Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 23:05:15 (6965)

2000-05-04 23:05:15# 125. lþ. 106.5 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[23:05]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja eftir hæstv. fjmrh. því að forsenda þess að geti haldið áfram máli mínu er að hann sé hér til staðar. Hér gengur hann í salinn. (Gripið fram í.) ,,Engin forsenda``, segir hæstv. fjmrh. sem þykist ekki þurfa að tala við nokkurn mann um þetta frv. Sú gagnrýni sem fram hefur komið á framgöngu hans í þessu máli er einmitt sú að hann hafi virt að vettugi óskir sem fram hafa komið frá þeim samtökum sem hlut eiga að máli og stóðu að samkomulagi sem gert var á haustdögum árið 1986 og þetta frv. eða lagabálkur sem hér er verið að gera tillögu um breytingu er byggður á. Það var byggt á samkomulagi sem gert var á milli fjmrn. og Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og BSRB og BHMR og Kennarasambandsins hins vegar og undirritað og birt sem fylgigagn í athugasemdum með stjórnarfrv. á sínum tíma. Mönnum til upprifjunar þá er hér verið að gera tillögu um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Tillaga ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. gengur út á það að breyta 14. gr. þeirra laga og bæta inn í hana ákvæði sem kæmi til með að banna hópuppsagnir. Ákvæðið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Það telst til verkfalla í skilningi laga þessara þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla.``

Síðan er lagt til að þessi lög öðlist þegar gildi.

Röksemdin sem fram er færð með þessu kemur fram í athugasemdum með frv. þar sem fyrst er vísað til svokallaðrar friðarskyldu, nokkuð sem öll samtök á vinnumarkaði viðurkenna, enda er hún lögbundin að auki. Jafnframt er vakin á því athygli að á síðari árum hafi færst í vöxt að starfshópar segi upp störfum, ekki síst hjá hinu opinbera. Einnig er vísað í dóm Félagsdóms frá 1999 sem kveðinn var upp í svokölluðu Árborgarmáli þar sem sveitarfélagið Árborg sótti hóp leikskólakennara, 12 leikskólakennara, sem þar störfuðu og höfðu sagt upp störfum og þeirra félag, Félag íslenskra leikskólakennara, til saka fyrir brot á lögum. Sannleikurinn er sá að menn furðuðu sig mjög á því hvernig að þeim málarekstri var staðið vegna þess að krafan var reist á hendur stéttarfélaginu, Félagi íslenskra leikskólakennara, en jafnframt var tekið fram í málflutningi stefnanda að félagið hefði hvergi komið þar við sögu. Í endurriti úr dómabók Félagsdóms segir, með leyfi forseta:

,,Stefndi leggur áherslu á að Félag íslenskra leikskólakennara hafi engan þátt átt í ákvörðun leikskólakennaranna um að segja upp störfum.``

Þetta er nú harla undanlegur málatilbúnaður. Þótt ég fagni því að sjálfsögðu að félagið skyldi ekki hafa verið dæmt þá hef ég furðað mig á hvernig þarna var staðið að málum. Ef hægt hefði verið að sýna fram á að félagið hefði hvatt til þessara aðgerða hefði það sannanlega brotið 13. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Aðilar kjarasamnings bera fébótaábyrgð á samningsrofum sem þeir sjálfir eða fulltrúar þeirra gerast sekir um í störfum sínum fyrir þá. Á samningsrofum einstakra félagsmanna bera félög því aðeins ábyrgð að þeim verði gefin sök á samningsrofinu.``

Ef svo er að félög standi að baki hópuppsögnum af þessu tagi, ef verið er að beita þessari aðferð í kjarabaráttunni til að komast á bak við þau lög sem um verkföll gilda, er félagið sekt. Að öðrum kosti er það það ekki. En hvað sem því líður þá segir í athugasemdum með frv. að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þar sem þetta mál hafi tapast þá beri að styrkja lagagreinina, ekki 13. gr. heldur 14. gr., og færa þar inn áþekkan texta og er að finna í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og gildir um hinn almenna vinnumarkað. Og það er látið fylgja sögunni þegar þetta er réttlætt að allt sé þetta gert í samræmingarskyni. Þá hef ég vakið athygli á því að þau samtök sem hlut eiga að máli, og sem lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka til, hafa lagt áherslu á að þau vilji gjarnan slíka samræmingu, að þegar á heildina sé litið mundu menn sætta sig við að starfa undir lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem að flestu leyti eru rýmri hvað snerir launamanninn og réttindi hans en þau lög sem opinberir starfsmenn búa við og heita lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ef menn á annað borð vilja fara út í samræmingu þá hefur ekki staðið á samtökum opinberra starfsmanna. Það á við um BSRB, BHM og Kennarasambandið. Það eina sem menn hafa viljað hyggja að í því efni eru ákvæði sem lúta að uppbyggingu stéttarfélaganna. Það er eina atriðið. En hvað snertir alla þætti sem snúa að vinnudeilum, réttindum atvinnurekandans og launamannsins hafa menn lýst vilja sínum til að ganga til slíks samræmingarstarfs. Það er því ekki þar sem strandar.

Eru menn ýkja óánægðir með þá lagabreytingu sem hér liggur fyrir eða tillögu að lagabreytingu? Spurningin snýst um samhengi hlutanna. Það snýst um það í fyrsta lagi hvernig staðið er að lagabreytingum og í annan stað hvernig sú breyting sem gerð er kemur við lögin að öðru leyti. Hér er verið að gera tillögu um bann við hópuppsögnum starfsmanna. En á það ber að líta að atvinnurekandinn hefur rétt til þess, samkvæmt þessum sömu lögum, að framlengja ráðningarsamninga starfsmanna sem sagt hafa upp störfum ef til auðnar horfir í starfseminni. Ef atvinnurekandinn getur fært sönnur á að svo sé getur hann framlengt ráðningarsamninginn, skotið uppsögninni á frest þannig að hún taki hálft ár, sex mánuði, en ekki þrjá. Þetta eru réttindi sem atvinnurekendur hjá hinu opinbera, ríkinu, hafa á hendi. Alla þessa þætti vilja menn skoða í samhengi áður en ráðist er í breytingar á lögunum.

[23:15]

En svo er annað og það er spurningin um hvernig staðið er að málum. Ég gat um það áðan að þessi lög byggja á samningum. Ég vék að því bæði áðan og einnig fyrr í kvöld að samningurinn hér að lútandi er sjálfur birtur með undirritunum í athugasemdum með stjfrv. árið 1986. Þessi samningur er undirritaður af forvera hæstv. fjmrh., Þorsteini Pálssyni, ásamt Indriða H. Þorlákssyni og Þorsteini Geirssyni sem lengi fóru með formennsku í samninganefnd ríkisins. Fyrir hönd Sambands ísl. sveitarfélaga undirritar Magnús E. Guðjónsson samninginn en Kristján Thorlacius fyrir hönd BSRB, Birgir Björn Sigurjónsson fyrir hönd launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan BHM og Elín G. Ólafsdóttir fyrir hönd Bandalags kennarafélaga. Þetta er birt með stjfrv.

Ég ætla ekki að fara að þreyta menn með því að rifja aftur upp þær umræður sem fram fóru um frv. áður en það varð að lögum haustið 1986. En þar kom rækilega fram í máli hvers einasta manns sem tjáði sig um efnið, hvers einasta hv. alþingismanns sem tók til máls um þessi lög og var hamrað á því, að hér væri um kjarasamning að ræða. Enda segir í inngangi að fyrrnefndu undirrituðu samkomulagi sem birt var í upphafi athugasemda við lagafrumvarpið, með leyfi forseta:

,,Með kjarasamningum fjármálaráðherra á þessu ári við heildarsamtök opinberra starfsmanna, þ.e. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, launamannaráð ríkisstarfsmanna innan BHM (BHMR) og Bandalag kennarafélaga, BK, fylgdu bókanir þess efnis að nefndir samningsaðilar skyldu undirbúa endurskoðun á núgildandi lögum um gerð kjarasamninga.``

Síðan er rakið rækilega hvernig staðið var að þessum málum og að lokum er sagt, með leyfi forseta:

,,Efni frv. hefur verið kynnt innan þeirra heildarsamtaka sem aðild hafa átt að samningu frv. og eru þau ásamt fulltrúum fjmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga sammála um að leggja til að frv. þetta verði lagt fram hið fyrsta sem stjfrv.``

Ég vitnaði hér í samkomulag sem undirritað var og birt með fylgigögnum frv. þegar það var lagt fram haustið 1986 en samkomulagið var undirritað 24. nóv.

Eins og ég segi var hamrað á því í umræðu um málið, af hálfu fyrrv. hæstv. fjmrh. og annarra, að hér væri um samkomulag að ræða. Enda fór svo að í þeim nefndum sem fjölluðu um málið í þinginu þá undirrituðu allir nefndarmenn. Það var fullkomin samstaða um málið í þinginu og má geta þess að undir nefndarálit rituðu eftirtaldir nefndarmenn: Hv. þm. Páll Pétursson, Kjartan Jóhannsson, Svavar Gestsson, Ólafur G. Einarsson, Halldór Blöndal, Guðmundur Bjarnason og Friðrik Sophusson. Hér er því enginn vafi á að um kjarasamninga er að ræða eða samkomulag sem byggt er á kjarasamningum. Þetta ítreka hér fyrrv. hv. þm. Svavar Gestsson, Guðrún Agnarsdóttir gerir slíkt hið sama og Kjartan Jóhannsson gerir það einnig. Jafnvel þegar gerðar eru minni háttar breytingar á frv. í meðförum þingsins kemur fram í máli hæstv. fyrrv. fjmrh. Þorsteins Pálssonar að leitað hafi verið eftir samkomulagi við viðkomandi stéttarsamtök áður en frv. var keyrt í gegn.

Ég vitnaði fyrr í kvöld í hv. þm. Jón Kristjánsson sem ítrekaði að þetta frv. byggðist á kjarasamningum ríkisins við BSRB. Hv. þm. segir í umræðum sem fram fóru 17. des. 1986, með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur rætt frv. og haft samband við formann BSRB um efni þess og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.``

Svipað kemur fram hjá öðrum þingmönnum sem tjá sig um málið eins og ég hef áður rakið og mun ekki gera nánar. Páll Pétursson, núv. hæstv. félmrh., fór svipuðum orðum um frv. en álit manna var mjög á einn veg í þessum efnum.

Að þessu kom ég í máli mínu fyrr í kvöld. Þótt ég færi ítarlegar í þessa umræðu þá vil ég minna á að þetta er grundvallaratriði. Við erum að tala um breytingu á lögum sem byggja á kjarasamningum og samkomulagi. Það var skilningur fyrir því í þinginu af hálfu allra sem komu að máli að þannig bæri að líta á þessi mál.

Þetta varð mér tilefni til vangaveltna um afstöðu sem oft hefur komi fram í þinginu, að það sé að vissu leyti óeðlilegt að aðilar á vinnumarkaði komi sér saman um atriði og þinginu sé svo nánast stillt upp við vegg gagnvart því samkomulagi. Menn hafa minnt á að Alþingi hafi þegar allt kemur til alls löggjafarvaldið á hendi og þar eigi hver og einn að fara að sinni samvisku og samþykkja einvörðungu það sem samviskan býður. Það er alveg rétt. Þannig á að gera hlutina. Hins vegar finnst mér það íhugunarefni fyrir alla, ég hef orðið var við að það er almenn skoðun hér í þinginu, að þegar kemur að atriðum sem snerta kjarasamninga, að ekki sé á það minnst þegar um er að ræða þær samskiptareglur sem hafðar skuli í heiðri á vinnumarkaði, þá skuli eftir fremsta megni leitað eftir því að ná sátt um málið.

