Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 11:37:32 (6987)

2000-05-08 11:37:32# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, EKG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[11:37]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram að ríkisstjórnarflokkarnir og alveg sérstaklega Sjálfstfl. hafi ekki viljað ræða Evrópumálin. Þetta er auðvitað algjörlega rangt. Við höfum hins vegar haldið því fram að aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sú skýrsla sem við erum hér að ræða og er fyrir framan okkur er dæmi um það hvernig við viljum leggja upp þessa umræðu. Við viljum gera það á grundvelli þekkingar og við viljum gera það á grundvelli upplýsinga sem síðan er hægt að ræða um, einfaldlega vegna þess að hér er um að ræða ákaflega flókið mál sem menn þurfa að skoða allar hliðar á. Þess vegna er alveg fráleitt að hægt sé að taka ákvörðun um málið á grundvelli upphrópana eða sleggjudóma og fyrir fram gefinna forsenda alveg eins og átti sér stað varðandi Alþfl. hinn forna sem var að leggja það til stöðugt og ævinlega að leggja inn aðildarumsókn til þess að geta skoðað hvað væri í pottinum, ekki á grundvelli upplýsinga eins og þeirra sem við höfum hérna heldur á grundvelli pólitískrar niðurstöðu í þeim flokki.

Þess vegna var það mjög athyglisvert sem kom fram í máli hv. 7. þm. Reykv., nýkjörins formanns Samfylkingarinnar, sem sagði hérna áðan að nú væri ekki komið að ákvarðanatöku varðandi aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að hv. þm. er kominn á undanhald, er kominn á hraðan flótta frá sínum eigin málflutningi og það stendur auðvitað upp úr í þessari umræðu.

Sú skýrsla sem við ræðum um hérna sýnir okkur mjög vel og vandlega, og það er mjög mikilvæg niðurstaða í þessari umræðu --- ég tek eftir því að samfylkingarfólkið er farið að flissa en það eru gömul viðbrögð þegar menn eru komnir í rökþrot að reyna að flissa eins og (Gripið fram í: Við erum glöð.) fermingarstelpur --- þessi skýrsla sem við erum að ræða sýnir okkur mjög vel og vandlega hversu mikla þýðingu samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði hefur fyrir okkur. Það er ekki nokkur vafi á því að án hans værum við undir miklu meiri pressu en nú um að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Það eru auðvitað sjávarútvegsmálin sem ekki síst hljóta að koma til umræðu þegar við ræðum Evrópumál. Það er alveg ljóst að sjávarútvegsstefna sú sem Evrópusambandið fylgir er algjörlega út úr kortinu fyrir okkur. Það er alveg ljóst að sú stefna fæli í sér fullkomið valdaafsal fyrir okkur sem þjóð, valdaafsal sem við gætum ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt. Við verðum að átta okkur á því, hvað sem menn segja og hvaða umræður sem menn taka um þessi mál, að eitt er alveg ljóst, það er ekkert til varðandi sjávarútvegsmálin sem heitir varanleg undanþága frá stefnu Evrópusambandsins. Það er auðvitað augljóst mál fyrir hvern þann sem skoðar málin hjá Evrópusambandinu og sér þá þróun sem þar hefur orðið að þróunin hefur einmitt verið í þá átt að reyna að draga úr öllum undanþágum vegna þess að þær eru í ósamræmi við Rómarsáttmálann og algjörlega í ósamræmi við alla þá þróun sem hefur verið í samstarfi ríkja innan Evrópusambandsins. Þess vegna finnst mér undarlegt að vera að reyna að drepa þessu máli á dreif með því að tala um að skilgreina þurfi samningsmarkmið þegar það liggur alveg fyrir hvað um er að ræða þegar við tölum sérstaklega um sjávarútvegshlutann í samstarfinu innan Evrópusambandsins.

Við vitum að núna stendur yfir grundvallarendurskoðun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og það liggur líka nokkuð ljóst fyrir í hvaða átt sú endurskoðun er að stefna. Það er alveg augljóst mál að ekkert af því sem þar er að finna gefur okkur tilefni til þess að ætla að við getum starfað innan þeirrar stefnumörkunar.

Að vísu er rétt sem haldið hefur verið fram að veiðireynslan gæti gefið okkur forskot en sú veiðireynsla væri mjög fljót að hverfa vegna þess að eitt er öruggt og það er að um leið og við mundum ganga inn í Evrópusambandið og axla þá ábyrgð sem þar væri um að ræða, þá félli um leið niður það bann sem núna gildir um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi. Og það væri mjög ömurleg niðurstaða vegna margra áratuga og alda baráttu okkar fyrir fullum yfirráðarétti yfir landhelgi okkar ef við lentum í þeirri stöðu að erlendar þjóðir kæmust bakdyramegin inn í fiskveiðilögsögu okkar. Þess vegna er undarlegt að menn reyni að tala um það eins og það sé eitthvert samningsmarkmið sem menn geta sett sér í þessum efnum þegar það liggur alveg fyrir til hvers samningur við Evrópusambandið um aðild okkar hlyti óhjákvæmilega að leiða í þessum efnum.

Annað sem líka er nauðsynlegt að vekja athygli á er það að grundvallaratriði í sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er að stýra stærð flotans. Hér liggja fyrir a.m.k. tveir hæstaréttardómar sem fela í sér að það er ekki leyfilegt og stenst ekki jafnræðisákvæði okkar. Þess vegna er ljóst að ef við gengjum í Evrópusambandið og öxluðum sjávarútvegsstefnu þess þá yrðum við um leið að breyta stjórnarskránni hvað þetta áhrærir og afnema þann þátt stjórnarskrárinnar sem hæstaréttardómarnir gengu út frá og menn hafa verið að fagna á undanförnum dögum.