram á 106. löggjafarþingi 1983--84, kom fram að vegna eintakagerðar til einkanota væri eðlilegt og reyndar sjálfsagt að rétthafar fengju bætt það tjón sem leiðir af þverrandi sölu hljóðrita af þeim sökum og auk þess greiðslur fyrir þau auknu afnot hugverka sem ný tækni hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér. Til þess að koma til móts við þessi sjónarmið var 11. gr. höfundalaga breytt með lögum nr. 78/1984, og lögfest gjald á auð bönd og/eða upptökutæki. Núna er komin til sögunnar stafræn eintakagerð til einkanota. Slíkar upptökur eru orðnar mjög góðar og segja má að eintak sem fjölfaldað hefur verið stafrænt sé mjög svipað að gæðum og frumeintakið. Af þessum sökum er nú lögð fram tillaga um breytingu á 11. gr. höfundalaga, þar sem lagt er til að rétthafar eigi rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku á verkum til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra hluti, í hvaða formi sem þeir eru, sem taka má upp á hljóð eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti.

3. Lögð er til breyting á 3. gr. til frekari skýringar á því hverjum sé heimil gerð eintaka eftir tölvuforriti. Réttur notanda er ætíð afleiddur af rétti eiganda eintaks af tölvuforriti.

4. Lagt er til að 2. málsl. efnismálsgreinar b-liðar 4. gr. falli brott þar sem málsliðurinn hefur lítið notagildi og hefur jafnframt sætt gagnrýni.

5. Lagðar eru til breytingar á 5. gr. þar sem m.a. er lagt til að Höfundarréttarsjóður myndlistarmanna eða annar sjóður sem kæmi í hans stað reikni sér hæfilegt endurgjald fyrir innheimtu gjalds við endursölu á listaverkum í atvinnuskyni. Í því sambandi leggur nefndin áherslu á að ekki verði heimilt að áskilja hærra endurgjald en sem nemur kostnaði við innheimtuna á grundvelli traustra útreikninga á þeim kostnaðarliðum sem heimilt er að telja til innheimtukostnaðar. Hér fellur undir t.d. viðhald gagnagrunns um rétthafa og umboðsmenn, sem og endurseljendur listaverka í atvinnuskyni, vegna innheimtu og skila á gjaldi, miðlun upplýsinga til seljenda vegna gjaldtökunnar, bréfaskriftir í tengslum við innheimtu, kostnaður við innheimtuaðgerðir, innheimtuþóknun og endurskoðunar- og bókhaldskostnaður. Jafnframt er mælt fyrir um kröfurétt rétthafa listaverka á hendur framangreindum samtökum vegna innheimtunnar.

Þá er lagt til að við bætist ný málsgrein, er verði 4. mgr., þar sem lögð er til breyting á því fyrirkomulagi sem gilt hefur um innheimtu svonefnds fylgiréttargjalds sem leggst á söluverð við endusölu listaverka í atvinnuskyni og sölu listaverka á listmunauppboðum. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi, sem byggt er á 25. gr. b höfundalaga og reglugerð nr. 244/1993, sér Myndlistarsjóður Íslands um innheimtu gjaldsins samkvæmt skilagreinum sem söluaðilum listaverka ber að skila ársfjórðungslega til sjóðsins. Nokkur vanhöld hafa verið á því að umræddar skilagreinar hafi borist sjóðnum en þær eru forsenda frekari innheimtu á vegum hans. Hefur þetta leitt til þess að aðeins hluti af innheimtu fylgiréttargjaldi er talinn skila sér til rétthafa. Af þessum sökum þykir nauðsynlegt að tekin verði upp hér á landi sambærileg lagaskylda söluaðila til afhendingar skilagreina og gildir samkvæmt dönsku höfundalögunum. Lagt er til að söluaðilum verði gert skylt að skila ársfjórðungslega skilagreinum um seld listaverk, staðfestum af löggiltum endurskoðanda. Til að tryggja rétta meðferð gjaldsins er jafnframt lagt til að söluaðila verði skylt að skila skilagreinum fyrir þau tímabil er engin listaverk hafa verið seld. Samhliða framangreindum breytingum er gert ráð fyrir því að samtök listamanna, sem menntamálaráðherra viðurkennir, sjái um innheimtu fylgiréttargjaldsins í stað Myndlistarsjóðs Íslands. Þá er gert ráð fyrir að í stað núgildandi reglugerðar um fylgiréttargjald og Myndlistarsjóð Íslands verði sett ný reglugerð á grundvelli 5. gr. frumvarpsins.

6. Lögð er til breyting á 11. gr. í samræmi við 5. gr. Vanræksla aðila sem fæst við endursölu listaverka í atvinnuskyni á að senda samtökum rétthafa skilagrein um seld listaverk mun varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Ákvæði þetta þykir nauðsynlegt til að tryggja að ávallt liggi fyrir réttar upplýsingar um skil seljanda á fylgiréttargjaldi til samtaka myndlistarmanna.

7. Lögð er til breyting á 15. gr., um verndartíma gagnagrunna, til að eyða því tómarúmi sem myndast hefði frá 1. janúar 2000 til gildistöku laganna og til að tryggja að ekki sé skertur verndartími þeirra gagnagrunna sem gerðir hafa verið frá 1. janúar 1983 til gildistöku laganna þannig að sú vernd haldist til 1. janúar 2016.

8. Að lokum er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem nánar er mælt fyrir um niðurlagningu Myndlistarsjóðs Íslands, samanber athugasemdir við 5. tölulið hér að framan. Þannig er lagt til að menntamálaráðherra skipi skilanefnd sem í eiga sæti þrír menn. Einn nefndarmaður skal skipaður eftir tilnefningu samtaka myndlistarmanna en tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Nefndin skal hafa lokið störfum innan sex mánaða frá gildistöku laganna.

Menntmn. stendur einróma að áliti þessu.