Það kom mjög rækilega fram í umræðunni um þetta mál, ekki síst af hálfu fyrrv. hæstv. fjmrh. Þorsteins Pálssonar, hve mikilvægt hann taldi að leiða þessi mál til lykta í góðu samstarfi við þá sem málið snertir. Hann var einnig á því að önnur lög ættu að gilda um opinbera starfsmenn en almennan vinnumarkað. Hann sagði m.a. við umræðuna að sérreglur um boðun og framkvæmd verkfalls hjá opinberum starfsmönnum væru eðlilegar því það þyrfti að tryggja meiri festu í starfi þar og væri ekki alls staðar hægt að heimila verkföll. Ég er ekki viss um að ég sé sammála þessu. Ég held að það eigi að leggja það í vald stéttarfélaganna í ríkari mæli en gert er hjá hinu opinbera að stýra verkfallsréttinum. Í því sambandi má benda á að það kerfi sem við búum við núna og byggir m.a. á svokölluðum undanþágulistum og verkfallslistum sem birta skal á hverju ári fyrir 15. febrúar, ef ég man rétt, virkar ekki og þessar reglur eru ekki virtar. Allir hafa gefist upp á þessu fyrirkomulagi. Þetta er ekki lengur raunveruleiki sem menn horfa til. Þessi kerfi þarfnast því sannarlega endurskoðunar.

Ég finn nú ekki tilvitnun í fyrrv. hæstv. fjmrh. þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi þess að um þessi mál væri gott samkomulag og hve mjög hann hefði kappkostað að slá af kröfum sínum til þess að ná góðu samkomulagi um málið því hann hefði orðið var við að gagnaðilinn gerði það einnig. Þetta eru vinnubrögð sem þingmenn tóku mjög undir og lýstu ánægju með í þinginu.

Ég var byrjaður á að ræða álitsgerðir sem efh.- og viðskn. bárust um þetta frumvarp. Sannast sagna er um svo mikið efni að ræða að ekki gefst tóm til að fara yfir þær allar þótt full ástæða væri til. Ég hafði m.a. vitnað í álitsgerð frá BSRB. Hér er önnur álitsgerð mikil að vöxtum frá Bandalagi háskólamanna. Til upprifjunar má geta þess að í álitsgerð BSRB er farið í sögulegan aðdraganda málsins. Vikið er að lagalegu samspili í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, hvaða þýðingu það hafi að taka einstök atriði þar úr sambandi án þess að hreyfa við öðrum því það þurfi að líta heildstætt á málin. Að lokum fylgja álitsgerðinni ályktanir frá stjórn og formönnum aðildarfélaga bandalagsins og sameiginleg ályktun frá BSRB, BHM og kennarasamböndunum um framgöngu fjmrh. í þessu máli. Þar stendur upp úr að allir þessir aðilar líta svo á að með því að fara einhliða fram með þetta mál gerist hæstv. fjmrh. sekur um samningsrof, að rjúfa samkomulag um hvernig menn ættu að bera sig að við að gera breytingar, samkomulag sem góð sátt ríkti um. Það kom mjög vel fram í umræðum um málið að sjálft frv. er reist á samkomulagi og þær smávægilegu breytingar sem gerðar voru í meðförum þingsins voru gerðar í sátt við hlutaðeigandi samtök.

Í umsögn BHM um frv. ríkisstjórnarinnar er vikið að ýmsum þáttum, m.a. ýmsum lagatæknilegum og þingtæknilegum málum. Gerð er athugasemd við hvaða afgreiðslu málið hafi hlotið í meðförum þingsins. Síðan leggur BHM áherslu á að samtökin séu mjög eindregið á þeirri skoðun að ein vinnulöggjöf gildi í landinu, sé fylgjandi því að samræming eigi sér stað milli þeirra laga sem gildi um opinbera starfsmenn annars vegar og um hinn almenna vinnumarkað hins vegar. Með öðrum orðum vilja þeir að lögin um vinnudeilur og stéttarfélög og lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna verði samræmd. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Stofnanir BHM hafa margsinnis ályktað að rétt sé að ein vinnulöggjöf gildi í landinu. Þar sem vinnumarkaðurinn stefnir í þá átt að verða æ einsleitari telur BHM að sérlöggjöf á borð við lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna sé tímaskekkja og beri því að afnema eða taka til gagngerrar endurskoðunar hið fyrsta í samstarfi þeirra aðila sem starfa eftir lögunum.

[23:30]

Í 13 ár hafa lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, gilt um samskipti ríkis og sveitarfélaga sem vinnuveitenda við stéttarfélög opinberra starfsmanna sem fulltrúa launafólks. Til viðbótar refsiákvæði 35. gr. laganna gilda enn sem tæknileg meginregla, sbr. 14. gr. laganna, lög nr. 33/1915, sbr. lög nr. 82/1998 og lög nr. 10/1983, um verkfall opinberra starfsmanna, 85 ára gömul lög, þar sem lögð er refsing með ,,sektum eða fangelsi allt að 2 árum`` við því að taka þátt, eða hvetja til þátttöku, í verkfalli, en ,,ef miklar sakir eru`` vofir starfsmissir yfir. Eins og þetta væri ekki nóg er einnig í 40. gr., sbr. 53. gr., laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögð refsing við því ef embættismenn ,,efna til eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum.``

Af framangreindu er ljóst að löngu er tímabært að endurskoða og samræma þær reglur sem gilda um samskipti aðila á vinnumarkaði enda ríkir eftir hjálagðan dóm Félagsdóms (fskj 1) óvissa um gildi laganna og þar með veruleg réttaróvissa, auk þess sem aðilar sem starfa samkvæmt lögunum hafa sammælst um að víkja frá þeim þegar við á.``

Og hér í fylgiskjali eða í hjálögðum dómi Félagsdóms sem ég vék að áðan er vísað í fylgigagn með umsögn BHM. En áfram segir þar í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Lögin eru meðal helstu leikreglna sem gilda á hinum opinbera vinnumarkaði. Lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þrengir enn frekar að réttarstöðu opinberra starfsmanna sem þegar er mun þrengri en reglur sem gilda á almennum vinnumarkaði segja til um, sbr. hjálagt yfirlit (fskj. 2) með samanburði á ákvæðum laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. lög nr. 75/1996, annars vegar og laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, hins vegar (að teknu tilliti til breytingar samkvæmt hérumræddu frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingu á síðarnefndum lögum).``

Hér er vísað í skjal sem ég vitnaði til fyrr við umræðuna þar sem borin er saman munurinn á réttarstöðu þeirra sem heyra undir lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna annars vegar og hinna sem heyra undir lög um vinnudeilur. Á meðal atriða sem eru þrengri hjá opinberum starfsmönnum er að sjálfsögðu það sem hér hefur margoft komið fram að þeim eru settar strangari skorður. Stórir hópar hafa hreinlega ekki verkfallsrétt. Ég mismælti mig í umræðunni fyrr í dag og sagði að þeir hefðu ekki samningsrétt. Þeir hafa samningsrétt, t.d. lögreglumenn og tollverðir, en ekki verkfallsrétt. Og stórir hópar innan heilbrigðiskerfisins svo að dæmi sé tekið hafa mjög takmarkaðan verkfallsrétt. Þetta er bara staðreynd.

Annað sem er ekki sambærilegt eru t.d. heimildir til frestunar verkfalls. Þetta er eitt af því sem þessi samtök fóru á leit við hæstv. fjmrh. að tekið yrði til endurskoðunar til að forða því að mál hlypu í mjög illleysanlegan hnút sem oft gerðist ef ekki tækist að fresta verkfalli á ögurstundu, verkfallið skylli á og þá væri oft erfiðara um vik að ná sátt en ef menn næðu því að fá svigrúm til nokkurra daga til frekari viðræðna. Þetta er hlutur sem ég hefði haldið að hæstv. fjmrh. tæki vel í og vildi setjast yfir í stað þess að fara fram eins og hann gerir, að ráðast einhliða í breytingar á lögunum gegn vilja og mótmælum allra þeirra samtaka sem hlut eiga að máli.

Í IV. kafla álitsgerðar BHM segir enn fremur um lögþvingun í stað samkomulags, með leyfi forseta:

,,Í upphafsorðum almennra athugasemda í greinargerð með frumvarpinu er vikið að svonefndri friðarskyldu sem ríkir meðan kjarasamningar eru í gildi. Með því að leggja fram frumvarpið og hunsa tillögur heildarsamtaka opinberra starfsmanna hefur ríkisstjórnin hins vegar rofið friðarskyldu enda eru umrædd lög ekki aðeins sett að höfðu samráði við heildarsamtök opinberra starfsmanna eins og svo mörg önnur lög; lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, voru beinlínis sett á grundvelli samkomulags sem undirritað var af fulltrúum BHM, BSRB og Bandalags kennarafélaga hinn 24. nóvember 1986.``

Hér er vísað, herra forseti, í samkomulagið sem birtist með athugasemdum stjfrv. á sínum tíma. Síðan heldur BHM áfram í sinni álitsgerð, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpinu ætlar annar aðilinn sem starfar eftir lögunum, sem fer jafnframt með löggjafarvaldið, að breyta þeim einhliða og án samráðs, hvað þá með samkomulagi við viðsemjendur sína eins og þegar lögin voru sett. Tillögum heildarsamtaka opinberra starfsmanna sem gerðar voru á fundi sem samtökin óskuðu eftir og í bréfi hefur enn ekki verið svarað efnislega.``

Þetta kemur fram í álitsgerð sem send er þinginu hinn 25. janúar árið 2000 og er hér vísað í atburði sem áttu sér stað um haustið á fyrra ári og er ekki búið að svara bréflega þegar komið er fram í janúarlok. Og eftir því sem ég best veit þá hefur því ekki verið svarað enn.

Í álitsgerð BHM er fjallað um það sem kallað er meðalhóf en hér segir, með leyfi forseta:

,,Eins og fram kemur í kafla III og hjálögðu yfirliti (fskj. 2) með samanburði á tveimur meginbálkum vinnulöggjafarinnar eru opinberum vinnuveitendum þegar tryggð nægileg úrræði til þess að bregðast við svonefndum fjöldauppsögnum opinberra starfsmanna.

Í fyrsta lagi er forstöðumönnum ríkisstofnana nú þegar tryggt mjög óvenjulegt og íþyngjandi lagaúrræði í 2. mgr. 46. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til þess að lengja uppsagnarfrest starfsmanna í tilvikum sem þessum, slíkt úrræði hafa atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði ekki. Ekkert matskennt skilyrði er þar sett, öfugt við frumvarpsgreinina, í þá veru að um sé að ræða

a) samantekin ráð eða

b) tiltekið markmið.

