Yrkisréttur

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:43:40 (6958)

2000-05-04 22:43:40# 125. lþ. 106.17 fundur 527. mál: #A yrkisréttur# frv. 58/2000, Frsm. HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:43]

Frsm. landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um yrkisrétt.

Hv. landbn. hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Sigþórsson og Sigríði Norðmann frá landbúnaðarráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Landgræðslu ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Líffræðistofnun Háskóla Íslands.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að unnt verði að sækja um og öðlast hugverkarétt á plöntukynbótum, svokallaðan yrkisrétt, en kveðið er á um hann í TRIPS-hluta samningsins um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem Ísland er aðili að. Með hugtakinu yrki er átt við nýtt afbrigði eða stofn af plöntutegund og með veitingu yrkisréttar mun rétthafi yrkis öðlast einkarétt til hagnýtingar þess í atvinnuskyni.

Aðalefni þessa yrkisréttar er að hann veitir yrkishafa einkarétt til ræktunar, meðferðar og verslunar með efnivið til fjölgunar yrkisins. Aðrir þurfa leyfi yrkishafa til hagnýtingar þess og er yrkishafanum heimilt að krefjast sanngjarns gjalds fyrir, þ.e. svokallað nytjaleyfisgjald. Rétturinn nær ekki til uppskeru að yrkinu sé hún ekki notuð til fjölgunar að því tilskildu að ekki hafi verið á neinn hátt brotið á rétti yrkishafa með ræktuninni. Þá er notkun yrkis í einkaþágu og til tilrauna og kynbóta heimil án sérstaks leyfis.

Herra forseti. Með frv. þessu er annars vegar stefnt að því að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga og hins vegar að tryggja íslenskum kynbótaaðilum arð af starfi sínu til að standa straum af kostnaði við frekari kynbætur.

Við afgreiðslu málsins voru fjarverandi hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Jónína Bjartmarz.

Guðjón A. Kristjánsson áheyrnarfulltrúi sat fundi nefndarinnar og er samþykkur afgreiðslu þess.

Undir álitið rita frsm., sá sem hér stendur, Einar Már Sigurðarson, Guðjón Guðmundsson, Þuríður Backman, Drífa Hjartardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessari breytingu.