Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 12:35:44 (6993)

2000-05-08 12:35:44# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[12:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu. Mér sýnist að hún sé faglega unnin og höfundar virðast halda sig við staðreyndirnar í stórum dráttum. Dálítil gagnrýni hefur komið fram frá þeim sem hafa stundað þetta Evróputrúboð hvað harðast, þessum Evrópusambandsagentum og gagnrýnin byggist á því að ekki sé verið að fela staðreyndir sem þeir ekki vilja sjá. Ókostirnir eru ekki faldir, þeir eru tíundaðir líka.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, gerði vinnumálakafla skýrslunnar að umtalsefni. Í framhaldi af því vil ég taka fram að ég hef ekki breytt stafkrók í þeim kafla. Hann var skrifaður af embættismönnum ráðuneytisins en ég breytti engu í þeim kafla. Að hluta til var hann skrifaður úti í Brussel af fulltrúa sem við eigum þar og að öðru leyti á vinnumálaskrifstofu og þá einkum af starfsmanni þar sem heitir Gunnar Sigurðsson og er ólíklegur til þess að halla á Evrópusambandið.

Ég tel að samning þessa kafla hafi verið fullkomlega eðlileg. Það er getið um það sem stjórnvöld hafa komið að. Þann kann að vera að það sé ekki nákvæm upptalning á öllum atriðum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um innbyrðis án atbeina stjórnvalda. Tekið er fram að það megi halda því fram að EES-samningurinn hafi bætt réttarstöðu launafólks á Íslandi og hægt er að tíunda dæmi um það að EES-samningurinn hafi bætt stöðu launafólks á Íslandi.

Það er eitt atriði sem mér sýnist ekki rökrétt í skýrslunni og ég get ekki stillt mig um að efna. Það er þetta með stöðu sauðfjárræktarinnar. Það er fullkomlega órökrétt að halda því fram að staða sauðfjárræktarinnar verði jafngóð eða betri með inngöngu í Evrópusambandið því að öll þau rök sem tíunduð eru annars staðar í skýrslunni leiða til annarrar niðurstöðu.

Niðurstaða skýrslunnar er í mínum huga sú að það sé dýrt að kaupa sig inn. Það kosti 8 milljarða að óbreyttu. Eitthvað hærra ef Austur-Evrópuríki koma í kompaníið. Hugsanlega er hægt að ná til baka í gegnum styrki frá Evrópusambandinu helmingnum af þeirri upphæð eða kannski ríflega það og þá frekast til byggðamála. Væri vilji til að leggja fé til byggðamála, ef við hefðum 8 milljarða handbæra væri einfaldara að mínum dómi að leggja peninga til byggðamála án atbeina frá Brussel. Fjárhagslega er innganga greinilega mjög óhagkvæm og að því eru leidd mjög sterk rök og birt í þessari skýrslu. Landbúnaði og sjávarútvegi yrði innganga greinilega mjög þung í skauti og stjórnarfarslega væri glapræði að afsala okkur þeim sjálfsákvörðunarrétti sem aðild útheimtir.