Aðeins er gerð hlutlæg krafa um að

,,svo margir leita lausnar samtímis`` --- og hér er vitnað í lögin --- ,,eða um líkt leyti í sömu starfsgrein innan stofnunar að til auðnar um starfrækslu þar mundi horfa ef beiðni hvers um sig væri veitt.``

Í gildandi lögum er því þegar að finna víðtækara úrræði til handa forstöðumönnum, að vísu án refsiviðurlaga, sbr. um það nánar í kafla VI. Ef ríkisstjórninni er alvara með þeim rökstuðningi að samræma vinnulöggjöf væri því eðlilegt, verði frumvarp þetta að lögum, að afnema þá um leið lagaheimild forstöðumanna til þess að lengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði.

Í öðru lagi hafa vinnuveitendur í hendi sér að fyrirbyggja að þau tilvik sem hindra á með lagafrumvarpinu komi nokkurn tíma (framvegis) upp. Í almennum athugasemdum í greinargerð segir að í kjölfar uppsagna starfsmanna í sömu starfsstétt hjá hinu opinbera vegna óánægju með launakjör hafi

,,ávallt fylgt viðræður milli starfsmanna og hlutaðeigandi aðila hjá hinu opinbera. Viðræðunum hefur ætíð lyktað með einhvers konar samkomulagi eða samningi um launahækkanir til starfsmanna sem þá hafa dregið uppsagnir sínar til baka eða sótt aftur um fyrri störf.````

Hér vitnar BHM í athugasemdir sem fylgja frv. hæstv. fjmrh., með leyfi forseta:

,,Af þessu er ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér ekki einungis að setja bönd á atvinnu- og samningsfrelsi opinberra starfsmanna heldur einnig samningsfrelsi ráðherra og forstöðumanna opinberra stofnana. Réttara væri að hver vinnuveitandi setti innri reglur um viðbrögð forstöðumanna stofnana ef slík tilvik koma upp, í stað þess er sett bannregla til þess að leysa innri stjórnunarvanda.

Í ljósi þessa skerðir frumvarpið annars vegar, verði það óbreytt að lögum, stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi, sbr. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.

Þar sem jafnframt er um refsilöggjöf að ræða, sbr. 35. gr. laga nr. 94/1986 og tilvitnuð ákvæði laga nr. 33/1915, um verkfall opinberra starfsmanna, er hins vegar líklegt að það verði talið stangast á við skráðar og óskráðar meðalhófsreglur stjórnlaga að leggja refsingu við uppsögnum opinberra starfsmanna þegar næg önnur úrræði og vægari eru tiltæk, þar er bæði um að ræða lagaleg úrræði og raunveruleg viðbrögð. Minnt skal á að meðalhófsreglan er innbyggð í mörg mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, m.a. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi þar sem gerð er krafa um að ,,almannahagsmunir`` krefjist þess ef því frelsi á að setja skorður.``

Hér fylgir síðan tillaga BHM, með leyfi forseta:

,,Til vara leggur BHM til að forseti vísi lagafrumvarpi þessu frá skv. 42. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Að öðrum kosti er lagt til að afnumin verði heimild forstöðumanna til þess að lengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði skv. 2. mgr. 46. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.``

Hér er BHM sem sagt að setja fram tillögur, reyna að tefla fram hugmyndum og tillögum inn í viðræður eða vill efna til viðræðna um leiðir til að ná samkomulagi um breytingar á þessum lagabálki. En hæstv. fjmrh. hefur ekki viljað ljá slíku máls. Hann hefur að vísu lýst því yfir --- hann gerði það við 2. umr. málsins og 1. umr. líka --- að hann væri reiðubúinn að gangast fyrir endurskoðun á lögunum og það hefur hann ítrekað lagt áherslu á í samræðum við þau samtök sem hér hefur verið vísað til. Því skal vissulega haldið til haga. En krafa þessara samtaka er hins vegar sú að allt verði þetta gert í einum pakka og þess vegna hefur þess verið farið á leit við hæstv. fjmrh. --- það hefur verið gert af hálfu samtakanna, það hefur verið gert úr þessum ræðustóli --- að hann dragi þetta frv. til baka og freisti þess að ná samkomulagi við samtökin um þær breytingar sem hann telur að þurfi að gera á lögunum og hlusta á óskir sem koma frá samtökunum einnig. Ég er alveg sannfærður um að þetta væri heillavænlegasti framgangsmátinn, farvegurinn, sem þetta frv. gæti farið í og ég vildi mælast til þess að hæstv. fjmrh. skoðaði þennan möguleika jafnvel þó við séum komin þetta langt í umræðunni um frv. Ég teldi það hið besta mál ef hæstv. fjmrh. tæki þá afstöðu á þessu stigi málsins jafnvel þótt seint sé og við séum komin í 3. umr. málsins.

Í álitsgerð BHM er einnig vikið að því sem þau samtök telja vera lagatæknilegar þversagnir og er þar fjallað um hugsanleg réttaráhrif þess ákvæðis sem hér er verið að festa í lög og farið um það nokkrum orðum. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Í dómi Félagsdóms hinn 21. október 1999 í máli nr. 7/1999 í máli launanefndar sveitarfélaga f.h. Árborgar gegn Félagi íslenskra leikskólakennara, sem er yfirlýst tilefni frumvarpsins, var félagið sýknað af kröfu sveitarfélagsins um viðurkenningu á því að uppsagnir 12 leikskólakennara hefðu verið brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings og því ólögmæt vinnustöðvun.

Vandséð er hvernig frumvarpið gæti haft áhrif á sambærilegt mál og hver réttaráhrif ákvæðisins eiga að vera verði það að lögum. Í frumvarpinu er ekki vikið að því grundvallaratriði, verði frumvarpið óbreytt að lögum er sú leið ein lagalega tæk að lögreglustjóri í því umdæmi þar sem opinberir starfsmenn segja upp störfum í hóp hefji opinbera rannsókn á málinu og gefi út ákæru, sbr. 28. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, með síðari breytingum, enda eru lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að því leyti refsilög, sbr. 35. gr. laganna þar sem segir:

,,Brot á lögum þessum varða sektum.``

[23:45]

Vakin skal athygli á því að opinber mál (refsimál) heyra ekki undir Félagsdóm, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.``

Og tillaga BHM í þessu efni er á þennan veg:

,,BHM leggur aðallega til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Hér er vísað í ýmis réttarfarsleg ákvæði en áður gat ég þess að opinberir starfsmenn búa við strangari skilyrði en starfsmenn á almennum markaði, í sumum tilvikum taka til þeirra lög þar sem kveðið er á um sektir og jafnvel fangelsi fyrir brot á starfsskyldum. Er þetta raunhæft? Er reynt að framfylgja þessum lögum? Já, það hefur komið fyrir. Sá sem hér stendur hefur þurft að taka þátt í slíkum málaferlum fyrir tveimur dómstigum. Við erum að tala um raunveruleika og ef hæstv. fjmrh. er alvara með að segjast vilja að samræmi ríki á vinnumarkaðnum öllum þá skulu menn setjast yfir það og skoða hvernig það verði gert. Ég fullyrði að það er vissulega kappsmál opinberra starfsmanna og samtaka þeirra að svo verði gert. Ég vísa því á bug yfirlýsingum um að þetta sé allt gert í samræmingarátt og ekkert annað vaki fyrir mönnum en að hafa fullt samræmi í lögum og reglum sem gilda um þessa tvo hluta vinnumarkaðarins. Það er ekki mikil alvara sem býr þar að baki.

Í álitsgerð BHM er fjallað um ójafnræði miðað við fyrirmyndina sem þeir kalla svo, en hér segir, með leyfi forseta:

,,Þvert á yfirlýstan tilgang ríkisstjórnarinnar með frv. er að finna í frumvarpsgreininni innra ósamræmi og þar með ójafnræði miðað við þá fyrirmynd sem skírskotað er til í greinargerðinni. Í 19. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. 4. gr. laga nr. 75/1996, er ekki aðeins lagt bann við verkföllum og verkbönnum heldur einnig sambærilegum aðgerðum ,,af hálfu atvinnurekenda eða launamanna``. Í frumvarpsgreininni er aðeins rætt um aðrar sambærilegar aðgerðir ,,af hálfu starfsmanna``. Í greinargerðinni er því haldið fram að um sé að ræða efnislega samhljóða ákvæði en aðeins orðalagið sé ,,ekki alveg eins``, því fer víðs fjarri.

Þótt rétt sé að fjmrh., ríkisstofnanir og aðrar opinberar stofnanir sem heyra undir lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, geti ekki beitt löglegu verkbanni eins og atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði hafa fræðilegan rétt til eru dæmi um að opinberir vinnuveitendur beiti hópuppsögnum og segi upp eða hóti að segja upp ráðningarkjörum hóps starfsmanna. Slík aðgerð uppfyllir það grundvallarskilyrði frumvarpsgreinarinnar að uppsögnin sé gerð ,,í því skyni að ná tilteknu [...] markmiði.`` Þar með hefði slík aðgerð fullnægt því skilyrði frumvarpsgreinarinnar að vera sambærileg og þar með ólögleg ef ríkisstjórnin hefði ekki ákveðið að leggja til að vinnuveitendur væru undanskildir.

Þörfin á jafnræði opinberra starfsmanna annars vegar og ríkisstofnana og annarra opinberra vinnuveitenda hins vegar er enn brýnni en ella í ljósi þeirrar afstöðu fulltrúa fjmrh. að undanskilja eigi hið opinbera frá lögum um hópuppsagnir, sem stendur til að breyta að frumkvæði félmrh., en lögin veita starfsmönnum vernd gegn hópuppsögnum af hálfu vinnuveitenda.`` Þetta er frv. sem við höfum verið með hér til afgreiðslu hjá þinginu.

Tillaga BHM er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Verði ekki fallist á aðal- eða varatillögu BHM leggur BHM til þrautavara til að ákvæði frumvarpsins verði samræmt þannig að efnisregla þess taki jafnt til beggja aðila á vinnumarkaði og að nauðsynleg úrræði eða viðurlög samkvæmt lögunum taki mið af því.``

Hvað er það sem hér er verið að vísa til? Hér er vísað til aðgerða af hálfu opinberra atvinnurekenda sem breyta samningum við starfsmenn og hópa starfsmanna. Hvað hangir á þeirri spýtu? Jú, það hefur t.d. tíðkast á sjúkrahúsunum og víðar að kjörum er einhliða sagt upp. Fastri greiðslu sem hefur verið greidd fyrir jafnaðaryfirvinnu hefur verið sagt upp hjá stórum hópum. Það er reyndar misjafnt hvernig samtök hafa túlkað þá aðgerð. BHM hefur litið á þetta sem uppsögn gagnvart einstaklingnum. BSRB hefur tekið annan pól í hæðina þar sem ekki er um kjarasamningsbundin ákvæði að ræða og litið svo á að eðlilegt væri að um þetta gilti þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Þau samtök hafa ekki litið á þetta sem uppsögn starfsmannsins eða að hann sé laus allra mála, einfaldlega vegna þess að þetta eru ekki kjarasamningsbundin ákvæði. Þar er línan dregin á milli en þarna eru ólíkar áherslur milli samtaka. Hvað um það, eftir stendur að um er að ræða einhliða ákvörðun af hálfu atvinnurekenda sem hefur áhrif á kjör stórra starfshópa. Þá má spyrja: Hver er réttur launamannsins gagnvart aðgerðum atvinnurekandans að þessu leyti? Ég leyfði mér að benda á að launamenn og hópar þeirra fylgdust með því hvað væri að gerast í þeirra kjaraumhverfi og hvort staðið hefði verið við samninga eða fyrirheit gagnvart þeim og hvort jafnræði ríkti með aðilum á vinnustöðum.

Ég rifjaði það upp að ekki alls fyrir löngu lagði ég fram nokkrar spurningar til hæstv. fjmrh. um launaþróun á sjúkrahúsum landsins, sjúkrahúsum sem heyra undir ráðuneyti hans. Þá var engin svör að fá heldur svarað út í hött. Í sumum tilvikum var engu svarað og í öðrum tilvikum var svarað algjörlega út í hött. Þetta er nokkuð sem þingið á að sjálfsögðu ekki að sætta sig við enda hef ég farið fram á það við yfirstjórn þingsins að hún taki það mál til skoðunar auk þess sem ég benti á það héðan úr ræðustól að eðlilegt væri að fjmrh. endurskoðaði svör sín og afstöðu til þess að veita upplýsingar um þessi efni. Því máli er að sjálfsögðu ekki lokið af minni hálfu en ég vek máls á þessu til að vekja athygli á því að ábyrgðin er gagnkvæm, hún er ekki aðeins launamannsins heldur líka atvinnurekendamegin. Þarna þarf að vera trúnaður, gott samstarf og traust á milli. Ég tel mjög mikilvægt að svo sé.

Í álitsgerð BHM sem ég hef nú að mestu leyti rakið fjallar BHM um hæfi fjmrh. til að framkvæma lögin. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Hvað sem líður annmörkum á valdbærni ráðherra að gildandi lögum til þess að fara með framkvæmd laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og eiga frumkvæði að því að leggja til breytingar á þeim, eða hafna lagabreytingum, skal eftirfarandi tekið fram um hæfi fjmrh. til þess.

BHM telur að það samrýmist ekki grunnreglum stjórnskipunar landsins að lög mæli svo fyrir, eða að þau séu skýrð á þann hátt, að sá ráðherra, stjórnmálamaður, sem lögum samkvæmt fer með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð kjarasamninga og framseljanlegt og afturkallanlegt fyrirsvar ríkissjóðs við framkvæmd kjarasamninga skv. 3. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sé um leið sá eini sem getur:

a. átt frumkvæði að því að leggja til breytingar á þeim lögum, vinnuveitendum í hag --- og

b. hafnað öðrum breytingum.

Um er að ræða ójafnræði milli vinnuveitanda og starfsmanna og samtaka þeirra sem ekki stenst 2. gr., 1. mgr. 74. gr. og 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og grunnreglu 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.``

Þetta segir m.a. í álitsgerð BHM. Þessi þáttur málsins er síðan rakinn nánar. Ég ætla ekki að tíunda það hér en að lokum er tillaga BHM hvað þetta snertir á þess lund, með leyfi forseta:

,,Hvað sem öðru líður leggur BHM því til að tekin verði af tvímæli um að félmrh. fari, og eigi að fara, með framkvæmd laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, meðan þau eru enn við lýði og frumkvæði að því er varðar breytingar á þeim. Að öðrum kosti lítur BHM svo á að forseta þingsins beri að vísa lagafrumvarpi þessu frá skv. 42. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.``

Þá segir um efnisatriði í IX. kafla í umsögn BHM, með leyfi forseta:

,,Að öllu þessu frágengnu lýsir BHM sig reiðubúið til þess að senda fulltrúa sína til viðræðna við fastanefndir Alþingis um málið, svo og við hlutaðeigandi ráðherra um öll atriði gildandi laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna í tengslum við heildarendurskoðun þeirra.

Frv. er ætlað að koma í veg fyrir að opinberir starfsmenn segi upp störfum sínum til þess að ná fram sameiginlegu markmiði. Fullur vilji hefur verið til þess að ræða um slíkar breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna samhliða öðrum breytingum á lögunum.``

Tillaga BHM er: ,,Í ljósi framangreinds ítrekar BHM þá aðaltillögu sína að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Í lokaorðum segja samtökin síðan, með leyfi forseta:

,,Sú breyting sem felst í frumvarpinu er aðeins miðuð við hagsmuni annars aðilans sem auk þess fer með löggjafarvaldið. BHM telur að með slíkri lögþvingun í stað samkomulags, sbr. kafla IV, felist misbeiting ríkisvalds sem samrýmist ekki grunnreglum stjórnskipunarinnar eins og nánar er vikið að í kafla VIII í umsögninni hér að ofan. Þegar við bætast stjórnskipulegir annmarkar, bæði á framlagningu frumvarpsins, sbr. kafla I,`` --- ég vísaði til hans áðan þó ég færi ekki rækilega í hann --- ,,og efni þess, sbr. kafla V, lagatæknilegar þversagnir, sbr. kafla VI, innra ójafnræði í frumvarpinu, sbr. kafla VII, og dómur Félagsdóms um að tiltekin ákvæði gildandi laga stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi, sbr. kafla II, verður að telja að svo breyttum lögum verði vart beitt gagnvart þeim sem lögunum er ætlað að taka til. Mikilvægt er að sátt ríki milli aðila um samskiptareglur á vinnumarkaði þannig að lögunum verði fylgt af einlægni.

Eina úrræðið er því að allir sem hlut eiga að máli, sbr. kafla IX, ræði heildarendurskoðun, ef ekki afnám, laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eins og lagt er til í kafla III, í því skyni að koma til móts við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um samræmingu vinnulöggjafar.``

[24:00]

Undir þessa álitsgerð rita formaður BHM, Björk Vilhelmsdóttir, og Gísli Tryggvason sem er framkvæmdastjóri BHM. Hér er í ítarlegu máli farið yfir ýmsa þætti þessa máls. Með álitsgerðinni fylgja dómar og önnur gögn, þar á meðal samanburður sem ég hef áður vísað í sem sýnir muninn á milli laga sem gilda á almennum vinnumarkaði og kjarasamninga opinberra starfsmanna. Hér segir t.d. um þátttökuskilyrði við verkfallsboðun á almennum vinnumarkaði að samkvæmt lögum nr. 80/1938 þarf fimmtungur að taka þátt í atkvæðagreiðslu en helmingur þeirra sem starfa undir lögum um opinbera starfsmenn, lögunum frá 1986. Svo er spurt: Af hverju er reiknaður meiri hluti? Í lögunum frá 1938 er hann reiknaður af greiddum atkvæðum en í lögunum frá 1936 af öllum atkvæðum. Heimildir til frestunar verkfalla eru fyrir hendi samkvæmt lögunum frá 1938. Umdeilt ákvæði gildir samkvæmt lögunum frá 1986. Tilkynningarfrestur er sjö sólarhringar samkvæmt lögunum frá 1938 en 15 sólarhringar samkvæmt lögunum frá 1986 og þannig mætti áfram telja. Ég ætla ekki að fara frekar í þann samanburð.

Í gögnum sem nefndinni hafa borist, þá vísa ég til efh.- og viðskn. Alþingis sem hafði með þessi mál að gera, kennir ýmissa grasa. Þar eru álitsgerðir ekki aðeins frá þeim samtökum sem ég hef þegar vikið að í máli mínu heldur einnig frá einstökum aðildarfélögum þessara bandalaga auk þess sem að sjálfsögðu er að finna álitsgerð frá Kennarasambandinu, en nýlega voru sameinað í eitt bandalag HÍK, Hið íslenska kennarafélag sem áður var innan BHM og Kennarasamband Íslands. En öll þessi samtök BHM, BSRB og Kennarasambandið hafa unnið mjög vel að þessum málum og áttu sameiginlega í viðræðum við fjmrn. og reyndu að fá því framgengt að fjmrh. kæmi til viðræðna um þessi efni.

Hér á ég einnig að hafa í fórum mínum álitsgerð Kennarasambandsins, auk álitsgerða frá einstökum félögum. Hér segir t.d. í einni sem efh.- og viðskn. Alþingis barst frá stjórn SMNÍ sem er Stéttarfélag matvæla- og næringarfræðinga Íslands:

,,Stjórn SMNÍ sér ekki að sú breyting sem lögð er til með frumvarpi þessu, 225. máli, breyti á nokkurn hátt rétti opinbers stafsmans að segja starfi sínu lausu með lögbundnum fyrirvara. Það er furðulegt ef nefndarmenn halda að þessi breyting komi í veg fyrir það sem þeir vilja kalla fjöldauppsagnir. Það skiptir auðvitað engu máli hvort ákveðinn fjöldi starfsfólks í sömu starfsstétt ákveður að segja upp störfum á sama tíma, jafnvel þótt þeir ákveði það sem lið í kjarabaráttu, vegna þess að það er grundvallarmunur á verkfalli og vinnustöðvun annars vegar og uppsögn með löglegum fyrirvara hins vegar. Eftir að uppsögnin hefur tekið gildi hefur atvinnurekandinn engum skyldum að gegna lengur gagnvart starfsmanninum og öfugt, þ.e. hann hefur tekið þá áhættu að fá ekki starf sitt aftur, jafnvel þótt tilgangur uppsagnarinnar hafi verið að knýja fram bætt kjör.``

Þetta er alveg rétt. Einstaklingurinn er að sjálfsögðu að taka áhættu með því að segja starfi sínu lausu.``

Stjórn SMNÍ heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Stjórn SMNÍ lýsir furðu sinni á því að nefndin ætli sér að knýja þetta frumvarp í gegnum þingið og gera því opinbera starfsmenn n.k. þræla á ákveðnum vinnustað, jafnvel á lúsarlaunum.``

Hér er vísað í það ákvæði laganna að einstaklingur sem vill hætta störfum, jafnvel í hópi með öðrum, geti það ekki lögum samkvæmt. Síðan segir:

,,Ríki og sveitarfélögum væri nær að gera almennilega kjarasamninga við sína starfsmenn eða standa við gerða samninga þar sem í mörgum tilfellum hefur starfsfólk sagt upp til að knýja fram rétta röðun í launaflokka samkvæmt aðlögunarsamningi, sbr. hjúkrunarfræðinga.``

SMNÍ áréttar að lokum það álit sitt að orðalagið: ,,... aðgerðir að hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla`` í breytingartillögunni þýði ekki: fjöldauppsagnir bannaðar.

Að lokum segir í umsögn félagsins, með leyfi forseta:

,,Uppsögn er uppsögn svo fremi sem maður segir upp með fúsum og frjálsum vilja. Sá réttur verður ekki tekinn af opinberum starfsmönnum fremur en öðrum.``

Undir bréfið skrifar Sigurður Einarsson, formaður SMNÍ.

Hér er einnig greinargerð frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem einnig gagnrýnir þetta frv. Ég ætla ekki að lesa þá álitsgerð upp, hún er alllöng, en í niðurlagi álitsgerðarinnar segir:

,,Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna telur einhliða breytingu á lögunum að svo stöddu brot á samkomulagi sem gert var árið 1986 með setningu laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og þar með rof á friðarskyldu fjármálaráðherra. LSS leggst því gegn því að frumvarpið verði að lögum og leggur jafnframt til að teknar verði upp viðræður milli aðila um úrbætur á löggjöfinni.

Að öðru leyti er tekið undir umsögn BSRB um frumvarpið.``

Ljósmæðrafélag Íslands tekur undir og styður skoðanir BHM varðandi frv. þetta. Þar er sagt að eina úrræðið sé heildarendurskoðun laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ástþóra Kristinsdóttir ritar undir þá álitsgerð.

Félag ísl. náttúrufræðinga gerir umsögn Bandalags háskólamanna við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, að sinni umsögn. Félag ísl. náttúrufræðinga ítrekar þá afstöðu að endurskoða þurfi lögin í heild í samvinnu við stéttarfélög opinberra starfsmanna.

Starfsmannafélag Siglufjarðarkaupstaðar vísar í umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og tekur undir þá umsögn en í álitsgerð félagsins segir:

,,Þessi leið að annar aðilinn reyni að breyta leikreglum einhliða með aðstoð Alþingis er með öllu óásættanleg.``

Síðan er umsögn frá Stéttarfélagi lögfræðinga. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Vísað er til erindis efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis dags. 28. desember 1999 varðandi mál nr. 225, fjöldauppsagnir. Stéttarfélag lögfræðinga hefur fundað um erindið og sat jafnframt formaður félagsins miðstjórnarfund BHM þar sem málið var reifað. Stéttarfélag lögfræðinga er sammála niðurstöðu stjórnar BHM hvað varðar fram komið lagafrumvarp og vísar í álit þess að meginstefnu til.``

Stéttarfélag ísl. félagsráðgjafa vísar í álitsgerð frá BHM. ,,Félagið tekur undir allt það sem þar kemur fram. Við sjáum enga ástæðu til að þrengja núverandi réttindi en teljum þörf á heildarendurskoðun laganna.``

Ég les úr þessum álitsgerðum til að sýna fram á að þarna er alls staðar sami tónninn uppi. Framgangsmáta hæstv. ráðherra í þessu máli er hafnað en áhersla lögð á að lögin verði tekin öll til endurskoðunar.

,,Stéttarfélag sálfræðinga á Íslandi er alfarið mótfallið því að réttur opinberra starfsmanna verði skertur enn frekar með einhliða lagasetningu ríkisvaldsins, eins og virðist fyrirhugað með ofangreindu frumvarpi og að því er virðist einungis vegna þess að fulltrúar ríkisvaldsins eiga erfitt með að sætta sig við niðurstöður Félagsdóms.``

Álitsgerð Stéttarfélags sálfræðinga er lengri. Þetta eru niðurlagsorðin í þeirri álitsgerð.

Landssamband lífeyrisþega ríkis og bæjar vísar til umsagnar BSRB varðandi þetta mál og segir í álitsgerðinni vafasamt að samþykkt frv. hafi tilgang. Sambandið telur eðlilegra að málið verði leyst með samkomulagi milli samningsaðila. Þetta held ég að séu orð að sönnu, að til að ná markmiði laganna um að koma í veg fyrir hópuppsagnir, til að ná fram breytingum á kjörum, þá er þetta ekki vænlegasta leiðin.

Ég hef marglýst því yfir og er tilbúinn að gera það aftur að mér finnst hópuppsagnir mjög vafasamar sem tæki í kjarabaráttu. Mér finnst þær vafasamar að því leyti að þær koma og geta komið stéttarfélögunum mjög í koll. Þar er ekki heppileg leið og ég mæli henni alls ekki bót. Ég er hins vegar að gagnrýna þann framgangsmáta sem hér er og legg áherslu á mikilvægi þess að sátt ríki um þær reglur sem við lýði eru. Við skulum ekki gleyma því að þegar fólk grípur til ráðstafana af þessu tagi, sem hefur átt sér stað, það hefur verið reynt að beita hópuppsögnum í kjarabaráttu, þá er hollt fyrir alla hlutaðeigandi að skoða sína stöðu líka. Það er hollt.

Ein ástæðan fyrir því að þetta hefur gerst er að mínum dómi sú að stórir hópar telja sig beitta misrétti í launakerfinu. Það hefur leitt til reiði og ólgu sem endað hefur með þessum hætti. Hvað er þá til ráða? Er það þá ekki að reyna að koma á einhvers konar réttlæti, koma á ástandi sem fólk er sæmilega sátt við og búa síðan til reglur sem menn telja það sanngjarnar að þeir vilji virða þær og þar hjálpist allir að. Ég legg áherslu á að ég hef margoft lýst því yfir að ég tel það varasama leið í kjarabaráttu að beita hópuppsögnum. Mér finnst skipta mjög miklu máli að friðarskyldan sé virt. Hins vegar legg ég áherslu á að fólk eigi kröfu á að búa við réttlæti á vinnustað og réttlæti í launakjörum með hliðsjón af launaþróun. Ég tek því undir sjónarmið Landssambands lífeyrisþega ríkis og bæja. Þar hafa menn efasemdir um að þetta frv. nái því markmiði að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir sem tæki í kjarabaráttu. Ég tek undir þetta sjónarmið. Fólk verður að finna að það búi við réttlæti, verður að fá upplýsingar sem beðið er um, að ekki sé verið að fela fyrir þeim hluti eins og allt of margir hafa á tilfinningunni, réttilega finnst mér. Launakjörin eru ekki gagnsæ og ekki uppi á borði. Þess gætir í ríkari mæli nú en áður og fer vaxandi að fólk hafi ekki aðgang að upplýsingum um launakjör og launaþróun á opinberum vinnustöðum.

[24:15]

Þetta er alveg gagnstætt því sem okkur var lofað hér um árið þegar ný lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru samþykkt og önnur sem kveða á um margvíslega kerfisbreytingu innan stjórnsýslunnar. Þá var viðkvæðið jafnan að þetta yrði allt til þess að gera upplýsingar og kjör gagnsærri, allt yrði upp á borðinu. En þetta hefur farið á annan veg. Þróunin hefur orðið mjög í þeim anda sem ég taldi að hún yrði og varaði oftsinnis við héðan úr ræðustól, þ.e. að verið væri að færa þessi kjör niður í skúffurnar og á bak við tjöldin. Þetta hefur gerst. Jafnvel upplýsingalögin halda ekki. Í upplýsingalögunum er kveðið á um hvernig skuli fara með launakjör hjá opinberum starfsmönnum. Það á ekki að fela þau samkvæmt lögum. Samkvæmt greinargerð sem fylgdi með upplýsingalögunum og eins og fram kom í máli formanns allshn., að ég held, sem mælti fyrir frv. á sínum tíma, skyldi tryggt, og það segir í greinargerðinni beinlínis, að föst laun opinberra starfsmanna, öll föst launakjör, skyldu skoðast sem opinberar upplýsingar og þá er fjallað um allar fastar greiðslur, bílapeninga, fastar yfirvinnugreiðslur. Allar fastar greiðslur eiga að vera opinberar upplýsingar. Þetta er ekki lengur svo. Það er verið að loka launakerfunum. Þetta er því miður að gerast hjá ríkinu. Þetta hefur verið að gerast hjá Reykjavíkurborg. En í báðum þessum herbúðum var talað um nýtt launakerfi sem eitthvað sérstaklega gagnsætt og opið og að nú yrði öllu ranglæti útrýmt. Það er síður en svo. Þetta hefur farið á allt annan veg.

Lögreglufélag Reykjavíkur vísar í sinni umsögn til álitsgerðar BSRB. En Lögreglufélagið mótmælir mjög harðlega einhliða ákvörðun stjórnvalda um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Þetta er í öðrum álitsgerðum einnig. Hér er t.d. álitsgerð frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem er fjölmennt stéttarfélag. Þar segir í niðurlagi, með leyfi forseta:

,,Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga leggst gegn því að frumvarpið verði að lögum eins og það er lagt fram. Stjórnin er samþykk ályktun miðstjórnarfundar Bandalags háskólamanna frá því í desember sl. þar sem fram kemur vilji til að taka þátt í viðræðum um endurskoðun laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Jafnframt lýsir stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sig sammála umsögn BHM um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.``

Undir þessa álitsgerð ritar Herdís Sveinsdóttir, formaður félagsins.

Til fróðleiks ætla ég að lesa litla glefsu úr þessari álitsgerð hjúkrunarfræðinganna vegna þess að það er eitt þeirra félaga sem var sakað um að beita hópuppsögnum í kjarabaráttunni. Hið sanna í því er að félagið kom ekki að því máli heldur var þetta ákvörðun sem, eins og ég tel mig hafa vissu fyrir, var tekin innan spítalanna og breiddist síðan út til hópsins. (Gripið fram í: Nýtt stéttarfélag?) Nei, ekki var stofnað nýtt stéttarfélag. Það er enn við lýði og nýtur stuðnings sinna félagsmanna að því er ég best veit. En hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga mælir ekki með fjöldauppsögnum sem tæki í launabaráttu. Þar er um örþrifaráð einstaklinga að ræða og ljóst að stéttarfélög geta ekki stutt við þá félagsmenn sína sem grípa til þess. Þess ber þó að gæta að gildandi lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna byggja á undirrituðu samkomulagi þeirra aðila sem eftir lögunum starfa. Einhliða breyting á lögunum sem er aðeins miðuð við hagsmuni annars aðilans, sem auk þess fer með löggjafarvaldið, er tæpast í anda friðarskyldu.

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga telur mikilvægt að sátt ríki milli aðila um þessar samskiptareglur þannig að lögunum verði fylgt af einlægni.``

Þetta kemur fram m.a. í álitsgerð frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Umsögn Starfsmannafélags Seltjarnarness er gagnrýnin á frv. Þar er vakin athygli á því að það brjóti gegn samkomulagi milli BSRB, BHM og Bandalags kennarafélaga annars vegar og fjmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga hins vegar, frá 24. nóv. 1986. Í henni segir, með leyfi forseta:

,,Með þessu er Alþingi að rjúfa friðarskyldu ríkisins meðan kjarasamningur er í gildi og kasta stríðöxinni í andlit starfsmanna sinna og sveitarfélaga landsins.``

Þannig er að þær reglur sem bundnar eru í lögum um ríkisstarfsmenn hafa iðulega og oftast gilt um starfsmenn sveitarfélaga einnig.

Umsögn Starfsmannafélags ríkisstofnana vísar einnig í álitsgerð BSRB. En þess skal getið að Starfsmannafélag ríkisstofnana er mjög fjölmennt félag, ætli í því séu ekki um 5.000 félagsmenn og er það langstærsta félag sem er viðsemjandi hæstv. fjmrh.

Hér er álitsgerð frá Landssambandi lögreglumanna. Áður vísaði ég í álit Lögreglufélags Reykjavíkur. En Landssamband lögreglumanna tekur undir umsögn BSRB, með leyfi forseta, svo vitnað sé orðrétt í álitsgerðina:

,,Framkvæmdastjórn Landssambands lögreglumanna leggst eindregið gegn því að frumvarp þetta verði að lögum.``

Félag íslenskra leikskólakennara telur að hér sé á ferðinni brot á samkomulagi sem gert hafi verið. Enn og aftur er vísað í samkomulagið frá 1986, undirritað samkomulag af þáv. hæstv. fjmrh. Þorsteini Pálssyni, forsvarsmönnum samninganefndar ríkisins, Indriða Þorlákssyni og Þorsteini Geirssyni, fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga og síðan fyrir hönd launafólksins, Kristjáni Thorlacius, formanni BSRB, Birgi Birni Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra BHM, og Elínu Ólafsdóttur fyrir hönd kennarasambandanna. Í þetta samkomulag vísar Félag íslenskra leikskólakennara í sinni umsögn. Það er athyglisvert að hugleiða þá umsögn vegna þess að það félag og málssóknin gegn því var kveikjan að þessu lagafrv. Sveitarfélagið Árborg hóf lögsókn á hendur félaginu og vildi krefjast fébóta af félaginu sem það taldi vera skaðabótaskylt vegna þess að nokkrir starfsmenn, 12 leikskólakennarar í sveitarfélaginu, sögðu upp starfi sínu vegna óánægju með launakjör. Þá var samþykkt af hálfu sveitarfélagsins að höfða mál á hendur starfsmönnunum og félagi þeirra. Kveðinn var upp sýknudómur. En það var ekki nóg. Þá beitti sveitarfélagið sér fyrir því á vettvangi Sambands ísl. sveitarfélaga að nú yrði málið tekið og því fylgt eftir á þingi og lagt var til við hæstv. fjmrh. að hann fylgdi málinu eftir. Að sjálfsögðu fengu menn aðstoð úr þeirri átt sem aðstoðar er helst að vænta, þ.e. frá Samtökum atvinnulífsins. Hér segir í niðurlagi álitsgerðar Samtaka atvinnulífsins, með leyfi forseta:

,,Samtök atvinnulífsins fagna því þeirri samræmingu reglna sem frumvarpið miðar að og mæla eindregið með samþykkt þess.``

Hér er ég búinn að vekja athygli á umsögnum frá fjölda stéttarfélaga og frá heildarsamtökum sem öll eru að óska eftir samræmingu á þessum lögum, að menn búi við sömu réttarreglur, lög og reglur, hvað varðar vinnudeilur og gerist á almennum vinnumarkaði. Þessu er neitað. Það er ríkisstjórnin sem neitar að gera þetta. Það er ríkisstjórnin sem vill miklu þrengri skorður gagnvart opinberum starfsmönnum. Það er því út í hött, misvísandi og fráleitt, að tala eins og Samtök atvinnulífsins gera og því miður hefur gætt í umfjöllun af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans í þessu máli.

Í álitsgerð Félags íslenskra leikskólakennara segir m.a., með leyfi forseta:

,,Aðalrökin sem fram koma í athugasemdum fyrir frumvarpinu eru þau að engin rök standi til þess að aðrar reglur gildi um friðarskyldu opinberra starfsmanna en gildir á almennum vinnumarkaði. Í niðurstöðu Félagsdóms í máli nr. 7/1999 þar sem fjallað var um lögmæti uppsagna 11 leikskólakennara í Árborg kemur fram að ekki sé hægt að jafna uppsögnunum til aðgerða sem jafna megi til vinnustöðvana og brots á friðarskyldu, þar sem ekki væru skýr lagaákvæði fyrir hendi. Þessi dómur kalli því á að lögunum verði breytt til til samræmis við það sem gildi á almennum vinnumarkaði. Séu þessi rök notuð hlýtur að gilda það sama um önnur ákvæði laganna, þ.e. að samræma beri þau til hlýtar. Opinberir starfsmenn hafa margoft bent á nauðsyn þess að endurskoða þurfi lögin í heild með hagsmuni beggja aðila að leiðarljósi. Samstarfi um slíkt hefur verið hafnað.

Í frumvarpinu er aðeins verið að gæta hagsmuna annars aðilans með því að þrengja enn meira að réttarstöðu opinberra starfsmanna. Frumvarpið er því til þess að auka enn á það ósamræmi sem gildir í reglum, annars vegar um opinbera starfsmenn og hins vegar um starfsmenn á almennum vinnumarkaði.

Félag íslenskra leikskólakennara harmar það að fjármálaráðherra hefur ekki viljað samstarf við samtök opinberra starfsmanna um breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og leggst því alfarið gegn einhliða breytingum á lögunum sem lagðar eru til í frumvarpinu.``

Undir þetta ritar Björg Bjarnadóttir, formaður Félags ísl. leikskólakennara. En áður í umsögninni hafði komið fram að félagið lítur á það sem samningsrof eða brot á samkomulagi eins og það er orðað í álitsgerðinni, af hálfu fjmrh. að knýja á um samþykkt þeirrar lagabreytingar sem hér liggur fyrir þinginu.

Félag opinberra starfsmanna í Húnavatnssýslu vísar í mótmæli frá stjórn og formannafundi BSRB frá 10. desember, en í þeirri ályktun koma fram mjög hörð mótmæli þessara aðila við einhliða ákvörðun hæstv. fjmrh. eins og ég hef áður getið um.

Starfsmannafélag Neskaupstaðar telur það ranga ákvörðun fjmrh. að breyta lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, einhliða og án samráðs við vinnuviðsemjendur. Að öðru leyti vísar Starfsmannafélag Neskaupstaðar til umsagnar BSRB um frv.

Það sama er líka upp á teningnum hjá Vestmannaeyingum. Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar vísar í umsögn BSRB en mótmælir jafnframt harðlega að þetta frv. verði gert að lögum.

Næst vitna ég í umsögn Meinatæknafélags Íslands um þetta frv., með leyfi forseta:

,,Umsögn Meinatæknafélags Íslands (MTÍ) mótast af þeirri vissu að umrædd lög voru unnin í samvinnu við heildarsamtök opinberra starfsmanna á þeim tíma er þau voru sett.

Stjórn MTÍ er ljóst að endurskoða þarf lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna og bendir á að eðlilegast sé að vinna að heildarendurskoðun í samvinnu við samtök opinberra starfsmanna og þannig verði tekið á öllum þeim atriðum í lögunum, er breyta þarf.``

[24:30]

En síðan kemur einn aðili sem er ekki alveg saklaus í þessu máli, er ég ansi hræddur um, og það er Samband ísl. sveitarfélaga. Einn aðilinn innan sambandsins, sveitarfélagið Árborg, tapaði málinu þegar það krafði Félag leikskólakennara um skaðabætur, reyndi að ná skaðabótum frá Félagi ísl. leikskólakennara vegna uppsagna 12 leikskólakennara. Reyndar segir í umsögn Félags ísl. leikskólakennara að þeir hafi verið 11. Ég veit ekki hvort rétt er. Sennilega er það rétt hjá Félagi ísl. leikskólakennara að það hafi verið 11 starfsmenn sem sögðu upp störfum.

En í álitsgerð Sambands ísl. sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

,,Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 14. janúar sl., var m.a. lagt fram bréf efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dags. 28. des. 1999, þar sem óskað er eftir umsögn um frumvarp til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, 225. mál.``

Svo kemur ein lítil, hugguleg setning. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Stjórnin mælir með samþykkt frumvarpsins.``

Nú er það svo að þessi aðili, Samband ísl. sveitarfélaga, hélt því mjög að ríkisstjórninni að því er ég best veit að knýja á um að þetta frv. yrði lagt fram og það síðan samþykkt. Það er Samband ísl. sveitarfélaga sem er með þessa afstöðu og ég hef mjög sterkan grun um að þarna hafi einhver samtöl átt sér stað á milli sveitarfélaganna annars vegar og fjmrn. hins vegar.

Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins tekur undir umsögn Bandalags háskólamanna og lýsir yfir fullum stuðningi við þá álitsgerð.

En hér kemur einn aðili sem er í ansi undarlegri mótsögn við sjálfan sig frá því fyrir 13 árum síðan, eða skyldu þau ekki nú fljótlega verða orðin 14. Það er hæstv. félmrh. Páll Pétursson. Hann fagnaði samkomulaginu sem var gert í nóvember 1986 alveg sérstaklega og tók fram í umræðum um málið hve glaður hann væri yfir því hvernig staðið hefði verið að málum og hve gott samkomulag hefði náðst við samtök opinberra starfsmanna. Hann tók það sérstaklega fram og skrifar auk þess nafn sitt undir nefndarálit þar sem hann mælir með frv. á sínum tíma. En sérstaklega tók hæstv. núv. félmrh. og þáv. þingmaður, Páll Pétursson, undir vinnubrögðin í tengslum við frv.

Nú segir sami hæstv. ráðherra og þingmaður, Páll Pétursson, eftirfarandi í álitsgerð úr félmrn., með leyfi forseta:

,,Í framhaldi af erindi yðar, dags. 28. des. 1999, vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, vill félagsmálaráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Óhjákvæmilegt er að bregðast við dómi Félagsdóms í máli nr. 7/1999 og taka af allan vafa um að sömu reglur um friðarskyldu á gildistíma kjarasamninga eigi við meðal opinberra starfsmanna sem á almenna vinnumarkaðnum. Með hliðsjón af framangreindu styður félagsmálaráðuneytið frumvarpið.``

Hvað skyldi mönnum finnast um svona vinnubrögð? Menn tapa máli fyrir dómstólum. Atvinnurekandinn tapar máli fyrir dómstólum. Það kemur á daginn að sveitarfélagið Árborg fær ekki kröfu sinni framgengt um að krefja stéttarfélag fébóta vegna aðgerða sem það var saklaust af. Þá gengur hæstv. fjmrh. fram fyrir skjöldu og breytir lögunum. Og félmrh. landsins sem er hér væntanlega fyrir hönd okkar allra landsmanna að gæta félagslegs réttlætis --- það er hans hlutverk að farið sé að lögum og reglur séu virtar --- segir: ,,Vegna þess að sveitarfélagið tapaði málinu þá breytum við bara reglunum, breytum lögunum.``

Finnst mönnum þetta eðlilegt? Mér finnst það ekki. Mér finnst hins vegar að menn geti haft á því skoðun hvort þær reglur sem eru við lýði séu réttar eða nógu góðar eða þau lög sem við störfum samkvæmt. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu þá leita þeir eftir samkomulagi, ekki síst ef lögin og reglurnar urðu til upp úr samkomulagi, upp úr því sprottnar. Ég hef vakið rækilega máls á því hér við umræðuna að svo var og að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn og allt þingið taldi svo vera, eins og rækilega kom fram í umræðu um málið á sínum tíma.

Í umsögn Starfsmannafélags Akureyrarbæjar um þetta frv. koma fram hörð mótmæli. Það er vísað til umsagnar BSRB en STAK mótmælir harðlega framlögðu frv. til laga.

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar lýsir eindreginni andstöðu við að frv. þetta verði að lögum og til nánari rökstuðnings er vísað til umsagnar BSRB frá 6. janúar 2000 um þetta sama mál.

Kennarasamband Íslands sendir frá sér allítarlega greinargerð. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Kennarasamband Íslands leggst alfarið gegn samþykkt frumvarpsins með eftirtöldum rökum.

Núgildandi lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna voru samþykkt á grundvelli samkomulags heildarsamtaka opinberra starfsmanna annars vegar og fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar. Samkomulag þetta var undirritað 24. nóvember 1986. Breyting á lögunum án þess að gera fyrst tilraun til þess að ná um þær samkomulagi við samtök opinberra starfsmanna er því brot á nefndu samkomulagi.

Fulltrúar Kennarasambands Íslands hafa ásamt fulltrúum BSRB og BHM lýst yfir vilja sínum til að leggja vinnu í heildarendurskoðun þar sem reynt verði að samræma sem mest réttarstöðu opinberra starfsmanna annars vegar og launafólks á almennum vinnumarkaði hins vegar, hvað varðar leikreglur við gerð kjarasamninga. Þessu boði hefur nú verið hafnað af fjármálaráðherra sem hefur kosið að ganga erinda Sambands íslenskra sveitarfélaga og breyta einhliða einu ákvæði laganna án þess að gera minnstu tilraun til þess að bæta um leið réttarstöðu opinberra starfsmanna í þeim tilfellum þar sem réttarstaða þeirra er lakari en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.

Kennarasamband Íslands vill í þessu samhengi taka skýrt fram að samræming sem byggði á því að þrengja að einhverju leyti réttarstöðu launafólks á almennum vinnumarkaði, með því að færa almennu löggjöfina í átt til þess sem lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna kveða á um, kæmi ekki til greina.

Það vekur furðu að lesa þann hluta greinargerðarinnar þar sem segir orðrétt: ,,enda standa engin rök til þess að aðrar reglur gildi um friðarskyldu opinberra starfsmanna.``

Þessi framsetning vekur upp spurningar um það hvort löggjafinn telji þá eðlilegt að um opinbera starfsmenn séu í gildi lagaákvæði sem valda því að réttur þeirra samkvæmt lögum sé að einhverju leyti þrengri en réttur annars launafólks í landinu.

Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er að finna ákvæði þess efnis að vinnuveitenda sé heimilt að framlengja uppsagnarfrest starfsmanna í allt að 6 mánuði undir vissum kringumstæðum. Kennarasamband Íslands vill vekja athygli á því að þegar þessi lagagrein er skoðuð í samhengi við frumvarpið er vinnuveitandi komin í þá aðstöðu að geta nánast haldið starfsmönnum nauðugum í vinnu svo mánuðum skiptir ef hann svo kýs.

Kennarasamband Íslands bendir á að það virkar ekki traustvekjandi fyrir hinn almenna borgara þegar Alþingi tekur sig til og breytir lögum í beinu framhaldi af dómsmáli sem opinberir aðilar tapa eins og verið er að reyna í þessu tilfelli.

Kennarasamband Íslands ítrekar andstöðu sína við að áðurnefnt frumvarp verði að lögum en skorar þess í stað á fjármálaráðherra að verða við beiðni samtaka opinberra starfsmanna um að taka lögin í heild sinni til endurskoðunar með það að markmiði að leggja fram frumvarp til laga sem væri öllum hagsmunaaðilum til bóta.``

Undir þessa álitsgerð Kennarasambands Íslands ritar formaður sambandsins Eiríkur Jónsson.

Í álitsgerð sem efh.- og viðskn. barst frá Alþýðusambandi Íslands, undirritaðri af Grétari Þorsteinssyni, forseta sambandsins, kemur fram það eindregna sjónarmið að stefna beri að því að samræma alveg þær reglur sem gilda um opinbera starfsmenn annars vegar og almennan vinnumarkað hins vegar, þ.e. lögin nr. 94/1986 og lögin um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938, þ.e. lög nr. 80/1938. Þetta er afstaða Alþýðusambandsins sem telur brýnt að samræmdar reglur gildi á vinnumarkaðnum öllum. Þarna eru stærstu launþegasamtök á Íslandi sammála um að eðlilegt sé að stefna að því að samræmi gildi. Það er hins vegar ekki heilladrjúgt skref sem menn eru að stíga í þá áttina.

Ég hef lagt áherslu á mikilvægi þess að menn leiti eftir samráði. Það hefur gengið á ýmsu í gegnum árin en jafnan þegar leitað hefur verið eftir samráði um umdeild efni hefur það borið góðan árangur. Þannig má minna á setningu grunnskólalaga árið 1995. Þar var gott samráð á síðustu stigum málsins vegna yfirlýsinga um að grunnskólinn yrði ekki fluttur nema um það næðist sæmileg sátt milli ríkis, sveitarfélaga og samtaka kennara. Það var virkt samráð um þessi efni á tímabilinu 1994--1995. Þetta gaf góða raun, með öðrum orðum þá var gefin út yfirlýsing um að af þessum breytingum yrði ekki nema sæmileg sátt ríkti áður milli ríkis, sveitarfélaga og samtaka kennara.

[24:45]

Varðandi flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga þá var virkt samráð um alla hluti nema fjármálin. Það leiddi til samkomulags um öll atriði er vörðuðu réttindi starfsfólks og skyldur ásamt samkomulagi um meðferð faglegra mála. Hins vegar var ekkert samráð við stéttarfélög um fjármálin. Þetta gerðist á tímabilinu 1995--1996.

Þá kemur að frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem kom fyrir Alþingi á árinu 1996 og varð að lögum það ár. Þar var ekki um neitt samráð að ræða og lögin sett í fullkominni andstöðu við samtök opinberra starfsmanna. Það var ekki gæfuspor. Í þeim lögum er að finna ýmis ákvæði sem eru vægast sagt mjög varhugaverð og unnt hefði verið að forðast ef menn hefðu borið gæfu til að leita eftir samráði á milli aðila um það efni.

Í lögunum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var í upphafi ekki um að ræða samráð að nokkru marki. Upphaflega var frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins lagt fram í fullkomnu ósætti og andstöðu við samtök opinberra starfsmanna. En eftir mikil fundahöld BSRB, BHM og KÍ með þúsundum félagsmanna og eftirlaunaþega dró forsrh. það til baka og einnig vegna þess að upphaflega frv., hefði það orðið að lögum, hefði verið brot á 57. gr. grunnskólalaga. Í kjölfarið hófst mikil vinna fulltrúa samtakanna og fjmrh. við að vinna drög að nýju frv. þar sem víðtæk sátt náðist um efni þess frv. sem síðan varð að lögum frá Alþingi þótt nokkrar breytingar væru gerðar á því í meðförum þingsins.

Sannast sagna voru breytingarnar sem gerðar voru á frv. í meðförum þingsins afskaplega vafasamar og hafa komið mönnum í koll síðan. Þar má nefna breytingu sem hafði það í för með sér að einstaklingur sem vildi velja á milli A-deildar og B-deildar sjóðsins gat það ekki nema fram að tilteknum tímamörkum. Menn töldu að með því móti væri annars vegar sett pressa á fólk með að taka ákvörðun hið fyrsta og hins vegar gæti þetta raskað tryggingafræðilegri samsetningu og samspili væri þetta að gerast öllum stundum. Staðreyndin er sú að nú sjá menn mjög eftir þessu. Einstaklingar eiga erfitt um vik að komast á milli deilda sjóðsins eða öllu heldur fara úr B- í A-deild ef þeir hafa ekki áður tekið um það ákvörðun eða gerðu það ekki á réttum tíma.

Hitt atriðið sem breytt var í meðförum þingsins lýtur að réttindaávinnslu fyrir og eftir 65 ára aldurinn. Þar var búið að reikna út tryggingafræðilega hvaða prósentu þyrfti að byggja á en þingið hafði efasemdir um að þar væri rétt að farið og breytti því. Það sem menn áttuðu sig ekki á var að yfir þessu höfðu tryggingasérfræðingar legið mánuðum saman og þeir einfaldlega reiknað út hvað væri rétt og hvað væri rangt í þessu efni. Þetta byggðist einfaldlega á tryggingafræðilegri úttekt.

Herra forseti. Hvað skyldi nú standa upp úr eftir þennan langa lestur minn úr álitsgerðum, úr þinggögnum og þeim hugleiðingum sem ég hef verið með hér? Hvað skyldi standa eftir? Það sem stendur eftir er þetta:

Hér er verið að bregðast við úrskurði Félagsdóms í tilteknu máli hjá sveitarfélaginu Árborg. Samband ísl. sveitarfélaga og væntanlega Samtök atvinnulífsins knýja á um breytingar á lögunum. Það er fyrsta ástæðan fyrir tilurð þessa frv. Menn geta velt því fyrir sér hvort eðlilegt sé að þegar ríkisvald eða sveitarstjórn tapar dómsmáli þá sé þess hefnt á Alþingi, þá sé lögunum einfaldlega breytt vinnuveitandanum í hag. Finnst mönnum þetta eðlilegt? Mér finnst þetta ekki eðlilegt. Þetta er það fyrsta sem stendur upp úr.

Í öðru lagi kemur fram að lögin sem lagt er til að breyta byggja á kjarasamningi. Í fyrsta lagi byggja þau á bókun sem gerð var í kjarasamningum um að leita skuli eftir samkomulagi milli aðila, fjmrh. og sveitarstjórna annars vegar og samtaka launafólksins hins vegar. Með öðrum orðum: Það eru ákvæði í kjarasamningum sem kveða á um að leita skuli eftir samkomulagi um breytingar á þessum lögum. Það samkomulag er gert og það er undirritað. Það er birt sem upphaf greinargerðar með stjfrv. 1986. Í umræðum allra þeirra sem koma að því máli, stjórnarsinna jafnt sem stjórnarandstöðu, kemur ítrekað fram að þetta séu samningar og samkomulag. Þetta segja allir. Forveri hæstv. fjmrh. fullyrðir þetta. Þær nefndir sem fá málið til umfjöllunar skrifa samhljóða undir og hver þingmaðurinn á fætur öðrum kemur í ræðustól og ítrekar það sjónarmið, að hér sé verið að fjalla um samkomulagsatriði. Þetta er annað atriðið sem ég vildi leggja áherslu á.

Í fyrsta lagi þetta: Það er verið að bregðast við úrskurði dómstóls og menn ætla að hefna hans á Alþingi. Að kröfu Sambands ísl. sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins, atvinnurekendavaldsins, á að hefna fyrir þetta á Alþingi.

Í öðru lagi á að knýja fram lagabreytingu á Alþingi og jafnvel þótt um sé að ræða lagabálk og reglur sem byggja á kjarasamningum og undirrituðu samkomulagi sem birt er með greinargerð stjfrv. á sínum tíma. Það er ekki ýkjalangt síðan. Það var árið 1986. Hæstv. þáv. fjmrh., Þorsteinn Pálsson, undirritaði þetta ásamt helstu oddvitum í samninganefnd ríkisins, fullrúa Sambands ísl. sveitarfélaga og forustumönnum viðkomandi stéttarfélaga.

Þriðja atriðið sem ég vil leggja áherslu á er að allir sem hlut eiga að máli, í öllum álitsgerðum sem fram komu um þetta mál, óska eftir heildarendurskoðun á þessum lögum. Allir ítreka það sjónarmið og hæstv. fjmrh. hefur gert það sjálfur. Hann er fylgjandi því að slík endurskoðun fari fram. Hann hefur sagt það í ræðustól, hann hefur sagt það opinberlega annars staðar og hann hefur sagt það við talsmenn samtaka opinberra starfsmanna. Hvers vegna í ósköpunum er þá ekki hægt að gera þetta þannig að leitað sé eftir sátt um málið í viðræðum á milli aðila í stað þess að fara svona að í trássi við óskir og vilja þessara samtaka? Mér er það algerlega óskiljanlegt.

Fjórða atriðið er þetta: Ég hef tekið langan tíma í að fara yfir umsagnir sem hafa borist Alþingi um þetta mál, sumar mjög ítarlegar. Ég hef farið allrækilega í umsagnir BSRB, BHM og Kennarasambandsins. Ég hef lesið stóra hluta þessara álitsgerða vegna þess að mér finnst skipta máli að fram komi hvert álit þessara aðila er. Ég hef einnig vikið að álitsgerðum annarra aðila, tuga aðildarfélaga þessara heildarsamtaka sem sest hafa yfir þessi mál og sent Alþingi álit sitt. Ég spyr: Finnst mönnum það einskis virði? Skiptir engu máli hvað þessum aðilum finnst, hvort sem um er að ræða félög starfsmanna sveitarfélaga (PHB: ASÍ.) sem fjölmörg hafa sent álitsgerðir? ASÍ kallar hv. þm. Pétur H. Blöndal fram í og vill örva þessa umræðu. Honum skal verða að þeirri ósk sinni. Hann vitnar í álitsgerð ASÍ. Álitsgerð ASÍ gengur út á að lögin sem gilda um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 1986 og lögin sem gilda á almennum vinnumarkaði um stéttarfélög og vinnudeildur frá 1938 verði samræmd. Það er álit þeirra og í fullkomnum takti við það sem samtök opinberra starfsmanna segja. (PHB: Það er verið að gera.) Og það er verið að gera, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Það er verið að gera það að einu litlu leyti. Hins vegar er ekki tekið á samhengi hlutanna, málin eru ekki skoðuð heildstætt heldur er farið fram einhliða af hálfu annars aðilans gegn óskum hins (PHB: Borða fílinn í bitum.) Borða fílinn í bitum, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal. Þetta mál á ekkert skylt við át og þaðan af síður við át á fílum eða öðrum skepnum.

Þetta mál snýst um vinnubrögð, um afstöðu þeirra sem fara með völdin í samfélaginu og hvernig þeir beita þeim völdum. Ég verð að segja að það liggur við að ég lýsi yfir hryggð minni yfir því að sjá þá kúvendingu sem orðið hefur hjá mörgum stjórnarliðum í þessu máli. Ég vísa í álitsgerð hæstv. félmrh. í því efni sem hér á haustdögum 1986 fagnaði sérlega vönduðum vinnubrögðum hæstv. fjmrh. um að leita eftir að ná samkomulagi við heildarsamtök opinberra starfsmanna. Hann fagnar því sérstaklega. Núna skrifar hann álitsgerð fyrir hönd félmrn. sem gengur þvert á þessa afstöðu og lýsir yfir stuðningi við að frv. þetta verði samþykkt.

Ég hef vitnað í aðra ágæta stjórnarliða úr umræðunni frá 1986, t.d. hv. þm. Jón Kristjánsson. Fyrrv. fjmrh., Friðrik Sophusson, skrifaði undir þessa álitsgerð. Fyrrv. hæstv. forseti Alþingis, Ólafur G. Einarsson, skrifaði undir álitsgerðina. Ég vitnaði í ummæli þingmanna úr öllum flokkum: Kjartans Jóhannssonar, Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, Guðrúnar Agnarsdóttur, Svavars Gestssonar, Jóns Kristjánssonar, Páls Péturssonar, Þorsteins Pálssonar. Allir þeir sem tóku til máls um þetta voru á einu máli um hvernig að verki hefði verið staðið og hvernig ætti að bera sig að við breytingar á þessum lögum. Jafnvel smávægilegar breytingar sem þá voru gerðar á frv. í meðförum þingsins voru gerðar í samráði við samtök opinberra starfsmanna.

[25:00]

Ég minni einnig á, herra forseti, þegar menn eru að hneykslast yfir aðgerðum af því tagi sem lögin beinast gegn, hópuppsögnum, að menn skyldu skoða hina hliðina einnig. Menn skyldu skoða framgangsmáta atvinnurekandans líka, hvort sem það er fjmrh. eða einstakir forstöðumenn stofnana hjá ríki eða sveitarfélögum.

Ég vísaði áðan í fyrirspurn sem ég hefði sett fram og beint til hæstv. fjmrh. Þar var spurt nokkurra mjög einfaldra spurninga. Það er spurt, með leyfi forseta:

,,1. Hver voru að meðaltali í janúar 1997 og janúar 2000 mánaðarlaun, þ.e. föst laun og grunnlaun ef þau eru önnur:

a. sjúkrahúslækna,

b. almennra hjúkrunarfræðinga, að frátöldum aðstoðardeildarhjúkrunarfræðingum og hærra launuðum hjúkrunarfræðingum,

c. hjúkrunarfræðinga,

d. sjúkraliða,

e. aðstoðarfólks á Ríkisspítölunum?``

Hverju skyldi vera svarað? Spurt er um föst laun og grunnlaun ef þau eru önnur. Það er svarað með upplýsingum um heildartekjur og síðan segir í athugasemdum sem fjmrn. birtir, með leyfi forseta:

,,Ekki er alveg ljóst hvað átt er við með föstum launum, enda þyrfti sérstaka vinnslu til að aðskilja þau frá öðrum launum. Því var hér reiknað meðaltal heildarlauna á stöðugildi hjá viðkomandi hópum, eftir því sem unnt var. Ekki var unnt að taka tillit til breytinga á vinnumagni á tímabilinu og getur það haft áhrif á útkomuna.``

Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Ég spyr: Er þetta gert til þess að afvegaleiða? Ég bara spyr. Er þetta gert til að blekkja? Er þetta gert vegna þess að sjúkraliðar á Ríkisspítölum hafa sagt upp störfum? Er það vegna þess? Má ekki upplýsa um launaþróunina? Hvað skyldi hjúkrunarfræðingum finnast um þetta svar sem gefur til kynna hækkanir og launakjör sem eru ekki raunveruleg? Spurt er um föst laun og grunnlaun, ef þau eru önnur. Svar segir til um heildarlaun án tillits til vinnuframlags, án tillits til þess hvort einstaklingurinn tekur á sig mikla aukavinnu. Því er svarað til að hjúkrunarfræðingar séu með 265 þús. kr. án tillits til vinnuframlags. Ég spyr: Hvernig fer Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, B-deild, sem fær iðgjöld af föstum launum, ekki heildarlaunum heldur föstum launum, að því að reikna þetta út ef að mati fjmrn. er ekki unnt að skilgreina hvað eru föst laun og hvað eru grunnlaun? Hvernig fer deildin að? Hvernig fara þeir að því að greiða yfirvinnu ef enginn veit hvar grunnlaunum sleppir? Er það hægt? Ég bara spyr. Að sjálfsögðu er hægt af finna út grunnlaunin.

Síðan kemur önnur spurning í fyrirspurn minni:

,,2. Hver voru í janúar 1997 og janúar 2000:

a. byrjunarlaun sjúkrahúslækna í lægsta virka launaflokki/þrepi,

b. mánaðarlaun sjúkrahúslækna í efsta þrepi að meðaltali,

c. byrjunarlaun almennra hjúkrunarfræðinga í lægsta virka launaflokki/þrepi ... ?``

Síðan er haldið áfram og vísað til annarra starfsstétta: sjúkraliða, aðstoðarfólks við aðhlynningu á Ríkisspítölunum í lægsta virka launaflokki eða þrepi, mánaðarlaun aðstoðarfólks við aðhlynningu á Ríkisspítölunum í efsta þrepi, með og án námskeiðshækkana o.s.frv.

Hver voru svörin? Þau eru bara engin. Í flestum tilvikum er engu svarað. Þegar spurt er um hlutfallslegan mun á milli stétta eiga menn líka afskaplega erfitt með að svara, þá er ekki svarað heldur. Aðeins tilteknir hópar eru teknir út. Þar eru teknir gæslumenn og sjúkraliðar. Það er ekki vísað til annarra stétta sem spurt er um. Í athugasemdum er sagt:

,,Um sambærileg þrep milli þessara hópa er ekki að ræða nema milli sjúkraliða og gæslumanna 1997. Þrep sérfræðinga miðast við árafjölda eftir útskrift úr háskóla og eðli málsins samkvæmt ráðast þeir ekki sem sérfræðingar fyrr en að loknu sérfræðingsnámi, mörgum árum eftir læknapróf.``

Hvað kemur þetta málinu við, aðdragandinn að fólk kemur til starfa? Hugsanleg skýring á því að launakjör eru mismunandi er að þeir sem hafa langskólamenntun að baki búi iðulega við hærri og betri launakjör. Það er skýring en dugir ekki sem afsökun fyrir því að neita að gefa svör um hver séu byrjunarlaun viðkomandi starfshópa þegar þeir koma til starfa á sjúkrahúsunum. Og ég spyr: Hvað vakir fyrir hæstv. fjmrh., að svara svona út í hött og neita að gefa upplýsingar sem honum ber samkvæmt þingskapalögum að veita? Er að undra að ástandið verði tilfinningaþrungið þegar komið er inn á þessar stofnanir og þar ríki ekki fullkomið traust? Þegar það ástand magnast og versnar hefur það iðulega leitt til þess að fólk hefur gripið til þess ráðs að segja upp störfum. Það gerir það af mismunandi ástæðum, sumir einfaldlega vegna þess að þeir vilja hverfa til annarra starfa, aðrir eflaust vegna þess að þeir vilja reyna að ná einhverju sameiginlegu markmiði. Er að undra að í ljósi þessarar ó\-ábyrgu afstöðu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar, að neita að gefa sjálfsagðar upplýsingar, að ástandið sé ekki alltaf ákjósanlegt? Ég bara spyr. Og ég spyr: Finnst hæstv. fjmrh. hann ekki hafa neina ábyrgð? Finnst honum það allt í lagi að koma fram með frv. gegn ábendingum, vilja, óskum og kröfum allra heildarsamtaka opinberra starfsmanna og aðildarfélaga þessara sömu samtaka sem vísa til þess að frv. sem verið er að gera breytingar á byggi á kjarasamningum og samkomulagi og sé grunnmúrað í þinggögnin sem slíkt?

Finnst hæstv. fjmrh. ekkert athugavert við þessa framgöngu? Finnst honum þetta allt í lagi? Finnst hæstv. fjmrh. það fallið til að skapa frið og góðan vinnuanda þegar spurt er um upplýsingar sem honum ber samkvæmt upplýsingalögum að veita og sem starfsfólk á opinberum stofnunum óskar eftir að fá upplýsingar um, að hann hunsi það og veiti engin svör, svari út í hött eða hreint ekki? Finnst hæstv. ráðherra þetta ekki skipta nokkru einasta máli? Finnst honum hans ábyrgð engin?

Menn tala um að fólk verði að fara fram af sanngirni, það þurfi að virða reglur og lög. Af hverju gerir hæstv. fjmrh. það ekki? Af hverju virðir hann ekki þingskapalög um að veita upplýsingar eins og beðið er um? Hvernig stendur á því? Af hverju fer hann ekki að upplýsingalögum? Ég spyr. Hvers vegna virðir hann að vettugi samkomulag sem gert var á sínum tíma á milli samtaka opinberra starfsmanna, ráðuneytisins og sveitarfélaga? Hvers vegna blæs hann á það? Er ábyrgð hans engin? Finnst honum það ekki skipta neinu máli? Finnst honum það ekki skipta neinu máli þegar öll þau samtök sem hér áttu hlut að máli óska eftir því við hann að málinu verði skotið á frest? Þegar álitsgerðir berast frá aðildarfélögum þessara samtaka í þessa veru, finnst honum það ekki skipta neinu máli? Engu? Finnst honum lögin þess eðlis að samkvæmt hans mati sé eðlilegt að keyra frv. í gegn? Finnst hæstv. ráðherra þetta eðlileg vinnubrögð? Mér finnst þetta ekki vera eðlileg vinnubrögð, herra forseti.

Ég ætla að enda þessa fyrri ræðu mína við 3. umr. um málið á þeim spurningum ég beindi til hæstv. fjmrh. og óska að sjálfsögðu eftir skýrum og greinargóðum svörum af hans hálfu.